Krónu- ríkisstjórn komin á koppinn ?

Það er gott að væntanlegir  forystumenn í nýrri ríkisstjórn skulu byrja sinn formlega hitting í "Krónunni" í morgun. Efnahagslíf  Íslendinga og trú á land á þjóð mun byggjast á íslensku krónunni og því verðgildi sem að baki henni stendur. Við munum nú sem fyrr þurfa að treysta á okkur sjálf þar á meðal okkar eigin mynt. Því fyrr sem flestir átta sig á því þeim mun betra fyrir framtíðina

 Það var hreint óþolandi að heyra fráfarandi forsætisráðherra frá fyrsta degi ríkisstjórnar stöðugt hallmæla íslensku krónunni og taka ætti upp ervu þá strax. Mér fannst hún nú reyndar aldrei skilja sjálf mjög mikið í því sem hún var að segja.  Allur vandi átti að leysast með umsókn og innlimun í ESB.  Heimiliskettirnir í kringum forsætisráðherrann í ríkisstjórn og hennar nánustu möluðu sama Evrukattasönginn og nudduðu sér utan í fótleggina og fengu strokur á bakið í staðinn. Og öll smákattahjörðin hvort heldur var innan samtaka atvinnurekenda eða ASÍ mjálmuðu sama sönginn. Sá svikasöngur sem sunginn var evrunni og gegn gjaldmiðli eigin þjóðar myndu einhverjir kalla að varði við drottinssvik. 

Evrusöngurinn verður nú vonandi endanlega kveðinn niður um leið og umsóknin að ESB verður afturkölluð og þjóðin beðin afsökunar á því að íslensk stjórnvöld skuli upp á eindæmi og gegn vilja hennar hafa lagt til að framselja fullveldið erlendu ríkjasambandi. Það er mikið á sig leggjandi til að ESB umsóknin verði afturkölluð refjalaust og þegar í stað og áróðursmiðstöð ESB hér á landi lokað. Það eru hátíðleg kosningaloforð sem hvorki Framsókn né Sjálfstæðisflokkur geta svikið.

Hins vegar verður maður hugsi yfir fréttaflutningi  síðustu daga af stjórnarmyndunarviðræðum. Alltaf er greint frá því sérstaklega  að formennirinr hittist aleinir til að ráða málum og ná saman. Mikið er lagt upp úr því að formennirnir nái vel saman. Þetta eintal formannanna  kann ekki góðri lukku að stýra því ein megin ástæða að baki hrunsins var í rannsóknarskýrslu Alþingis  talin  foringjadýrkun og taumlaust formannaræði. Slíkt formanna- og foringjaræði var einmitt einnig stór hluti af vanda fráfarandi ríkisstjórnar frá fyrsta degi og átti drjúgan þátt í því hvernig  fór fyrir henni.

 Vonandi er að þau mistök endurtaki sig ekki.  En foringjadýrkun nærir valdahégómann og getur byrgt jafnvel bestu mönnum sýn einkum hjá þeim sem eru veikir fyrir í þeim efnum eins og dæmin sanna.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband