Bjargföst þjóð


 

flatey-viti.jpg

»Bergþóra var fædd á neyðar og ráðþrota tímum ... þegar Kanada, Bandaríkin og Brasilía uppskáru hvern farminn af öðrum af landflótta fólki... sem heimaunninn ótti og óviss erlend von höfðu sameinast um að uppræta...« Þannig hefst bók Gunnars Gunnarssonar »Heiðaharmur« sem fjallar um baráttu Brands bónda á Bjargi við að halda sveitinni sinni í byggð. Hann vildi skíra dóttur sína Bjargföst en varð vegna þrýstings frá konu sinni að sættast við nafnið Bergþóra í staðinn. Brandur og dóttir hans stóðu bjargföst gegn bæði andviðri og gylliboðum sinnar tíðar. Bókin endar á því að hún tekur við búi föður síns.

Þessi lýsing hefur oft heillað mig. Ég held að það sé dálítill Brandur í okkur öllum sem viljum byggja og treysta á landið. Sumir kalla það þverlyndi og þrjósku - og það fékk Brandur sannarlega að heyra um sína daga. En að mínu áliti snýst þetta um að standa bjargfastur á sinni sannfæringu eða láta bærast sem lauf í vindi. Vissulega þurfti fólk þá að berjast fyrir lífi sínu og framfærslu og jafnvel flytja úr landi til að tryggja hana eins og hinir þróttmiklu Vestur-Íslendingar gerðu á sinni tíð og eins og margar fjölskyldur hafa þurft að gera síðustu árin í kjölfar hrunsins.

Nýtt framfaraskeið

Hinar dreifðu byggðir Íslands hafa löngum byggt allt sitt á útflutningi, með sjálfbærri nýtingu auðlinda til bæði sjávar og sveita. Og þar hafa verðmætin orðið til sem landsmenn hafa byggt sína velmegun á. Það er kunnara en frá þurfi að segja að þjóðin missti bjargfestu sína fyrir rúmum áratug og elti ýmis villuljós og drauma um hagkerfi þar sem lífskjörin voru tekin að láni. Þetta er jafnframt sá tími sem útflutningsatvinnuvegirnir voru vanræktir, enda snerist allt um að flytja inn og neyta. Landsbyggðin var undir þrýstingi frá of háu gengi krónunnar og var einfaldlega álitið gamaldags að stunda framleiðslu.

Þessi villa var leiðrétt með afdrifaríkum hætti árið 2008. Nú liggur fyrir að landsmenn þurfa að vinna upp mörg glötuð ár í raunverulegri verðmætasköpun en fyrr geta lífskjörin ekki batnað. Það er nú að gerast. Hvar sem ég fer um landsbyggðina sé ég merki um nýtt framfaraskeið þar sem þeir sem stóðu bjargfastir uppskera nú bæði og sá fyrir nýjum ökrum. Ég trúi því að nú hafi orðið vatnaskil og við stöndum nú frammi fyrir nýju blómaskeiði þar sem landsbyggðin mun vinna það til baka sem tapast hefur og gott betur.

Treystum á okkur sjálf

Ég reyndi bæði sem þingmaður og ráðherra að vinna í haginn fyrir þessar framfarir. Hvernig til tókst verða aðrir um að dæma. Það sem ég óttast nú eru ný villuljós, erlendar tálsýnir sem ráðamenn þjóðarinnar gætu glapist til þess að elta. Og þau villuljós gætu orðið hættulegri en hin fyrri. Landsmenn beittu fullveldisrétti sínum, svo sem neyðarlögum, til þess að losa sig frá draumnum um alþjóðlega fjármálamiðstöð en hafi þjóðin einu sinni gengist undir valdið í Brussel er leiðin heim vandfundin.

Af þessum ástæðum hef ég ákveðið að bjóða mig fram á nýjan leik, með nýjum félögum og með þá bjargföstu sannfæringu að við eigum ekki að elta villuljósið frá Brussel. Við eigum að treysta á okkur sjálf, land okkar og bjargfasta þjóð. Og því bið ég um stuðning þinn.

Við eigum að treysta á okkur sjálf, land okkar og bjargfasta þjóð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband