Hollusta og hreinleiki íslenskra landbúnaðarvara

Mikil sóknarfæri eru í íslenskri matvælaframleiðslu. Sérstaðan er einmitt fólgin í því að vera eyland með forna og hreina búfjárstofna sem þróast hafa hér frá landnámsöld. Höfum við þar hliðstæða stöðu og Nýja- Sjáland og Ástralía sem eru stærstu útfluningsríki á landbúnaðrvörum. En þeir verja sín lönd vel gangnvart innflutningi á vörum sem geta borið búfjársjúkdóma.  Tekið er afar hart t.d. á ferðamönnum sem reyna að koma með hráar kjötvörur til landsins, en slíkt er algjörlega bannað. Tók ég þeirra afstöðu mér til fyrirmyndar í verndun hollustu íslenskra matvæla.

Unnum sigur á Alþingi 2009 
Þegar ég tók við sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að loknum Alþingis kosningum árið 2009 ákvað ég að leggja frumvarp um innleiðingu á matvælalöggjöf ESB fram þannig breytt að innflutningur á hráum og lítt söltuðum sláturafurð, bæði unnum sem og óunnum og hráum eggjum væri áfram bannaður og háður leyfi ráðherra hverju sinni að fenginni staðfestingu yfirdýralæknis um heilbrigði afurðanna. Frumvörp þessa efnis höfðu í tvígang verið lögð fram af forverum mínum í ráðherrastarfi án þess efnis að innflutning skyldi takmarka á þennan hátt. Eftir mjög vandaða vinnu í sjávarútvegs-og landbúnaðarnefnd undir stjórn Atla Gíslasonar varð frumvarp þetta að lögum og samþykkt á Alþingi einróma.

Auðlegð í íslenskum búfjárkynjum

Seinni hluta árs 2012 gerði ég mér grein fyrir því að viðbúið væri að athugasemdir kæmu fram um innleiðingu matvælalöggjafar ESB. Þar kom tvennt til. Annarsvegar áhugi viðskiptaaðila að leita leiða til að koma á sem minnstri takmörkun á innflutningi landbúnaðarafurða og hinsvegar áhugi ESB sinna að draga úr eftir mætti takmörkunum á innflutning á búfjárafurðum og lifandi dýrum frá ESB til að draga úr sérstöðu Íslands og auðvelda samningsgerðina. Því skipaði ég þann 7. desember 2011 starfshóp sérfræðinga til að færa rök fyrir þeim takmörkunum sem gilda við innflutning hrárra búfjársfurða, sem ESA hefur nú gert athugasemdir við og leggja til svör ásamt því að leita til Stefáns Más Stefánssonar prófessors, sem sérfræðings á sviði Evrópuréttar. ESB sinnar og forystumenn ríkisstjórnarinnar vildu gefa strax eftir gagnvart kröfum ESB. Sem betur fer tókst mér sem ráðherra að stilla því þannig upp að ekki yrði auðvelt að gefa eftir. Það er því áfram von um að ekki verði látið undan ásókn EES og ESB að óreyndu eins og vilji ESB sinna og verslunarinnar stendur til.

Fæðu og matvælaöryggi í forgang

Rök framkvæmdastjórnar ESB og ESA fyrir því að hnekkja lagasetningu okkar eru að regluverk ESB tryggi að ekki berist skaðlegir sjúkdómar í menn og skepnur með hráum búfjárafurðum frá ESB löndunum. Þetta er ofurtrú á margslungið skráningar- og eftirlitskerfi ESB, sem kostar framleiðendur og neytendur fúlgu fjár. Málið er hinsvegar hversu tryggt kerfið er en ekki umfang þess. Þegar horft er til nýlegra viðskiptasvika með kjöt á markaðssvæði ESB þar sem hrossakjöt verður að nautakjöti við sölu milli aðila er ljóst að ótvírætt hætta á að skæðir sjúkdómar s.s. gin og klaufaveiki og svínapest geti borist með innflutning til landsins frá löndum ESB sé okkur ekki heimilt að hafa eftilit með honum eins og gildandi lög kveða á um og valda okkur ómældum skaða. Má þar minna á gin-og klaufaveikifaraldur, sem kom upp í Bretlandi fyrir nokkrum árum og að svínapest er landlæg í Mið-Evrópu í villtum svínum og er að skjóta upp kollinum við og við í alisvínum á svæðinu.

Framtíðarhagsmunir í húfi

ESB hefur sett þau skilyrði fyrir framhaldi samninga um landbúnað að gefið sé eftir varðandi bann við innflutningi á lifandi dýrum og hráu ófrosnu kjöti. Ég hafnaði þeirri kröfu bæði sem ráðherra og eins í utanríkismálnefnd. Í þessum efnum þýðir ekkert að fá að kíkja í pakkann hjá ESB, heldur standa í lappirnar og verja framtíðarhagsmuni í fæðu og matvælaöryggi þjóðarinnar. Alþingi samþykkti samhljóða matvælalögin 2009 eins og ég lagði þau þá fram. Ekki kemur til greina að gefa eftir í þessum efnum þótt ESB krefjist þess nú.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband