Fimmtudagur, 23. maí 2013
Ný ríkisstjórn í dag - gömul fer
Sjálfsagt er að óska nýrri ríkisstjórn og einstökum ráðherrum til hamingju og velfarnaðar í starfi. Það er mjög skynsamlegt að stofna á ný sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og þar með að styrkja stöðu þessara grunnatvinnugreina landsbyggðarinnar innan stjórnsýslunnar. Mikilvægt er að skil milli ráðuneyta séu skýr og boðleiðir stuttar og einfaldar. Ég óska Sigurði Inga til hamingju með ráðherrastólinn.
Við stofnun atvinnuvegaráðuneytisins var slegið saman mjög óskyldum þáttum og aðrir sem þar tilheyrðu vistaðir út.
Það að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sýndi bæði dómgreindarleysi og veruleikafirringu forystumanna fráfarandi ríkisstjórnar og vanvirðu gagnvart landsbyggðinni og höfuðatvinnuvegum hennar. Sú sameining var gerð þrátt fyrir mótmæli allra sem þar áttu hlut að máli. Enda var hún fyrst og fremst liður í því að þóknast aðlögunarkröfum ESB og losa sig við tvo ráðherra sem voru formönnunum ekki að skapi.
Það mátti ljóst vera frá upphafi að erfitt yrði fyrir einn mann að hafa yfirsýn yfir óskyld verkefni í svokölluðu "atvinnuvegaráðuneyti". Eftir þessi síðustu tvö ár liggur aðeins sérstakt veiðigjald, landsbyggðarskattur sem enginn kemst enn til botns í hvernig á að reikna út.
Þær kerfisbreytingar sem náðust fram í sjávarútvegi voru gerðar á fyrstu tveimur árum ríkisstjórnarinnar og höfðu mikla þýðingu einkum í minni sjávarbyggðum á landsbyggðinni. Hefði ég þó viljað komast enn lengra í þeim breytingum en við það var ekki ráðið.
Og þrátt fyrir mikinn þrýsting forystu ríkisstjórnarinnar tókst að koma í veg fyrir að kröfurnar um eftirgjöf og aðlögun að skilyrðum ESB í landbúnaði, sjávarútvegi, matvæla- og dýraheilbrigðismálum næðu fram að ganga. Er ég að vonum stoltur yfir mínum hlut þar.
Svipaða sorgarsögu má segja um stofnun svokallaðs velferðarráðuneytis en heilbrigðismálin hafa verið í ólestri og örugglega liðið fyrir flausturskennda sameiningu ráðuneyta og heilbrigðisstofnana enda eru þau mál ein og sér næg verkefni fyrir einn ráðherra.
Síðustu tvö ár hafa verið fráfarandi ríkisstjórn ósköp verklítil og í stað vinnu að velferð almennings hafa formennirnir setið fastir í einstökum þráhyggjumálum og leitað sér að andstæðingum sem hefur verið stjórnunarstíllinn.
Svífur samvinnuhugsjónin yfir vötnum nýrrar ríkisstjórnar
Stjórnarsáttmáli þeirra flokka sem nú taka við er um margt hógvær og sýnir vonandi jarðtengingu við fólkið og atvinnulífið í landinu, ekki síst á landsbyggðinni. Hinsvegar er orðalagið mjög óljóst, talað er um úttektir og nefndir sem ber vitni um nokkurn vandræðagang.
Það er mjög gott ef svo verður í raun að samvinnuhugsjónin og ungmennafélagsandinn svífi þar yfir vötnum. Ég er hinsvegar hissa á því að Framsókn skuli ekki vera með 5 ráðherra eins og Sjálfstæðisflokkurinn og tel það misráðið. Það er ekki svo auðvelt að breyta tölu ráðherra eftir á. Þá væri mjög óviturlegt og spor til baka að leggja niður Umhverfisráðuneytið þó svo eðlilegt geti verið að endurskoða verkefnasvið þess.
Það sem vekur þó mesta furðu er að Vigdís Hauksdóttir einn skeleggasti talsmaður framsóknarmanna á þingi og einlægur andstæðingur umsóknarinnar að ESB skuli vera sett út í kuldann. Eru það ákveðin skilaboð til grasrótarinnar og ESB- andstæðinga sem standa að baki Vigdísar.
Ég veit af kynnum mínum við það fólk sem nú sest á ráðherrabekkinn að hver og einn vill gagnast þjóðinni sem best. Rétt er að leyfa nýrri ríkisstjórn að njóta hveitibrauðsdaganna og sjá hvernig henni tekst að efna hin stóru loforð flokkanna frá því fyrir kosningar.
Eftirgjöf og óljóst orðalag í ESB-málum brennur á nýjum utanríkisráðherra
ESB-umsóknin var lík í lest fráfarandi ríkisstjórnar frá fyrsta degi til hins síðasta. Þess vegna veldur það miklum vonbrigðum hversu yfirlýsingar nýju ríkisstjórnarinnar um Evrópusambandsumsóknina eru veikar og loðnar.Gleymdu formennirnir hverju kjósendum var lofað? Nú er talað um hlé á viðræðum en í samþykkt beggja flokkanna fyrir kosningar var því lýst yfir að þeim yrði hætt. Og einstaka þingmenn og frambjóðendur tóku enn sterkar til orða. Umsóknin um aðild að ESB er pólitískt mál en ekki viðskiptasamningar á vogarskál, og hún snýst um framsal á fullveldi sem ekki á að þurfa neina nefnd í til að gera úttekt á.
Nú hlakkar í ESB-sinnum yfir þeirri eftirgjöf sem sjá má í stefnuyfirlýsingunni, sbr. viðtal við Benedikt Jóhannesson í sjónvarpi í gærkvöld og gleði Stefáns Ólafssonar á Eyjunni í dag.
Það er því ljóst að hné forystumanna hinnar nýju ríkisstjórnar koma bogin til leiks í ESB- málinu. Það átti strax að lýsa því yfir undanbragðalaust að samningum og innlimunarferlinu í ESB væri hætt, afturkalla umsóknin, leysa upp allar samninganefndir og vinnuhópa, segja formanni samninganefndarinnar upp störfum og loka áróðursmiðstöð Evrópusambandsins. Samtímis á að óska eftir samstarfi við Norðmenn um endurskoðun á EES-samningum og byggja upp áframhaldandi sambönd við önnur ríki á grunni tvíhliða samninga eins og verið hefur. Loðið orðalag í þessu stóra máli ríkisstjórnar gengur á svig við stefnu og kosningaloforð stjórnarflokkanna og er erfitt vegarnesti fyrir nýjan utanríkisráðherra.
Ég óska Gunnari Braga hinsvegar farsældar í vandasömu starfi utanríkisráðherra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.5.2013 kl. 10:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.