Hrunið á Kýpur - Evran og ESB

Aðgerðir ESB gagnvart Kýpur miða fyrst og fremst að því að bjarga  myntkerfi Evrópusambandsins og að Evran haldi andlitinu. Hag kýpversku þjóðarinnar sjálfrar eða hvað henni er fyrir bestu er látið vera aukatriði málsins.

Gríski hluti Kýpur, sem er ein af örþjóðum Evrópu, aðeins rétt ríflega helmingi stærri að fólkfjölda en Ísland, stendur í sömu sporum og við í dag við brún hengiflugs vegna þjóðargjaldþrots.

Kýpversku þjóðinni hefur verið boðin hjálparhönd af yfirvaldinu í Brussel og af Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. „Hjálpin“ er veitt gegn því skilyrði. að almenningur á Kýpur bíti í það súra epli og taki á sig skellinn með því að leggja fram fjármuni í formi skatta á innistæður. Þannig eiga almennir sparifjáreigendur að bjarga bönkum landsins frá gjaldþroti og jafnframt að tryggja að fjármunir auðjöfra vítt og breytt um heiminn sem hafa meðal annars komið fyrir á Kýpur, glatist ekki. Megintónn og tilgangur þessara björgunaraðgerða hefur þó verið sá að myntkerfi Evrópusambandsins héldi andlitinu, sem ella gæti riðað til falls. Tilgangur björgunaraðgerðanna af hálfu ESB er fyrst og fremst ætlað að bjarga Evrunni og myntkerfi Evrópusambandsins en ekki hag kýpversku þjóðarinnar.

Af hverju er þessi neyð á Kýpur og Grikklandi ?

Sú bylgja gróðahyggju sem reið yfir hinn kapitalíska heim á s.l. áratug leiddi til þess að peningastraumurinn sótti til þeirra landa sem gáfu bestu ávöxtunina. Auk þess skipti máli að ferill peninganna yrði ekki rakinn svo auðveldlega hvað varðaði upruna og eignarhald. Þessa kosti buðu bankar á Kýpur upp á sem auðjöfrar heims þáðu. Meðal annarra nýríkir aðilar í Rússlandi,sem vildu geyma fjármuni utan síns lands, væntanlega í öruggri mynt, sem þeir töldu evruna vera, en þeir eru taldir eiga um þriðjung af innistæðum í bönkum Kýpur. Þeim hefði ekki dottið þessi möguleiki í hug, hefði Kýpur ekki verið orðinn aðili að Myntbandalagi Evrópu sem ESB land og komið með evru. Þessa fjármuni notuðu kýpverskir bankamenn m.a. til að kaupa skuldabréf af gríska ríkinu. Þau skuldabréf báru góða ávöxtun þar til Evruríkið Grikkland gat ekki staðið við greiðslur af þessum lánum og spilaborgin hrundi.

Hvað kennir þetta okkur.

Í fyrsta lagi að margt er líkt með hruni peningamála á Kýpur og á Íslandi. Bankar landanna sóttu sér erlent lánsfé sem nam margfaldri þjóðarframleiðslu, fé sem að lokum var á dýrari kjörum en þeir gátu endurlánað það á til lengri tíma litið. Þetta leiddi til mikilla útlánatapa vegna hinnar alþjóðlegu bankakreppu, sem gekk yfir heiminn. Þó er einn stór munur á Kýpur og Íslandi. Hann er sá að Ísland býr við eigin gjaldmiðil en Kýpur við evru. Af þeirri ástæðu komu erlendir aðilar ekki með fjármuni sína til banka á Íslandi til ávöxtunar eins og þeir gerðu á Kýpur. Íslensku bankarnir sóttu sér fé til útlanda til að endurlána m.a. með stofnun útibúa – icesave- og kaupum á bankastofnunum erlendis. Lönd þeirra aðila, sem hafa hagsmuna að gæta standa dyggan vörð um hagsmuni síns fólks í báðum þessum tilvíkum þó á ólíkan hátt. Rússland knýr á um að þeirra fólk greiði ekki skatt af innistæðum sínum til Kýpverska ríkisins og bendir á mögulegar gasauðlindir fyrir ströndum Kýpur. Okkar saga er blóðugri; Við vorum beitt hryðjuverkalögum af Bretum, bent á að greiða með fiskveiðiauðlindinni af Hollendingum og sóttir til saka af ESB og ESA fyrir Evrópudómstólnum.

Evran gerði kreppuna enn dýpri

Í öðru lagi afsannar sagan þá goðsögn ESB sinna að hefðum við verið aðilar að ESB og evrusvæðinu hefðu bankarnir aldrei hrunið yfir okkur. Sagan sannar okkur þvert á móti hið gagnstæða, að hefðum við getað boðið upp á hinn alþjóðlega gjaldmiðil evruna sem naut alþjóðlegs trausts, sem hún gerir ekki lengur, hefðu fjármunir erlendis frá streymt í ríkari mæli til landsins og aukið á stærð hrunsins.

Glöggt er gestaugað – og þó ?

Undir því yfirskyni að þessi gamli málsháttur sé réttur standa stjórnvöld fyrir því að boða hvern „gestinn“ á fætur öðrum til að lýsa ástandinu hér og hversu betra það væri innan ESB múranna. Þar hefur utanríkisáðherra verið óþreytandi við að bjóða starfsbróður sínum Carl Bildt til að útlista hversu hlý vistin er handan hins Gullna hliðs ESB í Brussel. Carl er málinu ekki ókunnugur og hefur komið að því áður að blanda sér í innanríkismál hér og sannfæra Íslendinga um ágæti ESB-aðildar m.a. með sameiginlegum skrifum með stækkunarstjóra sambandsins Olli Rehn í mbl. í lok árs 2009. Fróðlegt væri að heyra frá honum nú hvernig þátttaka Íslands í evru samstarfi hefði forðað Íslandi frá bankahruninu eins og ESB áhangendur fullyrða og jafnvel hvort að innlánasöfnun banka á Kýpur, sem eru nú að hrynja, er ekki einmitt sök evruaðildar Kýpur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband