Neyðarkall heilbrigðisþjónustunnar

Uppsögn Björns Zoega framkvæmdastjóra Landspítalans undirstrikar þá alvarlegu stöðu sem heilbrigðisþjónusta landsmanna er komin í.  Allar starfsstéttir heilbrigðisþjónustunnar hafa sent út neyðarkall. Þær staðfesta að ekki er lengur  hægt að veita það félagslega  öryggi og þau gæði heilbrigðisþjónustu sem landsmenn vilja hafa og  talin var  sátt um.  Sérfræðideildir eru undirmannaðar, nauðsynlegustu tæki mörg biluð og úrelt. Heilu landshlutarnir eru án fullnægjandi heilbrigðisþjónustu langtímum saman. Fólk þarf að ferðast hundruð kílómetra til að sækja nauðsynlega læknisþjónustu.  Landspítalinn, flaggskip sérhæfðar heilbrigðisþjónustu er í sárum.

Þessi staða hefur hinsvegar átt sér aðdraganda og á ekki að koma neinum á óvart. Hún kemur í raun lítið sem ekkert „hruninu“ við, heldur er það notað sem skálkaskjól og  afsökun fyrir aðgerðum og aðgerðarleysi undanfarinna ára.   Einmitt í "hruninu" áti að forgangsraða í  þágu heilbrigðisþjónustunnar.

Uppsögn forstjórans eðlileg

Reyndar má segja að framkvæmdastjóri Landspítalans hafi ekki átt annars úrkosta en að segja af sér eftir launahækkunina sem gerð var að tjaldabaki  fyrr á árinu. Enda fylgdi  þeim gjörningi eðlileg hrina átaka um kaup, kjör og starfsaðstæður alls heilbrigðisfólks í kjölfarið.

Hvort sem launa og kjaraviðbótin var nauðsynleg til að „ halda góðum manni í starfi", eins og ráðherra sagði, sýndi hún fádæma  skilningsleysi og dómgreindarskort, hún  var eins og endanlegt trúnaðarrof milli heilbrigðisþjónustunnar og stjórnvalda.

Starfsfólki í heilbrigðisþjónustu og almenningi í landinu var nóg boðið. Hins vegar hlaut að koma að uppgjöri gagnvart stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum. Skipulagsleysi, fálm og blóðugur niðurskurður hlaut að leiða hana endanlega út  á bjarg brúnina.

Það er ekki aðeins forstjóri Landspítalans heldur fjöldi starfsfólks í heilbrigðisþjónustunni um allt land, sem finnur sig ekki geta tekið þátt í  að hrinda henni fram af bjargbrúninni. Þetta er búið að eiga sér aðdraganda. Þar virðist lítill munur á hvaða stjórnmálaflokkar eru í ríkisstjórn, því miður.

 Ég hef áður lýst því hversu mér blöskraði hræsnin í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem ég sat í um tíma,  allt velferðartalið og „verja heilbrigðisþjónustuna“ þegar svo hún var miskunnarlausast skorin niður og kostnaði velt yfir á notendur.

Skipbrot einkavæðingarstefnunnar

Ég man líka slaginn við fyrri ríkisstjórnir Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og síðar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þegar að einkavæða átti nánast alla heilbrigðisþjónustu, gera Landspítalann að hlutafélagi, sem reka átti á rekstrarlegum arðsemisgrunni. Svo var um fleiri grunnstofnanir heilbrigðis- og öldrunarþjónustunnar.  Sjúklingaskrár og biðlistar áttu að vera markaðsvara og hvíldi yfir þeim sérstök viðskiftaleynd.

Með skipulagslausu samkrulli einkavæðingar í heilbrigðisþjónustu á undanförnum árum hefur  markmið og heildarstefna farið á tvist og bast og hugmyndafræði félagslegrar heilbrigðisþjónustu þynnst út. Þessi aðferðarfræði gengur meðan verið er að hola kerfið að innan, en svo kemur hrunið og það er að gerast nú.

Stjórnir og tengsl og aðkoma heimamanna við opinbera heilbrigðisþjónustu var skorin af í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokkss; það að blanda heimamönnum eða samfélaginu, notendum í sína eigin grunnþjónustu,  truflaði einkavæðinguna og torveldaði niðurskurðinn. Að skera af heilbrigðisstjórnir í heimahéruðum var sérstakt kappsmál framsóknarmanna í heilbrigðislögunum  2003.

Landsíminn  var seldur og til að sá gjörningur gengi í landsmenn átti að byggja nýtt sjúkrahús fyrir söluverðið á næstu 2- 5 árum.    Dráttur á nýbyggingu Landspítalans  er engin afsökun fyrir því skipulagsleysi, tækjaskorti, öryggisleysi og vanlíðan heilbrigðisþjónustunnar sem við nú stöndum frammi fyrir.

Þarf nýja hugmyndafræði félagslegrar velferðar

Það voru mikil mistök þegar hugtökunum í lagaumgjörð um heilbrigðismál var breytt úr þjónustu í rekstur. Það sem við þurfum fyrst og fremst er grundvallar hugarfarsbreytingu að baki heilbrigðisþjónustunnar, miklu frekar en að umræðan snúist  aðeins um  þúsundir rúmmetra af steinsteypu.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband