Lækkum vexti til að styrkja innlenda fjárfestingu!

tolla2.jpgHáir vextir Seðlabankans eru hagstjórnarleg mistök. Nú eru liðin rúmlega fjögur ár frá hruni og það liggur fyrir að væntingar um nýtt hagkerfi  hafa ekki náð fram að ganga. Sérstaklega er bagalegt að innlend fjárfesting hefur ekki enn náð að rétta úr kútnum. Þvert á móti er því nú einróma spáð að fjárfestingar muni dragast saman á þessu ári miðað við árið á undan. Og var þá árið 2012 fremur aumt ár fyrir fjárfestingu. Þetta er mikill skaði. Við þurfum að byggja upp nýtt Íslands, skapa ný störf í  nýjum greinum er byggja á sjálfbærni og útflutningi. Og ný fjárfesting er  mikilvæg forsenda þessarar nýju sóknar.

Ýmsir hafa komið með lausnir á þessu fjárfestingarleysi. Sumir vilja selja erlendum auðjöfrum bæði auðlindir og land. Aðrir vilja lokka hingað erlend stórfyrirtæki með loforðum um skattaafslætti og  opinberar ívilnanir, og virðast lítil takmörk fyrir því hvað hægt er að ganga langt í þeim efnum.

Enn aðrir halda að allt snúist á réttan kjöl með inngöngu í ESB. Og svo eru þeir til sem vilja þetta allt þrennt.

Lítum okkur nær

En af hverju lítum við okkur ekki nær? Nú eru stýrivextir Seðlabankans 6% sem eru mun hærri vextir en þekkist í nágrannalöndum okkar. Vextirnir voru hækkaðir vegna þess að Seðlabankinn vænti þenslu sem enn hefur ekki komið fram. Það er furðuleg þversögn ef landsmenn vilja gefa allt eftir til þess að draga erlenda fjárfestingu inn í landið á sama tíma og innlendri fjárfestingu er haldið niðri með vöxtum sem eru langt fyrir ofan það sem þekkist erlendis. Ég er á móti þeirri vegferð  ríkisstjórnarinnar að gefa erlendum stórfyrirtækjum opinbera styrki og aðgang að íslenskum auðlindum með sérstökum fjárfestingarsamningum. Væri ekki nær að huga betur að  heimahögunum?

Sóknarfærin í íslensku atvinnulífi

Íslendingar hafa eigin gjaldmiðil og peningalegt sjálfstæði, sem betur fer. Við eigum að nýta það  sjálfstæði  til þess að hvetja áfram innlendar fjárfestingar með því lækka vexti verulega og tryggja smáfyrirtækjum og frumkvöðlum andrými til vaxtar? Það eru til nægir innlendir peningar sem bíða eftir verkefnum. Við höfum allt til reiðu til þess að hjálpa okkur sjálf og byggja nýtt Ísland um leið og við tryggjum okkum sjálfum sama fjárfestingarumhverfi og erlent fyrirtæki njóta í sínum heimahögum. Við þurfum einnig nýja tegund af fjárfestingu þar sem ávöxtunarkrafan  er mun lægri en hún hefur verið og meiri áhersla lögð  á samfélagsleg markmið. Og lægri vextir kalla slíka fjárfestingu fram þar sem minni áhersla er lögð á áhættu og stórgróða.

Hollur er heimafenginn baggi segir gamalt spakmæli. Það hefði aldrei þótt góðs viti í minni sveit að heyja ekki eigið heimatún en ætla að sækja alla heybaggana í aðrar sóknir. Að mínu viti á það enn við í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband