Miðvikudagur, 27. mars 2013
Stöðva þarf áform á sölu bankanna til Lífeyrissjóðanna
Hún nálgast hættulega "panik" umræðan um að losa erlendu kröfuhafana úr snörunni hér með því að fé lífeyrissjóða landsmanna verði notað til greiða þeim kröfurnar og verja til þess dýrmætum gjaldeyri þjóðarinnar. Fráleitt er að stjórnvöld sem eru að fara frá eftir nokkra daga semji um slík afdrifarík mál.
Núverandi stjórnvöld hafa reynst útrúlega eftirgefanleg gagnvart erlendum vogunarsjóðum og kröfuhöfum sem margir hverjir eru hluti af fjármálakerfi Evrópusambandsins. Icesave málið og nú uppgjör við kröfuhafa fjármálastofnanna ESB er hluti af ESB viðræðunum og famgangi þeirra. Aðrir stjórnmálaflokkar hafa lýst því yfir að vilja stöðva og hætta aðildarviðræðum að ESB . Þess vegna er þrýstingurinn svo mikill af hálfu núverandi stjórnvalda að gefa eftir gangvart hinum erlendu kröfuhöfum og vogunarsjóðum því það tengist ESB umsókninni. En sömu aðilar, ESB sinnarnir- óttast að umsóknin að ESB verði í uppnámi eftir kosningar og þeim hætt og þá verði samningstaða kröfuhafanna þá enn verri.
Ég tek undir með Vihjálmi Birgissyni verkalýðsleiðtoga á Akranesi:
"Rétt er að rifja það upp að þessir erlendu vogunar og hrægammasjóðir fengu kröfur bankanna á algjöru hrakvirði á sínum tíma og nú þegar þeir eru orðnir hræddir þá virðist vera að þeir ætla að biðja forsvarmenn lífeyrissjóðanna að skera sig niður úr snörunni. Ég trúi því ekki að lífeyrissjóðirnir ætli að fara að nota erlendar eignir sjóðsfélaga til þess að kaupa þessa banka og koma þannig í veg fyrir að sá ávinningur sem hugsanlega næst í gengum samninga við þessa erlendu vogunar og hrægammasjóði verði notaður til að leiðrétta skuldir heimilanna"
Hafi þeir skömm fyrir og þetta skulum við stoppa af og það með góðu eða illu
Fjárhagslegt sjálfstæði Íslands og svigrúmið til að mæta t.d leiðréttingu á skuldum heimila og losa um gjaldeyrishöft er að ekki verði leikið af sér eða látið undan hinum erlendu kröfuhöfum íslensku bankanna.
Þennan leik við erlendu kröfuhafana og vogunarsjóðina og "gambl" með lífeyrissjóði landsmanna verður að stöðva.
Lilja Mósesdóttir hefur ítrekað bent á með tillöguflutningi á Alþingi og í ræðum og greinum að nýta beri "snjóhengjuna" og afskriftir á kröfum erlendu kröfuhafanna og vogunarsjóðanna til að leiðrétta skuldir heimilanna.
Lilja hefur talað fyrir niðurfærslu verðtryggðra lána undanfarin fjögur ár og segir í þingmáli, frá því í byrjun febrúar að um áttatíu prósent krafna í þrotabú Glitnis og Kaupþings hafi nú skipt um hendur og vísbendingar séu um að þær séu í eigu vogunarsjóða/hrægammasjóða. ,,Í ljósi sögu vogunarsjóða/hrægammasjóða er einsýnt að þeir muni ganga fram af mikilli hörku við að tryggja fullar endurheimtur krafna sinna. Eina færa leiðin sem tryggir hagsmuni almennings er að skipta yfir í nýkrónu á mismunandi gengi sem endurspeglar verðið sem sjóðirnir greiddu fyrir upphaflegu kröfuna og greiðslugetu þjóðarinnar.
Svona útskýrir Lilja málið í þingmáli sínu sem lagt var fram í febrúar.
,,Fyrsta skrefið í peningamillifærsluleiðinni felst í því að Seðlabankinn gefur út skuldabréf að upphæð t.d. 200 milljarðar kr. sem hann síðan lánar eignarhaldsfélagi sínu. Ástæða þess að Seðlabankinn er látinn gefa út skuldabréfið en ekki ríkið er að aukin skuldsetning þess fyrrnefnda hefur ekki áhrif á skuldatryggingaálag ríkissjóðs (sbr. ástarbréfin sem fóru inn í eignarhaldsfélagið Sölvhól sem er í eigu Seðlabankans). Í framhaldinu leggur eignarhaldsfélagið 200 milljarðana inn á innlánsreikning heimila með verðtryggð lán sem verða að nota greiðsluna strax til að borga niður höfuðstól verðtryggðra lána.
Upphæðin sem hver og einn fær miðast við 20% leiðréttingu á skuld viðkomandi einstaklings. Eignarstaða heimilanna batnar því um 200 milljarða og vaxtabyrði þeirra af fasteignalánum minnkar. Lánastofnunum verður síðan gert að leggja niðurgreiðsluna frá heimilunum inn á venjulegan innlánsreikning hjá Seðlabankanum. Seðlabankinn skuldar nú lánastofnunum 200 milljarða en á eign á móti hjá eignarhaldsfélagi sínu. Ríkið gæti lagt eigið fé inn í eignarhaldsfélagið og fjármagnað það með skatti á aflandskrónur og útgreiðslur úr þrotabúum gömlu bankanna til að gera eignarhaldsfélaginu kleift að greiða Seðlabankanum lánið til baka. Þannig er í engu hreyft við eignarrétti lánastofnana á útlánasafni sínu eins og raunin væri ef lánastofnanir væru þvingaðar til að afskrifa útlánasöfn sín um samtals 200 milljarða. Kosningatromp Framsóknarflokksins sótt í smiðju Lilju Mósesdóttur
Ég tek undir þessi sjónarmið Lilju Mósesdóttur sem er sá alþingismaður sem hefur sett fram hvað skýrastar og raunhæfar leiðir í að færa niður kröfur erlendu kröfuhafanna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.