- Lífæð landsbyggðarinnar -

Hún er furðuleg umræðan um Reykjavíkurflugvöll  þessa dagana . Fjármálaráðherra Samfylkingarinnar  skrifar í fullkomnu heimildarleysi  undir söluyfirlýsingu á landi undan flugvellinum til  Reykjavíkurborgar þar sem annar Reykjavíkurkrati og sennilega  í sama heimildarleysi skrifar undir fyrir hönd  Borgarinnar .

Innanríkisráðherra, yfirmaður samgöngumála kemur af fjöllum í orðsins fyllstu merkingu, ekki einu sinni ofan af heiðum og segist ekkert hafa vitað af slíkri söluundirskrift.  

Nú er hér um slíkt  stórmál að ræða  og fjárhagsskuldbindingar sem því til heyra, að ekki er um mál einstaks ráðherra að ræða  heldur ríkisstjórnarinnar allrar og Alþingis.  Því verður ekki trúað að aðrir ráðherrar í ríkisstjórn hafi ekki vitað hvað til stæði. Hinsvegar er þessi söluundirskrift  hrein lögleysa án heimilda og samþykkta Alþingis.

Undirskriftin  dregur hins vegar  fram ákveðna afstöðu og hroka ráðherrans og ríkisstjórnarinnar  til landsbyggðarinnar og  jafnframt er að engu virtar  skyldur Reykjavíkur sem höfðuborgar allra landsmanna.Mín tilfinning er sú að góður meirihluti sé fyrir því á Alþingi að bundið sé í lög að miðstöð innanlandsflugsins  verði tryggð til frambúðar  þar sem núverandi Reykjavíkurflugvöllur er og þannig að honum búið að aðstaða sé hin fullkomnasta.  Hins vegar eru þar aðilar sem hugsa þröngt kringum eigin nafla, viðurkenna ekki höfuðborgahlutverkið og  reka stöðugt horn í síðu landsbyggðarinnar og fólksins sem þar býr. Og það eru þeir sem hafa ráðið för í þessari undirskrift um sölu á landi flugvallarins.

Var innanríkisráðherra haldið utanvið vegna  andstöðu hans

En afgreiðsla á þessu máli af hálfu fjármálaráðherra og ríkisstjórnar er með óllíkindum  ekki síst í ljósi þess að innanríkisráðherra hafði ekki hugmynd um málið. Samkvæmt nýjum vinnureglum ríkisstjórnar ætti þetta ekki að vera mögulegt, því kynna ætti málið fyrst í ríkisstjórn.  Fróðlegt væri að vita hvort aðrir ráðherrar hafi verið upplýstir eða var það bara af tillitssemi við innanríkisráðherrann að halda honum utan við málið því vitað var að hann var því andvígur.  Málið hlýtur að hafa verið borið upp í ríkisstjórn, annað væri andstætt  reglum sem ríkisstjórnin hefur sjálf sett sér.  Hvar voru þá hinir ráðherrarnir eða var það Ögmundur einn, sem var hafður utandyra meðan undirskriftin var afgreidd í ríkisstjórn? Mér kemur í sjálfu sér ekkert á óvart í þeim efnum.

Kratar í Reykjavík reka stöðugt hornin í landsbyggðina

Bygging nýs flugvallar kostar marga tugi milljarða króna.  Hver er það sem myndi borga?  Jú, almenningur í landinu gegnum  skatta og væntanlega enn hærri gjöld á þá sem nota flugið. Slíkt er því ekki einkamál samfylkingarkrata í Reykjavík heldur einnig allra hinna íbúa höfuðborgarsvæðisins.  Þá má og leggja áherslu á að mörg önnur samgöngumannvirki, vegir og brýr  eru brýnni ef meiri fjármagn væri til samgöngumála.  Ég nefni vegina á  Vestfjörðum, Dýrafjarðargöng,  göng milli Ísafjarðar og Súðavíkur , en vegurinn þar er lífshættulegur vegna snjóflóða. Sveitavegina inn til dala og út til stranda, einbreiðar brýr á aðalvegum og svo má áfram telja. Það að gera tillögur og ráðherra að skrifa undir  um milljarða króna skuldbindingar til færslu á flugvellinum í Reykjavík er bein vanvirða og hroki gangvart því fólki sem háð er því að nota flugsamgöngur við höfuðborgina en ekki síst gagnvart þeim sem búa við lélegarog  ótryggar vegasamgöngur víða á landsbyggðinni.    

Nýr Landspítali   og  Reykjavíkurflugvöllur

Staðsetning nýbyggingar Landspítala háskólasjúkrahúss er einmitt bundin við nálægðina við Reykjavíkurflugvöll.  Jakob Ólafsson flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni  rekur þetta mál í ágætri grein í Fréttablaðinu 2. febr.  fyrir ári síðan.  Hann lagði þunga áherslu á mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir öryggi sjúkraflugs í landinu.Hann talaði um sorglegt „landsbyggðarfálæti“ og þekkingarskort þeirra sem vildu af þröngum pólitískum  sérhagsmunum þrýsta flugvellinum burt úr Vatnsmýrinni með handafli:"Ef ekki er hægt að tryggja gott aðgengi landsbyggðarfólks með sjúkraflugi að tilvonandi Landspítala, eins og ein af mikilvægum forsendum staðarvals spítalans við Hringbraut var í upphafi, er nauðsynlegt að hugsa dæmið upp á nýtt og finna honum og flugvellinum nýjan stað svo hann standi undir nafni sem Landspítali – spítali allra landsmanna og þungamiðja í íslensku heilbrigðiskerfi. Reykjavíkurborg gæti þannig fengið aftur Borgarspítalann í Fossvogi og rekið á eigin reikning". Ég tek undir hvert orð hjá Jakob.

  Ég reyndar þess fullviss að meirihluti Reykvíkinga stendur með landsbyggðinni og  höfuðborgarhlutverkinu  og vill tryggja Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýrinni enda er miðstöð innanlandsflugsins ekki síður mál höfuðborgarinnar eins og landsmanna  allra.

( Birtist sem grein í mbl.21.03)

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband