Mánudagur, 29. október 2012
Guðbrandur Brynjúlfsson á Brúarlandi talaði tæpitungulaust á fundi VG í N.V. kjördæmi
Hvernig ætlar Vinstrihreyfingin grænt framboð að fara í kosningar með ESB málin opin og óafgreidd.? Hvernig ætla einstakir frambjóðendur að gefa kost á sér til framboðs með aðildarumsókn í gangi á ábyrgð flokksins, þvert á grunnstefnu hans?.
Það er ekki hægt að endurtaka leikinn frá síðustu kosningum og telja fólki áfram trú um að VG sé á móti umsókn og aðild að ESB, eins og reyndar stefna flokksins kveður skýrt á um, en styðja áframhaldandi samninga og aðlögun að ESB?.
Allir vita að umsóknarferlið er algjörlega á forsendum ESB og því ferli lýkur ekki fyrr en við höfum innleitt flestar gerðir sambandsins.
Samningurinn og samningsvinnan er á ábyrgð ráðherra VG með Samfylkingunni. Ráðherrar VG munu þurfa að undirrita samninginn þegar þar að kemur eins og þeir staðfesta nú samningsskilyrði og einstaka kröfur ESB í ferlinu.
Það er ekki nóg að vera á móti aðild að ESB eins og við sem hér eru inni en styðja svo áframhaldandi aðlögunarferli sem enginn getur sagt fyrir um hvað stendur mörg ár enn.
Fyrir mér er þetta mikið alvörumál sem flokkurinn getur ekki vikist undan að afgreiða fyrir kosningar. Traust og trúnaður kjósenda til flokksins hefur beðið mikinn hnekki.Við höfum misst þingmenn, fjölda forystufólks, félaga og fært miklar fórnir vegna ESB stefnu flokksins í ríkisstjórn með Samfylkingunni.
Bæði einstakir frambjóðendur, þingmenn, ráðherrar og flokkurinn í heild verður að gera hreint fyrir sínum dyrum í ESB málinu og útkljá málið, áður en kosningabaráttan hefst.
Ég sé ekki, hvernig óbreytt staða með ESB umsóknina inn í næsta kjörtímabil gengur fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð._- -Þetta var inntak ræðu Guðbrands Brynjúlfssonar á Brúarlandi á Mýrum á kjördæmisráðsfundi VG í Norðvesturkjördæmi í Árbliki, Dölum í gær.
Guðbrandur hefur mikla reynslu í stjórnmálum. Hann var einn af stofnendum Alþýðubandalagsins á sínum tíma og átti síðar virka og beina aðild að stofnun Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.
Guðbrandur hefur alla tíð verið einn af öflugustu einstaklingum í forystusveit Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og staðið með stefnuskrá hennar.
Ég get tekið undir með Guðbrandi Brynjúlfssyni á Brúarlandi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:00 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.