Miðvikudagur, 1. maí 2013
Náttúruvernd 1. maí - af heilum hug?
Landvernd og fleiri umhverfissamtök hafa boðað til kröfugöngu fyrir náttúruvernd í dag.
Verndun umhverfisins og einstakra náttúruvætta er órjúfanlegur hluti af fullveldisbaráttu og sjálfstæði hverrar þjóðar. Fullt tilefni er til að veita stjórnvöldum og samtökum atvinnulífs aðhald í umhverfismálum. Að mínu mati væru kröfuspjöld fyrir verndun náttúrunnar eðlilegur hlutur í kröfugöngunni sjálfri, frekar en boðað sé til sérstakrar göngu ofan í kröfugöngu verkamanna á alþjóðlegum baráttudegi þeirra. Verkalýðsbarátta og umhverfisvernd eiga samleið.
Saman fari orð og athafnir í náttúruvernd
Það er eins með náttúruvernd og önnur mál að saman þurfa að fara orð og athafnir, ekki hvað síst hjá þeim sem veljast til forystu og ábyrgðar í þjóðfélaginu. Úr starfi mínu sem ráðherra er mér minnistætt ferlið á rammaáætluninni í ríkisstjórn og á þingi. Eitt af mínum fyrstu verkum sem ráðherra var að skipta um fulltrúa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í verkefnistjórn um rammaáætlun og setja þekkta baráttumanneskju í náttúruvernd, Björg Evu Erlendsdóttur, sem fulltrúa minn. Sú skipan vakti mótmæli og mikinn óróa í ríkisstjórn - verið væri að rugga bátnum í einu pólitískasta máli ríkisstjórnarinnar, eins og komist var að orði af hálfu talsmanns forsætisráðherra sem reyndi að stöðva skipan fulltrúa míns í verkefnisstjórnina á þeim tíma. Aðrir ráðherrar höfðu ekki til þess kjark eða vilja að fara í fótspor mín, þóttust þeir þó vera miklir umhverfissinnar.
VG brást í náttúruverndarmálum
Ég var mjög hugsi yfir þeirri afstöðu og vinnubrögðum sem síðan komu í ljós hjá ríkisstjórn VG og Samfylkingar í vinnunni við rammááætlun. Við áttum þar gullin tækifæri. Ég lýsti vonbrigðum mínum með vinnu umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra að rammaáætlun og þá eftirgjöf sem gefin var frá grunnstefnu VG og reyndar beggja flokkanna. Í stað verndaráætlunar var lögð fram rammaáætlun um virkjanir. Ég lýsti vanþóknun minni á þeirri nálgun bæði innan ríkisstjórnar, þingflokks og á Alþingi. Fyrir mér voru umhverfismálin, verndun jökuláa og háhitasvæða og stöðvun stórvirkjana og orkufrekrar stóriðju mikið hjartans mál. Báðir stjórnarflokkarnir höfðu t.d. lýst yfir í þingsályktunatillögum og stefnuyfirlýsingum að friðun Jökulánna í Skagafirði, Skjálfandafljóts og háhitasvæða á miðhálendinu og Reykjanesi væri forgangsmál af hálfu þessara flokka. Allt annað var síðan upp á teningnum.
Þrátt fyrir fögur fyrirheit kom Magma-málið, þar sem ég lét bóka andstöðu mína við gjörðir ríkisstjórnarinnar og eftirgjöf sem gekk þvert á yfirlýsta stefnu VG og ítrekaðar samþykktir.
Ég hafði mikla fyrirvara við rammaáætlunin eins og hún koma fram þar sem gert var ráð fyrir því m.a. að í stað verndar skyldu Jökulárnar í Skagafirði og Skjálfandafljót sett í biðflokk fyrir virkjanir og Bjarnarflag í nýtingarflokk. Reykjanesskaginn var nánast allur settur í virkjanaflokk. Svo mætti áfram telja.
Bjarnarflag í nýtingarflokk og stóriðja á Bakka
Það urðu mér mikil vonbrigði þegar þingmenn VG, umhverfisverndarflokksins sjálfs, felldu tillögu Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur sem ég studdi um að Bjarnarflag yrði tekið úr virkjanaflokki og sett í biðflokk. Nokkru síðar samþykkti Alþingi og þar með taldir flestir þingmenn VG ríkisstyrkta stóriðju á Bakka við Húsavík þar sem gert var ráð fyrir orku úr virkjun í Bjarnarflagi eins og nýsamþykkt rammaáætlun gerði ráð fyrir. (Sjá: http://www.althingi.is/dba-bin/atkvgr.pl?nnafnak=48088)
Rammaáætlunin hafði verið svo lengi til meðferðar að fátt átti þar að koma þingmönnum á óvart. Hinsvegar gerðist það að þegar leið að kosningum og fram kom andstaða fleiri náttúruverndarsinna við virkjun í Bjarnarflagi, sem myndi enn frekar ógna lífríki Mývatns lögðu sömu þingmenn og ráðherrar á flótta frá atkvæðagreiðslu sinni á Alþingi. Hástemmdar auglýsingar um verndun Bjarnarflags hljómuðu í fjölmiðlum frá sama fólki og nokkrum mánuðum áður höfðu í tvígang samþykkt á Alþingi að virkja í Bjarnarflagi. Þessu er gerð góð skil í grein Atla Gíslasonar og Þorsteins Bergssonar, VG fórnaði Mývatni. (Sjá: http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1463458/?item_num=1&searchid=9bdf387ba1b5ba0d171e0a31710c781bd61aa355)
Heiðarleiki í stað tvöfeldni
Tvöfeldni í málflutningi hef ég aldrei kunnað að meta. Náttúran þarf á einurð stuðningsmanna sinna að halda en ekki tækifærismennsku. Vafalaust munu einhverjir þeir sem felldu tillöguna um að setja Bjarnarflagsvirkjun í bið og samþykktu orkufreka stóriðju á Bakka taka kinnroðalaust þátt í göngu náttúruverndarsinna í dag. Þau munu jafnvel bera kröfuspjöld um verndun Bjarnarflags og Mývatns og jökulánna í Skagafirði. Það er eitt að þykjast standa með náttúrunni en bregðast henni svo þegar á reynir.Þetta er alveg nákvæmlega sama hundalógik og að þykjast vera á móti ESB-umsókn og -aðild en greiða samt atkvæði með innlimunarferlinu! Ég ber virðingu fyrir rökstuddum skoðunum annarra þótt ég sé þeim ósammála og það er líka hægt að skipta um skoðun og viðurkenna mistök sín en mikilvægt er að standa með sannfæringu sinni af heiðarleika, líka í náttúruverndarmálum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.