Orð og efndir í ESB- umræðunni

Vinstrihreyfingin grænt framboð var m.a. stofnuð á sínum tíma til að verja sjálfstæði landsins og standa gegn umsókn og aðild að ESB.

Aðrar meginstoðir flokksins eru umhverfismál, jafnréttismál og velferðarmál.

VG hefur fært miklar fórnir í þessu ríkisstjórnarsamstarfi með Samfylkingunni, misst öfluga þingmenn, stuðningsfólk, félaga og baráttufólk úr forystusveit til þess eins að þóknast Samfylkingunni í ESB-umsókninni, þessu eina baráttumáli hennar.

Meirihluti þingflokks VG hefur því miður stutt dyggilega öll þau skref sem hingað til hafa verið stigin í aðildar- og aðlögunarferlinu að ESB og nú síðast lagst svo lágt fyrir tæpum tveimur mánuðum að samþykkja aðlögunarstyrkina,(IPA), peningana,  dúsurnar sem ESB bauð til að greiða fyrir í aðlögun Íslands og aðild að sambandinu

Það er því fagnaðrefni ef ráðherrar VG, þær Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir virðast nú átta sig á því að ESB-umsóknin var feigðarflan fyrir VG frá upphafi og getur ekki haldið áfram. Báðar lýstu þær efasemdum sínum um aðildarferlið að ESB í kvöldfréttum útvarps hinn 11. ágúst sl. Undir það hafa nú fleiri þingmenn VG tekið. Vonandi er þetta fyrirboði stefnubreytinga enda styttist í næstu kosningar og alvöruna sem þeim fylgir. Ég hef krafist þess að umsóknin verði afturkölluð hið fyrsta.

 Þrengt að formanninum

Lítið hefur þó breyst í ESB-málinu frá því fyrr í sumar. Makrílveiðunum var bjargað með ákvörðun um veiðarnar fyrir sl. áramót. Aðlögunarferlið að ESB heldur áfram á fullri ferð,  en jafnframt breikkar bilið milli grasrótarinnar og þeirra forystumanna VG sem ýta á eftir í þessu ferli.

" Villikettirnir" í VG hafa þó staðið vaktina og munu gera áfram. Svo sannarlega er gott, því fleiri félaga minna í VG sem hafa stutt umsóknina til þessa og lagt sál sína þar undir telji nú að endurskoða þurfi málið í heild sinni.

Orð eru til alls fyrst en að sjálfsögðu verður spurt um trúverðugleikann og efndir í þeirri umræðu.

Að fá fyrirgefningu og bæta ráð sitt

Menn munu vafalaust reyna að ná fyrirgefningu kjósenda VG og þjóðarinnar í ESB-málinu m.a. með því að ganga berfættir milli höfuðkirkna landsins.
Slíkt gerði Sturla Sighvatsson forðum í Róm og „lét hýða sig til blóðs fyrir kirkjudyrum“ til að fá fyrirgefningu synda sinna og ná sáttum við kaþólska kirkjuhöfðingja landsins. Áhorfendum fannst mikið til um.
Reyndar kom hann svo við á heimleiðinni í Noregi og sór konungi hollustueiða með afleiðingum sem öllum er kunn, en það er önnur saga. Hér sem fyrr munu verkin tala.
Það ber í sér feigð fyrir VG að ætla að ganga til kosninga með þetta mál opið og ófrágengið. Þetta skilja sem betur fer æ fleiri og fleiri.

Umsóknin verði afturkölluð

Að tillögu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna samþykkti Alþingi að sækja um aðild að ESB. Ég var því andvígur og fleiri þingmenn VG greiddu einnig atkvæði gegn þeirri tillögu á þingi, enda gekk sú samþykkt þvert gegn stefnu VG og þeim loforðum sem ég og fleiri frambjóðendur gáfum fyrir kosningar. Því var jafnframt hafnað á Alþingi að þjóðin greiddi atkvæði um það fyrst hvort haldið skyldi út í vegferð aðlögunar og aðildar.
 Það er mikilvægt að Alþingi afturkalli umsóknina og tryggi að ný umsókn verði ekki send nema að þjóðin hafi veitt samþykki sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Tillaga þess efnis frá mér og Atla Gíslasyni liggur nú fyrir Alþingi.
( Birtist sem grein í mbl. 14. ág.sl.)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband