Davíð og Golíat - Færeyjar og ESB


Á morgun  28.ágúst, koma til framkvæmda refsiaðgerðir ESB gagnvart Færeyingum. Færeyingar, þessi harðduglega 48 þús. manna eyþjóð á nánast allt sitt undir sjávarútvegi sem gefur þeim yfir 90% af útflutningstekjum.
ESB ríkin 28 eru samtals með  aðeins með um 6% af heildarkvóta í síld.  Í efnahagslegu tilliti skiptir síld þá sáralitlu máli.  Risinn  ESB telur  sig þess umkomna að beita  ólöglegum viðskiftaþvingunum, löndunarbanni  og refsiaðgerður gagnvart einu af minnstu ríkjum heims vegna síldveiða  innan sinnar eigin lögsögu.  Færeyingar hafa fært rök fyrir sínum aðgerðum en einnig lýst sig reiðubúna  og beinlínis óskað eftir  að fara yfir þau við samningaborðið þar sem á að bera upp svona mál og leysa .      

 Hryðjuverkalög og viðskiptaþvinganir 

Það er aumingjalegt  og sýnir innræti  gömlu nýlenduveldanna í ESB að taka "lögin" í sínar hendur, brjóta alþjóðasamninga og sperra stélið til þess að sýna umheiminum mátt sinn og ráðast á lítið eyríki í Atlantshafi. Að vísu er þetta  í takt við það þegar Bretar beittu hryðjuverkalögum á Íslendinga með samþykki yfirstjórnar ESB. Þar var um að ræða ofbeldisaðgerð stórþjóðar gegn smáþjóð á viðskiptasviði.  Jafnframt er ástæða til að benda á að ofbeldi í viðskiptum sem byggir á mismun á afli vegna stærðar kemur næst á eftir beitingu vopnavalds þar sem sá stærri kúgar þann minni.

  Aumingjaháttur Dana

Aumingjaháttur Dana er  að sitja í bandalagi með þjóðum sem brjóta alþjóðasamþykktir  og láta yfir sig ganga að beita ofsóknum gegn dönskum ríkisborgurum sem Færeyingar eru. Framganga ESB gagnvart Færeyingum og hótanir í garð okkar Íslendinga ættu ein sér að færa okkur heim sanninn um að við eigum ekkert að gera í þetta samband.  Meðan ég var sjávarútvegsráðhera átti ég mjög gott samstarf við færeyska sjávarútvegsráðherrann og  veit að hann er hógvær en fylginn sér. ESB þykist aftur á móti geta deilt og drottnað í þessum efnum sem öðrum  í skjóli afls og stærðarmunar..ESB tók sér einhliða síldarkvóta 1996, 150 þús. tonn í deilu við  Íslendinga, Norðmenn og Færeyinga. Þá báðu Danir Færeyinga að sýna sér miskunn og fengu að landa síld í Færeyjum. 

Styðjum Færeyinga í verki!

Færeyingar hafa í gegnum árin sýnt og sannað að þeir kunna að stíga ölduna þótt hátt rísi og kæmi engum á óvart þó Golíatinn, ESB-  verði sjóveikur og missi jafnvægið í þeim dansi við Færeyinga.
Íslendingar eiga að taka afdráttarlausa afstöðu og vinna með Færeyingum gegn yfirgangi ESB. Færeyingar tóku af skarið og veittu Íslendingum lið og beinan stuðning þegar hryðjuverkalögin voru sett á Íslendinga. Norðurlandaþjóðirnar dönsuðu þá með öðrum ESB ríkjum.
Yfirlýsing  íslenskra stjórnvalda  um stuðning við Færeyinga var góð svo langt sem hún náði, en henni þarf að fylgja hraustlega eftir í verki. Þar fara saman hagsmunir og hugsjónir okkar og Færeyinga.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband