Miðvikudagur, 24. apríl 2013
Fjaran hvergi fallegri en í Norðurfirði á Ströndum
Móðir mín sem er fædd í Norðurfirði á Ströndum sagði að hvergi væri fjaran og sandurinn fallegri en einmitt þar. Undir það get ég og fjölskyldan tekið.
Að sjálfsögðu fór ég norður í Árneshrepp á Ströndum til að heilsa upp á ættmenni og vini á hringferð minni um Vestfirði og Strandir í síðustu viku. Þótt snjór væri yfir Bölunum, mínu gamla heimasvæði, hlýnaði mér um hjartarætur þegar ekið var framhjá Asparvík, fæðingarstaðnum þar sem ég sleit fyrstu barnsskónum. Fjölskyldan flutti síðan í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi.
Í Árneshreppi var litið við á hverjum bæ að venju. Kvöldinu lauk svo þar fyrir norðan með því að ég fékk að mæta á vinnufundi hjá konunum í hreppnum á Kaffi Norðurfjörður. Þær Vigdís Grímsdóttir rithöfundur og María Guðmundsdóttir ljósmyndari leiddu samveruna en þar hefur verið komið reglulega saman í vetur. Mér var hugsað til þess að fyrir nokkrum árum þegar ég átti því láni að fagna að geta stutt við framtak heimamanna um að gera þetta hús upp og innrétta þar mjög hlýlega matar- og kaffistofu. Kaffistofan hefur aukið enn á góðan orðstír og þjónustu sem hægt er að fá í Árneshreppnum.
Auðvitað var spurt um vegina sem þá stundina voru hálfófærir vegna snjóa. Ég hef á undanförnum árum barist fyrir bættum vegasamgöngum um Strandir og í Árneshrepp. Ég lofaði á fundinum með konunum þarna í Norðurfirði að fengi ég þar nokkru um ráðið myndi heilsársvegur í Árneshrepp verða mitt forgangsmál. Árneshreppurinn er falleg og gjöful byggð og ungt fólk með börn í skóla hefur flutt á svæðið. Þar voru nú menn á fullu í grásleppuútgerð og mikið fjör er í strandveiðunum á sumrin. Ferðaþjónustan er mjög ört vaxandi og er talið að um 5.000 manns hafi komið í hina frábæru sundlaug í fjöruborðinu á Krossnesi í sumar.
Þær sögðu mér það konurnar að þær hefðu hugleitt að stofna félag, Sandlóurnar, og bjóða fram til Alþingis. Góð hugmynd. Ég fullvissaði hópinn um að skoðanir þeirra og væntingar rúmuðust vel innan Regnbogans, framboðsins sem ég leiði í Norðvesturkjördæmi og þær vissu fyrir hvað ég stæði. Oddný á Krossnesi, oddviti hreppsins, var að prjóna afar fallega sokka einmitt í litum regnbogans sem smellpössuðu við framboðið.
Með gleði í hjarta yfirgáfum við Árneshreppinn og hið þróttmikla og baráttuglaða fólk sem þar býr. Stefna tekin á Ísafjörð og komið að Reykjanesi um miðnættið og gist á hinu forna skólasetri Vestfirðinga sem nú er velbúið og notalegt hótel.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.4.2013 kl. 14:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.