Hækkun veiðigjalds beint til ríkisins er hreinn landsbyggðarskattur

Frumvarp til laga um veiðigjald sem nú er rætt á alþingi er eðlilega mjög umdeilt. Það er mat færustu sérfræðinga að heimild til töku sérstaks gjalds á eina atvinnugrein um fram aðra standist varla jafnræðissjónarmið.    Sé slíkt gert engu að síður verður það að vera hluti af heildarlöggjöf viðkomandi atvinnugreinar.   Skattar eru hinsvegar lagðir á samkvæmt og innheimtir samkvæmt skattalögum og ef ná þarf hærra afgjaldi af útgerð og fiskvinnslu til ríkissjóðs á að leita leiða til að gera það í gengum almenn skattalög.

Sjávarútvegsfyrirtæki á landsbyggðinni greiða um 80% af innheimtum veiðigjöldum og tilfærsla fjármagns frá þessum byggðum til höfuðborgarsvæðisins er veruleg. Bráðabirgða úttektir gefa til kynna að annarri hverri skattakrónu almennings af landsbyggðinni sé endanlega ráðstafað á höfuðborgarsvæðinu.

Sjávarbyggðirnar vítt og breytt um landið verða að fá forgang í að njóta afraksturs auðlinda sinna.

Frumvinnslugreinarnar hafa undanfarna áratugi farið í gegnum mikla og langvarandi endurskipulagningu í kjölfar gjörbreytts rekstrarumhverfis. Þetta hefur gengið nærri þeim samfélögum sem hafa byggst að miklu leyti upp á grunni þeirra og á þessum tíma urðu greinileg kaflaskil í íbúaþróun þar til hins verra. Sjálfssagt er að sjávarútvegurinn greiði til fulls eins og aðrar atvinnugreinar til samfélagsins en þá verður jafnframt  að taka fullt tillit til áhrifanna á nærsamfélagið, sjávarbyggðirnar á landsbyggðinni.

 

Mikilvægt er að bæði aflaheimildir og hluti tekinna veiðigjalda renni aftur til baka inn á þessi svæði ef ekki á að koma til frekari áfalla í formi skertrar þjónustu og lakari lífskjara og frekari brottflutninga íbúa.

Þess vegna er jafnframt mikilvægt að skoða þessi mál heildstætt og greina fyrirfram bein og óbein áhrif slíkrar gjaldtöku.

 

( Úr grein okkar  Atla Gíslasonar  í Mbl.  sl. laugardag.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband