Heiðurskonan Marta í Víðidal, Skagafirði kvödd

Sumt fólk skilur eftir sig minningar á við litla  gimsteina, blóm eða græn laufblöð í hjörtum vina, sem eftir standa á bakkanum,  þegar horfið er á braut  yfir móðuna miklu. Þannig hygg ég að okkur flestum sé innanbrjósts er við kveðjum Mörtu í Víðidal. Við Ingibjörg og fjölskyldan erum þakklát fyrir  að hafa átt samleið með kærleiksríkri og góðri manneskju og notið  samvista við hana.

 Marta  Fanney Svavarsdóttir í Víðidal í Skagafirði var borin til grafar í dag og útförin gerð frá Víðimýrarkirkju.

Því miður gátum við ekki fylgt Mörtu síðasta spölinn en hugurinn var hjá Stefáni og fjölskyldu þeirra hjóna.

 Marta í Skógræktinni eins og hún oft var kölluð var ein af þeim fyrstu sem við Ingibjörg kynntumst í Skagafirði þegar við fluttum heim að Hólum í Hjaltadal 1981.  Skógræktin á Hólum var samvinnuverkefni Hólaskóla og Skógræktarfélags Skagafjarðar og snar þáttur í starfi, ásýnd og umgjörð staðarins. Marta sem þá var  orðin yfirmanneskja í stöð Skógræktar ríkisins í Varmahlíð var vakin og sofin yfir velferð trjáa og skógarlunda í héraðinu og nágrannasveitum.

Sem skólastjóri á Hólum átti ég við Mörtu margvíslegt samstarf þar sem hún var veitandinn en ég þiggjandinn. Til hennar voru sótt ráð og hún deildi út plöntum og hvatti alla sem til hennar leituðu. Hjartahlýja og góð leiðsögn fylgdi hverri plöntu úr hlaði. Skógurinn og trjálundirnir í Reykjarhólnum við Varmahlíð og reyndar víðar um Skagafjörð eru fallegir lundir og gróskumikill skógur, veglegir minnisvarðar um græna fingur og ræktunarstarf Mörtu sem átti hug hennar  allan. Marta var verkstjóri hjá Skógrækt ríkisins í Varmahlíð 1978- 2001  þar til er stöðin var lögð niður. Mér fannst  röng sú ákvörðun stjórnvalda að loka starfs-og þjónustustöðvum Skógræktarinnar eins og í Varmahlíð. En það var liður í einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar á þeim tíma. 

 Heimili þeirra hjóna, Stefáns og Mörtu í Víðidal  bar og geislaði sömu hlýju og gestrisni eins og gróðurinn.  Við Ingibjörg og krakkarnir okkar yngstu nutum þess að koma til Mörtu og Stefáns í Víðidal í stutta heimsókn.  Kakóið og pönnukökurnar vitnuðu um gestrisnina og var gerð góð skil.

Að leiðarlokum þökkum við Mörtu fyrir samferðina. Hún naut verðskuldað mikillar  virðingar í héraðinu og meðal allra sem þekktu til verka hennar. Það var gott að eiga Mörtu að vin og vinirnir voru margir.

 Marta skilur eftir sig gifturíkt starf sem mun bera uppi nafn hennar um ókomin ár: „Guð gefi landi voru margar slíkar“  var sagt um aðra merkiskonu, sem ég heimfæri á Mörtu Fanney Svavarsdóttur í Víðidal.

Marta eins og fleiri af hennar kynslóð voru hvött áfram af bjartsýni, afli og  gleði yfir nýfengnu fullveldi. Lýðveldið Ísland var í augsýn.

“Sú kemur tíð, er sárin foldar gróa,
sveitirnar fyllast, akrar hylja móa,
brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa,
menningin vex í lundi nýrra skóga
”.( Hannes Hafstein)

Blessuð sé minning Mörtu Fanneyjar Svavarsdóttur í Víðidal. Við Ingibjörg sendum Stefáni og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.

(Marta Fanney Svavarsdóttir  var frá Reykjum í Tungusveit, Skagaf.  f. 8.nóv. 1931. D. 15.05. 2013.                Maki: Stefán Gunnar Haraldsson frá Brautarholti  Skagafirði.  Þau stofnuðu nýbýli í landi Víðimýrar 1954 sem þau nefndu Víðidal og bjuggu þar sína búskapartíð. Þau eignuðust fjögur börn, Svavar Harald, Pétur Helga, Jóhönnu Sigríði og Margréti Sigurlaugu)  Nánar er greint frá æviferli og fjölskyldu í Morgunblaðinu í dag. laugardag 25. maí.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband