Peningarnir voru búnir í Landsbankanum- farnir suður?

Fyrirvaralausar lokanir Landsbankans á fjölda  þjónustustöðva á landsbyggðinni kalla eðlilega fram hörð viðbrögð íbúa á viðkomandi svæðum.
Harkaleg og órökstudd framganga stjórnenda bankans við þessar lokanir er bæði siðlaus og ábyrgðarlaus gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum sem um áratugaskeið hafa byggt upp og notið þessarar þjónustu.
Ábyrgð stjórnvalda 
Hér bera stjórnvöld einnig ábyrgð en Landsbankinn er um 80- 90% í eigu ríkisins sem skipar meirihluta innan stjórnar og á aðalfundi hlutafélagsins. Jafnframt er það aðaleigandinn, ríkissjóður Íslands sem setur bankanum eigendastefnu.
Þessi órökstudda framganga Landsbankans gangvart landsbyggðinni gengur þvert á stefnu og áherslur Vinstri grænna í þessum málum.
Ég hef því í dag skrifað formanni þingflokks VG eftirfarandi bréf:
"Hér með óska ég eftir að þingflokkur VG sendi áskorun á stjórnendur og eigendur Landsbankans um að fresta og endurskoða áform sín um lokanir starfsstöðva sinna á landsbyggðinni sem boðaðar eru frá 1. júní nk.
Fyrirvaralausar lokanir og skerðing á þessari grunnþjónustu í dreifðum byggðarlögum samrýmist hvorki stefnu VG í almannaþjónustu og byggðamálum né heldur siðlegum vinnubrögðum og samfélagsábyrgð þjónustustofnunar eins og Landsbankinn er.
Skorað er á stjórnendur Landsbankans að taka strax upp viðræður við heimaaðila og sveitarstjórnir á viðkomandi svæðum um tilhögun þjónustunnar ef nauðsynlegt er að breyta þar um.
Landsbankinn þarf að sjálfsögðu að geta haldið stöðu sinni í samkeppni ekki aðeins með arði til eigenda sinna heldur einnig í þjónustu og viðskiptavild.
 Eðlilegt er að gera ríkar kröfur til Landsbankans sem ríkisbanka á landsvísu um vinnubrögð og samfélagsskyldur.
Lagt er til að þingflokkur VG hafi forgöngu um að kveðið verðið skýrt á um þessar skyldur í eigendastefnu Landsbankans reynist þess þörf.
Minnt er á að starfsemi Landsbankans í minni byggðarlögum skiptir miklu máli fyrir heildarþjónustustig við íbúa á viðkomandi svæðum. Víða á Landsbankinn þar í samstarfi við aðra aðila, eins og Íslandspóst og fleiri, sem með þessum lokunum er sett í uppnám".
Vænti ég þess að þingflokkurinn taki af myndugleik á þessum málum þannig að lokanir verði endurskoðaðar og  eigendastefnan varðandi Landsbankann kveði skýrt á um samfélags og samráðsskyldu bankans við nærsamfélagið.
Póstsparibankinn
Jafnframt tel ég mjög miklivægt að nú þegar verði sett formleg vinna í að finna leiðir sem tryggja héraðsbundna fjármálaþjónustu með sparisjóðum eða t.d.  í gengum Íslandspóst.  "Póstsparibankinn" er mjög miklivægur í þjónustu við hinar dreifðu byggðir í nágrannalöndum okkar og gæti vel verið fyrirmynd sem við getum tekið upp.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband