Þriðjudagur, 19. mars 2013
Enn verður opinberum störfum fækkað á landsbyggðinni - nú starf sýslumanns lagt niður
Skessuhorn: |
Loka á sýslumannsembættinu í Búðardal og skera niður þjónustuna án nokkurs samráðs við heimamenn- byggðastefnan í verki.? !! |
19. mars 2013 |
Áslaug Þórarinsdóttir sýslumaður í Búðardal hefur sagt starfi sínu lausu og hefur sýslumanninum í Stykkishólmi, Ólafi K. Ólafssyni, verið falið að gegna störfum sýslumanns í Búðardal þegar hún lætur af störfum. Sveitarstjórn Dalabyggðar undrast að ekki hafi verið upplýst formlega um þessar ráðstafanir innanríkisráðuneytisins og samþykkti í einu hljóði á sveitarstjórnarfundi í gær að óska eftir fundi með ráðherra vegna málsins. Eyþór Jón Gíslason oddviti sveitarstjórnar segir í samtali við Skessuhorn að engar upplýsingar hafi borist sveitarstjórn og málið því í ákveðinni óvissu. Við vitum í raun ekki hvort skrifstofa sýslumanns verður rekin hér áfram eða hvort þessi ákvörðun sé liður í fækkun sýslumannsembætta. Auðvitað yrði mikið áfall fyrir sveitarfélagið að missa enn fleiri störf fyrir háskólamenntað fólk en fyrst og fremst erum við óánægð með að okkur hafi ekki borist nein tilkynning um málið, segir Eyþór en auk sýslumanns er einn starfsmaður á skrifstofunni í Búðardal. |
Fyrir Alþingi liggja drög að frumvarpi til laga um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Þar kemur meðal annars fram að sýslumannsembættum verði fækkað úr 24 í átta. Stjórnsýsluumdæmin verði Vesturland, Vestfirðir, Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland, Suðurland, Suðurnes og höfuðborgarsvæðið en þetta er sama umdæmaskipting og lagt er til að gildi fyrir löggæsluna í landinu samkvæmt nýju frumvarpi þar að lútandi. Frumvarpið kveður á um að hið nýja skipulag taki gildi 1. janúar árið 2015. Ljóst er að innanríkisráðherra er þegar farinn að gera breytingar miðað við að frumvarp hans nái fram að ganga. Þannig hefur sýslumaðurinn á Blönduósi tekið yfir starfsskyldur sýslumannsins á Sauðárkróki eftir að Ríkarður Másson sýslumaður lét af embætti sökum aldurs á síðasta ári." þannig hljóðar frétt Skressuhornsins í dag.Svo tala menn réttilega í orði um að efla þurfi löggæslu á landsbyggðinni og hafa lögboðið samráð við heimaaðila um skerðingu á þjónustu eða tilflutning og niðurlagningu starfa. Í verki verður raunin allt önnur. Ég varaði við þessum mikla niðurskurði til löggæslu á landsbyggðnni og jafnframt lagðist ég gegn fækkun sýslumanna á landsbyggðinni. Frekar átti að færa til þeirra verkefni frá stjórnsýslunni á höfuðborgarsvæðinu, láta sýslumenn halda hlutverki sínu í almennri löggæslu á sínum heimasvæðum. Á það var ekki hlustað. Nú harma menn niðurskurð í löggæslu á landsbyggðinni og hafa skrifað um það sérstaka skýrslu, nokkuð sem allir máttu sjá fyrir og bent var á við gerð síðustu fjárlaga. Frumvarp til breytinga á lögum um sýslumenn hefur enn ekki verið samþykkt frá Alþingi og verður vonandi ekki. Samt er farið að vinna samkvæmt því að svo sé. |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.3.2013 kl. 00:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.