Sunnudagur, 14. apríl 2013
Treystum á okkar eigin þjóð
Ofurtrú á evruna að hún leysi allan vanda Íslendinga og að hún verði gjaldmiðill okkar í náinni framtíð er einn alvarlegasti blekkingarleikur ESB - sinna hér á landi, sérstaklega þegar slíkar fullyrðingar koma úr munni ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Fátt er alvarlegra og jaðrar við drottinssvik en að tala niður sína eigin mynt. Hrun fjármálamarkaðarins 2008 var ekki íslensku krónunni að kenna, heldur var það græðgi hóps manna og taumlaus markaðshyggja fjármálaheimsins sem afvegaleiddi forystu íslenskra stjórnmála á þeim tíma. Slíkt má ekki endurtaka.
Það er hinsvegar íslensku krónunni að þakka að við gátum beitt eigin stýritækjum í endurreisninni. Vissulega gátum við gert betur og þurfum. En vildum við nú vera í evrusporum Grikklands, Kýpur, Spáns eða Slóveníu og vera þvinguð af Brusselvaldinu til atvinnuleysis og gífurlegrar lífskjaraskerðingar til þess eins að þóknast alþjóðlegum fjármálaheimi? Þjóðverjar sjálfir eru að átta sig á að hollt er heima hvað og að lítið traust er í að hlaupa á eftir bergmálinu. Þar hefur nú verið stofnaður flokkur sem heitir Valkostur fyrir Þýskaland sem hefur eitt af höfuðmarkmiðum sínum að leggja niður evruna. http://www.evropuvaktin.is/frettir/28112/
Sameiginleg mynt ESB - evran - er einn mesti dragbítur á hagvöxt og bætt lífskjör í ESB-löndunum. Er þá reyndar höggvið að rótum Evrópusambandsins sjálfs.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.4.2013 kl. 22:18 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.