Að elska, byggja og treysta á landið

hrafnaklukkur.jpg

Regnboginn eru samtök fólks, sem býður fram til baráttu fyrir því að halda sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar, fyrir sjálfbæra þróun og náttúruvernd. Við leggjum áherslu á jafnrétti fólks óháð búsetu, bætt lífskjör almennings, mannréttindi og félagshyggju.

Við viljum að fullveldi Íslands sé tryggt. Sjálfstæði þjóðarinnar er ekki leikfang eða skiptimynt í samskiptum við erlend stórveldi eða ríkjasambönd.

 ESB - hættuspil

Aðildarviðræður við ESB hófust í trássi við vilja þjóðarinnar. Brýnt er að stöðva aðlögunarferlið að ESB og afturkalla umsóknina. Annað er leikur að eldi. Fulltrúar ESB hafa ítrekað lýst því yfir að ekki verði um neinar varanlegar undanþágur að ræða af þeirra hálfu frá lögum og reglum ESB. Aðeins er hægt að fá tímabundna aðlögun. Minna þeir á að það var Ísland sem sótti um aðild að ESB en ekki öfugt. Að sjálfssögðu vill ESB ná tangarhaldi á auðlindum okkar, fiskimiðunum, orkunni og fá gegnum Ísland aðgang að norðurhöfum. Menn geta velt því fyrir sé hve mikið kæmi í okkar hlut af makríl ef ESB réði þar eitt málum.

Í samskiptum við aðrar þjóðir gerum við tvíhliða samninga á okkar eigin forsendum. Gildir það jafnt um einstök lönd og ríkjasambönd eins og ESB. ESB-viðræðurnar hafa tekið til sín tíma, afl og fjármuni og tafið fyrir endurreisn og uppbyggingu atvinnulífs eftir hrun. Rekinn hefur verið áróður fyrir því að fólk bíði eftir „jólapökkum“ frá útlöndum. Þeim blekkingarleik þarf að linna.

 _arkolla.jpgSterkustu hné geta bognað

Ég hef horft upp á það á síðustu árum að hin sterkustu hné bogna fyrir erlendu valdi og þrýstingi. Þetta hefur átt sér stað víða í samfélaginu en einnig á Alþingi þegar samþykkt var að sækja um aðild að Evrópusam­bandinu. Í þeirri atkvæðagreiðslu bognuðu hné sem margir héldu sterkust fyrir. Á Alþingi eru það fyrst og síðast einstaklingarnir sem þjóðin velur sem ráða úrslitum með atkvæði sínu.

Afstaða mín og barátta gegn umsókn og aðild að ESB er öllum kunn. Flokkar og samtök sem nú bjóða fram, að Regnboganum einum undanskildum, eru annaðhvort ESB-sinnaðir eða forðast að ræða þetta stærsta mál þjóðarinnar nú í aðdraganda kosninga. Þótt einstakir þingmenn eða frambjóðendur þeirra tali fjálglega um persónulega andstöðu sína eru innan þeirra raða einstaklingar sem hafa stutt aðlögunarviðræður við ESB til þessa.

„Sjálfstæðið er sívirk auðlind“ heitir bók Ragnars Arnalds fyrrverandi alþingis­manns og ráðherra sem skrifuð var til varnar og sóknar fyrir fullveldi Íslands og sjálfstæði en gegn umsókn og aðild að Evrópusambandinu. Ég hvet alla til að lesa hana.

 Stöndum keik og treystum á okkur sjálf

Við eigum mikla sóknarmöguleika í okkar eigin auðlindum, fólkinu, hugviti, sögu og menningu, sjávarútvegi, landbúnaði og matvælavinnslu, ferða­þjónustu sem og fjölbreyttri ósnortinni náttúru svo nokkuð sé talið. Þar standa byggðir Norðvesturkjördæmis sterkt. Sækjum aftur skerðinguna á heilbrigðisþjónustunni og stöndum vörð um grunnstoðir samfélagsins, ekki síst hinna dreifðu byggða. Væri ekki nær að þeir milljarðar sem nú er varið til ESB-umsóknar færu þess í stað til fjársvelts heilbrigðiskerfis?

Góðir landsmenn! Við skulum treysta og trúa á okkur sjálf eins og við höfum gert um aldir og byggja upp samskipti við aðrar þjóðir með gagnkvæmum tvíhliða samningum.

Ég býð mig fram fyrir sömu gildi og ég hef ávallt staðið fyrir. Stjórnmál snúast um traust. Ég bið um þinn stuðning. Regnboginn þarf stuðning þinn í kosningunum á laugardag!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband