Kirkjan svarar ávalt kalli

Stjórnarskráin kveður skýrt á um stöðu þjóðkirkju á Íslandi:

„62. gr. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda“.

Margir hafa sótt að kirkjunni á síðustu misserum, starfi hennar og stöðu í samfélaginu. Þrátt fyrir mannlega brotsjói hefur hún staðið það af sér og nú síðast í ráðgefandi atkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskránni. Þar var spurt: „Vilt þú að ákvæði um þjóðkirkju sé í stjórnarskrá Íslands?“ Tæp 60% svarenda sögðu já við þeirri spurningu. Ekki er óeðlilegt að um þetta geti verið skiptar skoðanir sem ekki tengjast beint kristinni trú heldur alveg eins stjórnsýslulegri stöðu kirkjunnar sem stofnunar. Ég sagði já við þessari spurningu og þar með leit ég svo á að þar með væri ég að staðfesta óbreytta núverandi stöðu þjóðkirkju Íslands í stjórnarskránni.

Þjóðkirkjan er okkar allra

„Eitt af einkennum þjóðkirkju er að hún stendur öllum opin. Jesús fór ekki í manngreinarálit og það gerir kirkja hans ekki heldur. Erindi hennar er öllum ætlað. Öllum landsmönnum gefst kostur á henni óháð trúfélagsaðild."

Þannig mæltist nýjum biskupi Íslands, frú Agnesi M. Sigurðardóttur, í vígsluræðu sinni í Hallgrímskirkju 24. júní sl. Hún áréttaði mikilvægi kirkjunnar sem einnar af grunnstoðum samfélagsins og þjónustu hennar um allt land:

"Kirkjan hefur haft mótandi áhrif á samfélagið alla tíð, ekki vegna sjálfrar sín heldur vegna þess erindis sem henni er ætlað að koma á framfæri. Það erindi er gefandi og gott, lífgefandi og styrkjandi. Þess vegna er kirkjan ein af grunnstoðum samfélagsins. Kristin hugsun hefur mótað menningu okkar í meira en 1000 ár og á þeim arfi byggist samfélag okkar."

Var það ekki einmitt þetta sem verið var að árétta í þjóðaratkvæðagreiðslunni?

Hornsteinar samfélagsins mega ekki bresta

Kirkjan og safnaðarstarfið eru hornsteinar fjölbreytts menningarlífs víða, ekki síst í minni samfélögum úti á landi. Má þar sérstaklega nefna söng- og tónlistarlíf og barna- og unglingastarf sem fjölskyldan öll er virkur þátttakandi í, að ógleymdum hlut starfs eldri borgara. Fjöldi barna, unglinga og fullorðinna um land allt syngur í kirkjukórum eða tekur þátt í tónlistarlífi og uppbyggilegu trúarlífi í kringum kirkjurnar.

Fjölþætt ábyrgð um land allt

Kirkjustaðirnir eru einstæðar vörður í sögu, atvinnu- og menningarlífi þjóðarinnar og samofnir örlögum hennar. Kirkjurnar vítt og breitt um landið eru byggingarsögulegir dýrgripir og búnaður þeirra hluti af listasögu landsins. Þessum verðmætum verður að halda til haga og gera sýnileg í nútímanum. Þarna ber þjóðkirkjan og við öll víðtækar samfélagsskyldur.

Kirkjusagan og kirkjustaðirnir eru samofin þeim verðmætum sem reynt er að miðla og laða fram, t.d. í menningartengdri ferðaþjónustu. Kirkjustarfið er mikilvægur hlekkur í byggðamálum og ómetanlegt í öllu félags- og menningarlífi. Það er mikilvægt að við höfum þessa fjölþættu ábyrgð í huga.

Nú kallar kirkjan á hjálp fyrir mig og þig

Hart hefur verið sótt að fjárhagslegum grundvelli kirkjustarfsins. Stjórnvöld hafi krafið kirkjuna um niðurskurð á starfsemi sinni og skert fjárframlög og lögvarða tekjustofna hennar.

Kirkjan hefur brugðist við og axlað sinn hlut í efnahagslegum þrengingum þjóðarinnar.

En hjá henni eins og í allri annari starfsemi kemur að þolmörkum. Tekið er að bresta í grunnstoðunum. Það var rækilega áréttað svo á nýafstöðnu kirkjuþingi unga fólksins:

„Kirkjuþing unga fólksins skorar á stjórnvöld að leiðrétta þann niðurskurð sem átt hefur sér stað á sóknargjöldum til kirkjunnar þar sem grunnstoðir í starfsemi safnaða þjóðkirkjunnar eru að hruni komnar vegna fjárhagsvanda.“

Starfsemi kirkjunnar, presta og safnaðarfólks um allt land er einn af hornsteinum velferðarþjónustunnar. Fari nú sem horfir í niðurskurði til kirkjunnar er hætt við að hún sem stofnun verð að grípa til örþrifaráða. Það mun bitna ekki hvað síst á æskulýðsstarfinu og starfseminni úti á landsbyggðinni, einmitt þar sem hún er viðkvæmust fyrir. Er það forgangsröðun í niðurskurði velferðarþjónustu, sem þjóðin vill? Ég held ekki. Hér verða stjórnvöld að koma til, standa við sinn hlut og færa kirkjunni þá fjármuni sem innheimt er nú með sóknargjöldum.

Komið er að þolmörkum í kirkjustarfi víða um land vegna niðurskurðar fjárveitinga. Staða, hlutverk og ábyrgð kirkjunnar og fjölþætt starfs á hennar vegum er með þeim hætti að við hljótum að leggja við hlustir og bregðast við þegar hún kallar á hjálp, ekki sjálfrar sín vegna heldur fyrir okkur, mig og þig.

( Birtist sem grein í mbl. 13.11.2012)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband