Laugardagur, 20. apríl 2013
Rafmagn úr Blöndu á Bakka?
Allir þingmenn Norðvesturkjördæmis sameinuðust um að flytja þingsályktun um átak stjórnvalda og sveitarfélaga á Norðurlandi vestra til atvinnuuppbyggingar og sköpunar nýrra starfa á svæðinu með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun. Áform eru um stækkun Blönduvirkjunar eða virkjun hliðarár sem geti skapað allt að 40 - 50 MW. Húnvetningar voru illa sviknir þegar Blönduvirkjun var byggð og rafmagnið fór nánast allt í stóriðjuver á suðvesturhorninu, þvert á gefin loforð um atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Landsvirkjun fékk síðan Blönduvirkjun á silfurfati.
Frá Blöndu til Bakka
Lítið hefur gengið í að kalla eftir efndum í þeim efnum. Nú virðist sama sagan eiga að endurtaka sig. Nema að í stað þess að flytja raforku frá Blöndusvæðinu suður á að flytja hana norður að Bakka við Húsavík í stóriðjuver sem þar á að rísa. Við ákvörðun þessara áforma á Bakka höfðu ráðherrar lofað upp í ermina á sér. Í orði var lofað raforku úr virkjun í Bjarnarflagi en hún virðist nú á leið út af borðinu. Meira að segja ráðherrar umhverfisverndarflokksins Vinstri grænna sem fluttu málið á Alþingi eru nú á harða hlaupum undan orðum sínum. Andstaðan við virkjun í Bjarnarflagi er miklu meiri en þeir hugðu og lífríki Mývatns er talið í alvarlegri hættu. Þetta var þó að mestu vitað fyrir.
En hvert á þá að snúa sér? Jú, Landsnet leggur nú ofurkapp á að leggja háspennuvirki frá Blönduvirkjun yfir Skagafjörð norður til Eyjafjarðar og að Bakka. Hægt er tæknilega að sækja hluta af raforkuframleiðslu Blönduvirkjunar og þeirra nýju virkjana sem þar eru fyrirhugaðar og flytja norður í niðurgreiddu stóriðjuna á Bakka. Landsnet stillir nú sveitarstjórnum og landeigendum í Skagafirði og Húnavatnssýslum upp við vegg og krefst þess að mega leggja háspennuvirkið þar yfir með miklum hraði og skuli ekki einu sinni vera til viðtals um að leggja hluta þess í jörð til að minnka umhverfisspjöll. Flutningsgeta háspennuvirkisins á að vera svo mikil austur fyrir að það geti flutt orku frá virkjunum í Jökulsánum í Skagafirði ef svo illa vildi til að þær yrðu að veruleika. Löngum hafa verið áform um að flytja orkuna frá Jökulsánum til stóriðjuvers á Bakka við Húsavík. Slagur sem Skagfirðingar þekkja vel.
Borginmannlega ber hann sig
Forstjóri Landsvirkjunar Hörður Arnarsson talaði tæpitungu laust um þetta í útvarpsviðtali nýverið. Bar hann sig borginmannlega og sagðist vel geta útvegað kísilverinu á Bakka næga orku þótt ekkert yrði af virkjun í Bjarnarflagi því það væri hægt að sækja hana til Blönduvirkjunarsvæðisins.
Mér finnst þessi mikla áhersla Landsvirkjuna og harka Landsnets í að fá að leggja háspennuvirkið yfir dali Húnavatnssýslu og Skagafjarðar mikið umhugsunarefni. Sveitarstjórnir og landeigendur hljóta að staldra við og spyrja hvað er á seyði. Höfðu heimamenn ekki hugsað sér aðra forgangsröðun á notkun orkunnar úr Blöndu en að senda hana í stóriðjuver á Bakka? Þingmenn kjördæmisins sem stóðu að tillögunni sem vísað er til hér upphafi hljóta að hafa meint eitthvað með því að krefjast þess að orkan úr Blöndu yrði nýtt í heimabyggð. Það gerði ég. Mér finnst að minnsta kosti full ástæða til að hægja á áformum Landsnets um fyrirhugaðan flutning raforku til stóriðjunnar á Bakka þó svo kosningaloforð stóriðjusinna gangi ekki eftir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.4.2013 kl. 13:13 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.