Makrílveiðar Íslendinga eða aðild að ESB

Íslensk yfirvöld standa ásamt Færeyingum frammi fyrir erfiðum samningaviðræðum við ESB og Noreg um makríl. Forystumenn ESB ríkja hafa valið að tengja saman aðildarumsóknina að ESB og samninga strandríkjanna um makríl.
Og nú reynir á að við höldum fram af fullri einurð rétti okkar og gætum vel íslenskra hagsmuna og bognum ekki í hnjánum.
Stefna Íslands í skiptingu og stjórnun makrílveiðanna var mótuð í tíð Tómasar H. Heiðars samningamanns Íslands, sem setti fram rökstudda kröfu um liðlega 16% hlut í heildarveiðinni. Umtalsverð eftirgjöf frá þeirri stefnu vegna aðildarviðræðna að ESB væri með öllu ólíðandi.

 Spriklandi makríll á hverjum bryggjusporði

Landsmenn upplifa þessa dagana hversu mikilvægar makrílveiðarnar eru okkur Íslendingum. Spriklandi makríll á hverjum bryggjusporði hringinn í kringum landið staðfestir gríðarlegt magn hans íslenskri lögsögu. Er það ekki ný saga, því að m.a. Jón Ólafsson Grunnvíkingur lýsir svörtum sjó af makríl í Fiskafræði sinni snemma á 18. öld

ESB tengir makríl og aðild að ESB saman

Forystumenn ESB bæði í Brussel og einstökum ESB ríkjum hafa grímulaust tengt saman aðildarviðræðurnar og makrílveiðar Íslendinga, þó svo það eigi að vera algjörlega aðskilin mál að okkar mati. Nú síðast írski sjávarútvegsráðherrann á ráðherrafundi ESB í Brussel.

Þeim sem eru hallir undir aðild að ESB er mikið kappsmál að aðildarviðræðurnar og aðlögunin að ESB gangi sem hraðast fyrir sig. Þeir keppast nú við að lýsa því yfir að þessi mál séu ótengd af hálfu ESB.

Svo vel þekki ég afstöðu ESB til makrílveiðanna frá tíma mínum sem ráðherra að ég get fullyrt að slíkt er mikil sjálfsblekking.

Fjálgleg var grein formanns utanríkismálnefndar, Árna Þórs Sigurðssonar nýverið þar sem þessu var haldið fram.

 Það hefði hinsvegar verið eðlilegt að sjávarútvegsráðherra Íslands og utanríkismálanefnd hefði nú þegar mótmælt formlega áformum og hótunum ESB um viðskiftaþvinganir gagnvart Íslendingum og Færeyingum vegna makrílveiðanna.

Sjávarútvegsnefnd ESB þingsins hefur nýlega samþykkt reglugerð sem heimilar ESB slíkt og samkvæmt yfirlýstu markmiði er þeim heimildum beint gegn Íslendingum og Færeyingum.

Náið samráð við Færeyinga mikilvægt
Ég lagði sem ráðherra áherslu á mjög náið samráð við Færeyinga í viðræðum strandríkjanna um makríl og hafnaði tilraunum ESB til að skilja okkur að og neitaði gylliboðum ESB um tvíhliða samningaviðræður. Samningar og lausn makrílveiðanna er verkefni allra þessara standríkja saman og er þar ekkert eitt öðru rétthærra í þeim efnum.

Sakna ég þess nú í umræðunni að ekki skuli af Íslands hálfu lýst yfir áframhaldandi og nánu samstarfi við Færeyinga í samningunum um makríl. Slíkt er styrkur fyrir báðar þessar þjóðir ekki síst í ljósa hótana frá forystumönnum ESB.

ESB hefur sett makrílsamninga í uppnám

Forsvarsmenn ESB hafa komið því rækilega fyrir að sú "lausn" makríldeilunnar sem felst í kröfunni um eftirgjöf Íslendinga í makrílveiðunum er nátengd framgangi aðildarviðræðnanna við ESB.

Það er veruleikinn sem blasir við hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Við þær aðstæður og í ljósi hótanna ESB verður hin minnsta eftirgjöf Íslendinga því túlkuð sem flótti og undirlægjuháttur og fyrst og fremst ætluð til að greiða fyrir aðild að ESB.

ESB hefur því með óábyrgri framkomu sinni, tengingu við ESB - aðildarviðræðurnar og yfirlýsingum um viðskiftaþvinganir sett makrílsamningana í uppnám og ákveðna sjálfheldu meðan aðildarviðræður Íslendinga og ESB standa yfir.

Þetta er sá veruleiki sem blasir við íslenskum stjórnvöldum og almenningi í landinu. Við eigum að standa á okkar rétti af fullri einurð en ekki með neinni hálfvelgju

( Greinin birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 2. júlí)

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband