Þjóðkirkjan stendur öllum opin - óháð trúfélagsaðild

 "Eitt af einkennum þjóðkirkju er að hún stendur öllum opin. Jesús fór ekki í manngreinarálit og það gerir Kirkja hans ekki heldur.  Erindi hennar er öllum ætlað.  Öllum landsmönnum gefst kostur á henni óháð trúfélagsaðild."

Þannig mæltist nýjum biskupi Íslands frú  Agnesi M. Sigurðardóttur í vígsluræðu sinni í Hallgrímskirkju í Reykjavík í dag.  Og hún áréttaði mikilvægi Kirkjunnar sem ein af grunnstoðum samfélagsins og þjónustu hennar um allt land:

 "Kirkjan hefur haft mótandi áhrif á samfélagið alla tíð, ekki vegna sjálfrar sín heldur vegna þess erindis sem henni er ætlað að koma á framfæri. Það erindi er gefandi og gott, lífgefandi og styrkjandi. Þess vegna er Kirkjan ein af grunnstoðum samfélagsins.  Kristin hugsun hefur mótað menningu okkar í meira en 1000 ár og á þeim arfi byggist samfélag okkar." 

 Frú Agnes hefur einmitt undanfarin ár verið sóknarprestur á Vestfjörðum í einni af nyrstu sjávarbyggð landsins, Bolungarvík og kynnst þar baráttu og djörfung fólks í blíðu og stríðu við ysta haf.

Eigum að feta í fótspor meistarans en ekki vera hann  

Frú Agnes tekur við ábyrgðarmiklu og krefjandi starfi fyrir íslensku þjóðina á miklum umbrotatímum. Mér fannst hún nálgast hlutverk sitt af tilhlýðilegri auðmýkt sem voru jafnframt góð skilaboð til allra þeirra sem valdir eru tímabundið til forystu í málum þjóðarinnar:

"Við skulum því leyfa Guði að komast að í lífi okkar og þjónustu og leyfa honum að eiga síðasta orðið. Muna að við eigum að feta í fótspor meistarans en ekki vera hann".

 Hlýtt hjarta

Vissulega eru það mikil  tímamót í sögu kirkjunnar sem stofnunar að nú skuli í fyrsta sinn kona gegna þessu háverðuga embætti.

Ég óska frú Agnesi og fjölskyldu til hamingju á þessum merku tímamótum í lífi hennar og íslensku þjóðkirkjunnar. Megi góður guð og hlýtt hjarta leiða þig í starfi.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband