Staða og framtíð innanlandsflugsins tekin upp á Alþingi.

Í kjölfar frétta um að flugfélagið Ernir hyggist leggja af flug til minni staða  á landsbyggðinni eins og til Gjögurs, Bíldudals, jafnvel Hafnar í Hornafirði og Húsavíkur,  hef ég lagt fram fyrirspurn á Alþingi um hvernig Innanríkisráðherra hyggist bregðast við til að tryggja öryggi og framtíð áætlunarflugs til þessara staða. Stjórnvöld verða að bregðast við

Óþarft er að rekja hér  mikilvægi þessa flugs fyrir þjóðina og skyldur við íbúa og atvinnulíf á þessum svæðum. Síðastliðinn vetur lagðist af áætlunarflug til Sauðárkróks þrátt fyrir loforð stjórnvalda um að svo yrði ekki. Jafnframt voru þá  gefin fyrirheit um að flug til Sauðárkróks yrði tekið upp aftur með haustinu.  

  Í áskorun sveitarfélaganna til innanríkisráðherra og Alþingis, sem birtist í fjölmiðlum í dag  segir m.a.:

"Það er alvarleg staða sem upp er komin og má benda á að innanlandsflugið eru einu samgöngur Árneshrepps við umheiminn að vetri til. Það er algerlega ólíðandi að stjórnvöld láti hjá líða að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin og skorum við á innanríkisráðherra að beita sér fyrir því að tryggja að leiðréttur verði strax sá forsendubrestur sem orðinn er á verksamningi ríkisins við Flugfélagið Erni svo tryggja megi áframhaldandi flugsamgöngur til áfangastaða félagsins,“ segir í áskoruninni.

Mikilvægt er að íbúar á þessum stöðum, sem  eru jafnframt útverðir byggðar og atvinnulífs á stórum svæðum fái um þetta  skýr  og ákveðin svör. Þetta er ekki aðeins mál  fólksins, íbúanna á þessum stöðum,  heldur og ekki síður þjóðarinnar allrar. Þess vegna verður innanlandsflugið  tekið upp á  Alþingi og spurt hvernig megi tryggja öruggt áætlunarflug til þessara staða. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband