"Vitleysisumræðan" í Grímsstaðamálinu

        
Efnahags og viðskiptaráðherra lagði fyrir ríkisstjórn minnisblað 12.06 sl. þar sem greint var frá því að ráðuneytið hefði veitt Zongkung Europe ehf undanþágu frá því ákvæði í lögum að minnst helmingur stjórnarmanna félags skuli vera búsettir hér á landi .
"Eftir yfirferð yfir málið var það niðurstaða ráðuneytisins að veita umræddu félagi undanþágu en þess
var sérstaklega getið að við afgreiðslu málsins hefði verið tekið tillit til þess að framkvæmdastjóri
félagsins er íslenskur
" segir í niðurlagi minnisblaðs ráðuneytisins.
Framkvæmdastjórinn er íslenskur !!!!

Með þeirri undanþágu ráðuneytisins var rutt úr vegi hindrunum fyrir kínversku fyrirtækin að stofna nýtt fyrirtæki hér á landi um áform sin á Grímsstöðum á Fjöllum. Skírskotað er til þjóðernis framkvæmdastjórans. Nú vita menn að framkvæmdastjórar þurfa ekki að vera eilífir í starfi þó þeir séu íslenskir og vinni fyrir kínverja.
Minnisblað þetta frá 12 júní sl. til ríkisstjórnarinnar sem birtist á vefsíðu mbl. sl. þriðjudag er um margt athyglisvert. Ekki aðeins vegna þess að málið í heild sinni var tekið af innanríkissráðherra Ögmundi Jónassyni og vegna andstöðu hans og fært til efnahags og viðskiptaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, heldur og fyrir það hversu tíunduð eru vönduð vinnubrögð efnahagsráðneytisins við þá ákvörðun að heimila tveim kínverskum fyrirtækjum að stofna einkahlutafélag hér á landi: „Ráðuneytið tók erindið til ítarlegrar skoðunar m.a. út frá því hvort að rétt væri að skilyrða undanþáguna með einhverjum hætti. t.d. þannig að einn stjórnarmanna yrði að vera búsettur á Íslandi“.
Það lýsir í nokkru baksviði þessa máls að undanþágan í svo mjög umdeildu máli skuli afgreidd frá ríkisstjórn og það í ágreiningi án þess að greina frá því á fjölmiðlayfirliti ríkisstjórnarfunda eða opinbera það á annan hátt. Hvers vegna þessi feluleikur?

Nú vissi ég að innanríkisráðherrann, Ögmundur Jónasson hafði á sínum tíma aflað margvíslegra gagna um hin kínversku fyrirtæki áður en hann hafnaði að veita undanþáguna til kaupa á Grímstaðajörðinni. Þeirrar vinnu er hinsvegar hvergi getið í umræddu minnisblaði efnahags og viðskiptaráðherra, sem er reyndar ósköp rýrt efnislega.
T.d. er minnisblaðið ekki nákvæmara en svo að lagatilvitnunin virðist röng, vitnað er til laga nr. 134 frá 1994 en eiga að vera lög um einkahlutafélög nr. 138 frá 1994. Þá er nafn hins nýja kínverska fyrirtækis breytilegt í texta minnisblaðsins : Zongkung- Zongkun- Zhongkun.

Villikettir og skúrkar

Þjóðin hefur fylgst mjög náið með umræðunni um Grímsstaðamálið síðustu daga. Það hefur engum dulist ágreiningur ráðherranna Ögmundar Jónassonar og Steingríms J. Sigfússonar í þessu máli. Ég studdi ákvörðun Ögmundar á sínum tíma í ríkisstjórn og er áfram þeirrar skoðunar að það eigi að stöðva þessi fjárfestingaráform kínverjanna á Grímsstöðum í fæðingu enda samræmast þau engan vegin stefnu og hugmyndafræði VG.
Hvarvetna þar sem ég hef farið um landið heyri ég þá sömu skoðun bæði hjá fyrrverandi og núverandi Vg félögum sem og hjá öllum almenningi. Grímsstaðamálinu var sparkað í horn á síðasta ríkisstjórnarfundi með því að skipa í það sérstaka ráðherranefnd en leyfið og undanþágan sem efnahags og viðskiptaráðuneytið veitti kínverjunum hefur ekki verið afturkallað, sem átti að gera.
Segir það sína sögu um stöðu málsins í ríkisstjórn. Í viðtali við ríkisútvarpið eftir ríkisstjórnarfund sl. þriðjudag spyr fréttamaðurinn út í Núbó og Grímsstaða umræðuna síðustu daga: " Steingrímur segir það af og frá að hann sé að bakka í málinu eða einangrast í eigin flokki. „Ég er bara nákvæmlega að leggja til það sem mér finnst skynsamlegt í þessu máli. Ég gef nákvæmlega ekkert fyrir þessa vitleysisumræðu sem búin er að vera í gangi undanfarna daga þar sem verið er að reyna að draga upp hetjur og skúrka.“ 
Fyrr meir gaf forysta ríkisstjórnarinnar ákveðnum armi VG nafnið Villikettir. Nú hefur hinn helmingurinn einnig fengið nafn frá sömu forystu og kallast Skúrkar.

 

.
Meðf. er Minnisblað til ríkisstjórnarinnar frá 12.06. 2012 og birt var í vikunni.
Minnisblaðið

"Ríkisstjórn Íslands
Sendandi: Efnahags- og viðskiptaráðuneytið
Dagsetning: 12.06.2012
Málsnúmer: EVR12060042
Bréfalykill: 8.11
Efni: Undanþága frá búsetuskilyrðum - Zongkung Europe ehf.
Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 134/1994 um einkahlutafélög er kveðið á um að a.m.k. einn stofnefnda félags
skuli hafa heimilisfesti hér á landi nema ráðherra veiti undanþágu þar frá. Þá segir í 2. mgr. 42. gr. að
minnst helmingur stjórnarmanna félags skuli vera búsettir hér á landi en ráðherra getur veitt frá því
undanþágur. Skilyrðin eiga þó ekki við um þá sem búsettir eru inna EES-svæðisins, ríkisborgara
OECD ríkja, ríkisborgara aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyinga.
Ráðuneytið hefur undanfarið haft til meðferðar beiðni félagsins Zongkun Europe ehf. um undanþágu
frá skilyrðum 3. gr. laga um einkahlutafélög þar sem félagið óskar eftir að tvö kínversk félög geti
stofnað Zhongkun Europe ehf. hér á landi. Þá óskar félagið jafnframt eftir undanþágu frá
búsetuskilyrðum 42. gr. laganna þannig að þrír Kínverjar geti setið í stjórn félagsins.
Ráðuneytið tók erindið til ítarlegrar skoðunar m.a. út frá því hvort að rétt væri að skilyrða
undanþáguna með einhverjum hætti. t.d. þannig að einn stjórnarmanna yrði að vera búsettur á Íslandi.
Í ljósi þeirra víðtæku undanþágu sem nú þegar er í gildi, líkt og rakið er hér að framan, taldi
ráðuneytið ekki mögulegt að setja sem skilyrði að stjórnarmaður yrði að hafa búsetu á Íslandi. Þá
þótti það ekki þjóna tilgangi að krefjast þess að stjórnarmaður væri búsettur innan þeirra svæða sem
nú þegar hafa almennar undanþágur. Við vinnslu málsins kom einnig í ljós að erfitt er að færa rök
fyrir því að gera búsetu á Íslandi að skilyrði sérstaklega í ljósi þess hve víðtæk almenn undanþága er
þar frá. Má í því sambandi t.d. benda á að íslenski félagarétturinn er byggður að mestu á dönskum
rétti en þar var að finna sambærilegt skilyrði um búsetu sem Danir hafa nú afnumið.
Þá hefur ráðuneytið í öllum tilvikum fallist á að veita undanþágur hafi verið eftir því sóst. Hafa
undanþágur m.a. verið veittar til kínverskra ríkisborgara og mikilvægt að gæta að jafnræði við
afgreiðslu mála enda hefði annars komið upp misræmi í afgreiðslu ráðuneytisins sem erfitt er að
rökstyðja enda er ekki að finna skýringar á búsetuskilyrðinu, þ.e. tilgangi þess, í lögunum sjálfum eða
lögskýringargögnum. Ætla má að tilgangur búsetuskilyrðisins hafi í upphafi verið sá að tryggja
einhverskonar tengsl við landið og að auðvelda samskipti við félagið en segja má að þau sjónarmið
samræmis illa núverandi lagaumhverfi í ljósi þess hversu víðtækar hinar almennu undanþágur frá
búsetuskilyrðinu eru.
Eftir yfirferð yfir málið var það niðurstaða ráðuneytisins að veita umræddu félagi undanþágu en þess
var sérstaklega getið að við afgreiðslu málsins hefði verið tekið tillit til þess að framkvæmdastjóri
félagsins er íslenskur."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband