En þannig er nú tilveran ekki og ég held að fæstir vilji fara inn á þessar einstrengingslegu brautir, sem þeir félagar Gunnar og Örn virðast kjósa að feta sig á. Því miður virðist viðlíka hugur að baki þeim gjörningi sem fjármálaráðherra Samfylkingarinnar og fulltrúar þeirra í borgarstjórn framkvæmdu er þeir skrifuðu í heimildarleysi undir samning um sölu á landi ríkisins undan Reykjavíkurflugvelli. Og svo mikið var pukrið og baktjaldamakkið að innanríkisráðherrann sem bæði fer með samgöngumál og málefni sveitarfélaga kom af fjöllum, en hann var eini ráðherra ríkisstjórnarinnar sem mótmælti gjörningnum á Alþingi.
Mér finnst að frekar ætti að kalla framkomu fjármálaráðherra og fulltrúa borgarstjóra valdhroka og vanvirðu gagnvart landsmönnum en orð mín um mikilvægi Reykjavíkurflugvallar
Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni frá 1919
Það var 3. september 1919 sem fyrsta flug var flogið á Íslandi, í Vatnsmýrinni í Reykjavík.Alveg frá upphafi hefur Vatnsmýrin verið vagga flugsins og fóstrað þróun og eflingu flugsins og samgangna, einkum hér innanlands.
Flugvöllurinn var lagður af Bretum sem hertóku landið og gerðu það sem þeir vildu. Eftir stríðið var flugvöllurinn ásamt öðrum breskum mannvirkjum afhentur íslenskum stjórnvöldum og notaður til hagsbóta fyrir íslenska þjóð. Allt tal um að ríkið hafi tekið landið af Reykvíkingum með blygðunarlausa valdbeitingu ríkisins í skugga margfalds misvægis atkvæða er í besta falli misskilningur. Þeim félögum verður tíðrætt um að það að loka flugvellinum sé þjóðhagslega arðsamt og eru flinkir í reikningi en bak við allar tölur er fólk. Ástæðulaust er að elta ólar við útreikninga þeirra en líklega hitta þeir naglann á höfuðið þegar þeir segja sjálfir, að það sé bullandi þjóðhagslega arðsamt, þetta er nefnilega bara bull!
Höfuðborg og landsbyggð standa saman
Við erum fámenn í stóru landi. Þess vegna hefur verið talið hagkvæmt að byggja eina höfuðborg þar sem flestar meginþjónustustofnanir hins opinbera og ráðuneyti eru staðsett. Kostir fámenns samfélags eru stuttar boðleiðir milli einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og stjórnsýslu. Þar gegna góðar samgöngur lykilhlutverki eins og flug til og frá höfuðborginni.Fyrir rúmum áratug kusu borgarbúar um framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni. Þá vildi rétt rúmur helmingur að hann færi. Þátttaka var mjög lítil og könnunin talin afar ómarktæk.
Borgarstjórn Reykjavíkur hafði samþykkt að niðurstaða kosningarinnar skyldi vera bindandi tækju að minnsta kosti þrír fjórðu hlutar atkvæðisbærra manna þátt (um 60.000 manns) í kosningunni eða ef einsýnt væri, að helmingur atkvæðisbærra manna (rúmlega 40.000 manns) greiddi öðrum hvorum kostinum, sem um yrði kosið, atkvæði sitt.
Kosningin var ekki bindandi og ómarktæk, því að aðeins 30.219 af 81.258 á kjörskrá kusu eða 37,2%, þar af vildu 14.529 eða 48,1% áfram flugvöllinn en 14.913 eða 49,3% að flugvöllurinn færi, það munaði aðeins 384 atkvæðum.
82% borgarbúa vildu flugvöllinn áfram á sínum stað
Hinn 10. des 2011 gerðu Stöð 2 og Fréttablaðið skoðanakönnun sem sýndi að þá vildu rúm áttatíu prósent borgarbúa að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni.Þannig eru 82% borgarbúa fylgjandi því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni en 18% eru andvíg því. Nokkuð fleiri á landsbyggðinni vilja flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni eða 88% en 12% eru því andvíg.
Hringt var í rúmlega átta hundruð manns, sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá, dagana sjöunda og áttunda desember. Rúm níutíu og átta prósent tóku afstöðu til spurningarinnar. 54% sögðust vera mjög fylgjandi því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni, rúm 17% sögðust frekar fylgjandi því, 15% voru hlutlaus, rúm fimm prósent frekar andvíg og rúm átta prósent sögðust mjög andvíg því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.
Af þeim sem voru annað hvort með eða á móti vildu 84% að flugvöllurinn verði áfram en 16% að hann fari.
Vilji borgarbúa og landsmanna fer því mjög vel saman um að flugvöllurinn skuli vera þar sem hann er um langa framtíð. En það þarf stöðugt að verja hann í umræðunni fyrir skammsýnu fólki sem ekki skilur mikilvægi þessarar gagnkvæmu líftaugar sem flugvöllurinn er milli höfuðborgarinnar og landsbyggðar.
(birtist sem grein í mbl.08.04 sl.)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.