Kallað eftir hreinskilni í ESB viðræðum


Mikilvægt er að farið sé með rétt mál og talað skýrt í viðræðum við ESB. Það á að gerast óháð því hvort menn eru með eða á móti aðild og hvort verið sé að tala til íslensku þjóðarinnar eða ESB.
Á fundi sem þingmannahópur Alþingis átti með þingmönnum og forystuliði ESB í síðust viku létu þeir í ljós efasemdir um heilindi Íslendinga í umsóknarferlinu þegar þeir voru upplýstir um þá miklu andstöðu sem er meðal þjóðarinnar gagnvart þessari umsókn og veikan pólitískan stuðning við hana.

Kom þeim mjög á óvart t.d. að meirihluti eða um 54% svarenda í nýjustu skoðanakönnun vildi draga umsóknina til baka og að aðeins einn stjórnmálaflokkur, Samfylkingin, styddi hana óskiptur á Alþingi. En sá flokkur leitar stefnu sinni fylgis hjá þjóðinni með loforðum um að það væri óskynsamlegt annað en að “kíkja í pakkann”.

ESB vill ekki taka þátt í "bjölluati"
Fulltrúar ESB lögðu áherslu á að þær þjóðir, sem sæktu um aðild að ESB gerðu það til að komast inn í sambandið. Í aðlögunarferlinu væri reynt að leysa á sem bestan hátt úr tímabundnum örðugleikum í upphafi aðildar og síðan með aðlögun umsóknarlandsins í ferlinu til þess að komast snuðrulaust í sambandið.

ESB byði fram verulega fjárhagsaðstoð í þessu skyni.

Hugtakið að “kíkja í pakkann og sjá hvað væri í boði” fannst mér þeir líta á sem beina móðgun við sambandið.
Var mér af því tilefni hugsað til þeirra sem stöðugt væru að telja þjóðinni trú um kosti þess að “kíkja” í pakkann og virðast vilja halda áfram þeirri iðju á næsta kjörtímabili. - Engu sé að tapa en allt að vinna.

Talsmenn ESB sögðust hinsvegar ekki vera í þessum samningum af leikaraskap eða tækju þátt í “bjölluati”. Þótt sumir stjórnmálamenn á Íslandi léku það til heimabrúks, ættu þeir að vita betur.

Engar varanlegar undanþágur veittar frá lögum ESB
Á upplýsingavef ESB (sjá
http://en.euabc.com/word/280) er nánast sagt beinum orðum að varanlegar undanþágur frá lögum ESB er ekki að hafa við aðild nýrra landa. Eftir að stækkunarferli ESB hófst að nýju í byrjun aldarinnar hefur einungis Malta hlotið undanþágu sem varðar búseturétt á Möltu. Upplýsingavefurinn ber með sér að Framkvæmdastjórnin er mjög andvíg því að veita varanlegar undanþágur og vill að sama lagaumhverfi gildi um öll ESB lönd.

Ekki minnist ég þess að forystumenn ESB hafi nokkru sinni lofað varanlegum undanþágum í neinu atriði er varðar Ísland, sem er í samræmi við ofanritað.

Þvert á móti hafa þeir ítrekað að það væri Ísland sem væri að sækja um aðild að ESB , og að Ísland verði að lúta lögum ESB en ekki öfugt.
Þær undanþágur sem talið hefur verið að Ísland þurfi á að halda og geti óskað eftir, munu því ekki verða varanlegar, heldur aðeins tímabundnar eða framkvæmanlegar innan gildandi laga ESB. - Allt sem um verður samið verður að rúmast innan Rómarsáttmálans-.

Vandamálið er að undanþága frá regluverki ESB og réttindi Íslands til sjálfsákvörðunar eftir henni, og ekki er skráð í samningnum sem varanleg er lítils eða einskis virði því ESB/ framkvæmdastjórn/ þingið getur vikið henni til hliðar hvenær sem er eftir að undanþágutímabili lýkur.



Villandi ummæli sendifulltrúa ESB á Íslandi
Í áliti utanríkismálanefndar frá í júlí 2009 er lögð áhersla á að fá varanlegar undanþágur, ef til aðildar kemur fyrir tilgreind þýðingamikil atriði s.s. í landbúnaðarmálum, sjávarútvegsmálum dýraheilbrigðismálum, séu dæmi séu tekin. Engin fyrirheit hafa verið gefin af hálfu ESB, um að þær finnist í umræddum “pakka” enda engin fordæmi fyrir varanlegum undanþágum sem slíkum.

Það er því vægast sagt mjög óvarlegt þegar erindrekar ESB hér á landi eða einstaka aðilar í samninganefndum, stjórnsýslu eða á Alþingi, fara gáleysislega með yfirlýsingar í þeim efnum.

Nægir að vitna í ummæli yfirmanns Evrópusviðs hjá sendinefnd ESB á Íslandi, Henriks Bendixsen sem fullyrti í fréttaviðtali 13. nóv sl. að “ öll 12 aðildarríkin sem gengið hafa í ESB að undanförnu hafi fengið undanþágur og það sé að sjálfsögðu opið gagnvart Íslandi líka". Þarna er aðeins hálfur sannleikur sagður, því allar þessar undanþágur hafa verið tímabundnar og því ekki varanlega bindandi samkvæmt lögum ESB eins og nefnt er hér að ofan. Ummæli sendifulltrúans voru svo tuggin athugasemda- og skýringalaust í fjölmiðlum .

Spurningin er einföld: viltu ganga í ESB eða ekki.
Á fundi í Strassburg í vikunni undirstrikaði stækkunarstjórinn, Stefán Fule með ótvíræðum hætti að sama regluverk eigi að gilda innan ESB og ekki standi til að víkja frá því með því að veita Íslendingum varanlegar undanþágur frá lagabálki ESB. Að öðru leyti vék hann sér undan að svara spurningum íslensku þingmannanna.

Áframhald þessara viðræðna við ESB snýst því eingöngu um hvort vilji er fyrir því að ganga í ESB eða ekki án undanþága frá regluverki ESB. Að mínu mati er allt tal um varanlegar undanþágur frá lagabálki ESB, eins og við krefjumst, fullkomið villuljós og blekking.

Ekkert er því til fyrirstöðu að Alþingi og þjóðin taki strax afstöðu til málsins.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband