Rangfærslum forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur svarað

Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir fór með rangt mál í ræðustól Alþingis 29. mars sl. er hún sakaði Jón Bjarnason fyrrum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að eiga alla sök á og  hafa tafið frumvarpssmíði vegna breytinga á fiskveiðistjórnuninni. Þar sannaðist hið gamalkunna að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Hægt er að sjá  ummæli Jóhönnu Sigurðardóttur frá 29. mars sl. á vef Alþingis.  Hinsvegar vekur það furðu að forsætisráðherra skuli leyfa sér að  koma fram með þvílíkum dónaskap og rangfærslum  og það í lokuðum fyrirspurnartíma á Alþingi. Rétt þykir því að rekja ferill sjávarútvegsfrumvarpanna í ráðherratíð Jóns Bjarnasonar .

Lengst af þeim tíma sem Jón Bjarnason sat í embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var fiskveiðistjórnunarmálinu stýrt af forsætisráðherra og samflokksmönnum hennar. Sú saga hófst með skilyrðum Samfylkingarinnar fyrir því að VG fengi ráðuneyti sjávarútvegsmála í sinn hlut.

Krafa Jóhönnu sem formaður VG, Steingrímur J. Sigfússon, ákvað að beygja sig undir var að áður en ráðuneytið hæfi vinnu við málið færi það í hendur samráðshóps undir forystu Samfylkingarinnar. Til formennsku valdist Guðbjartur Hannesson.

Guðbjartsnefndin fékk 16 mánuði

Guðbjartsnefndin sem var fjölskipuð fékk úthlutað verktíma til haustsins 2009 en skilaði þó ekki af sér fyrr en í september 2010. Þá strax kom fram krafa Samfylkingarinnar um að málið færi beint til þingmannahóps stjórnarflokkanna. Til þess að mæta því sjónarmiði var skipuð samráðsnefnd sex þingmanna sem skyldu starfa með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að málinu. Síðla árs 2010 hófu starfsmenn ráðuneytisins vinnu við að semja drög að nýjum fiskveiðistjórnunarlögum. Þau voru unnin í samráði við þingmannahópinn. Drög að frumvarpi lágu fyrir um mánaðamótin febrúar mars 2011. Þá bregður svo við að forsætisráðherra skipar sérstaka ráðherranefnd undir eigin forsæti til að vinna að málinu. Í nefndinni áttu auk hennar sæti ráðherrarnir Jón Bjarnason, Steingrímur J. Sigfússon og Guðbjartur Hannesson. Þar með bar forsætisráðherra ábyrgð á framgangi málsins. Við tóku tveggja mánaða stanslaus fundahöld ráðherra og stjórnarþingmanna þar sem drögum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis var breytt verulega og þannig var málið lagt fyrir Alþingi í maí 2011. Þetta frumvarp forsætisráðherra hlaut falleinkunn allra umsagnaraðila.

Einstakir ráðherrar sýndu þá af sér þann einstaka drengskap að hlaupa frá málinu jafnskjótt og þeir höfðu afgreitt það úr ríkisstjórn og fella um frumvarpið miður smekklega palladóma. Eftir að hafa verið vísað til nefndar vorið 2011 bárust umsagnir um málið en stjórnarþingmenn sem höfðu málið með hendi það sumar hvorki unnu í málinu né né luku yfirferð yfir umsagnir sem sjávarútvegsnefnd bárust vegna frumvarpsins.

Aftur á byrjunarreit

Málið var svo aftur komið á byrjunarreit með því að formaður og varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar skiluðu því til ráðherra í lok september. Þá loks gafst ráðuneytinu tóm til þess að vinna að málinu og voru þá látnar standa hendur fram úr ermum. Hinn 21. nóv ember eða sjö vikum síðar hafði starfshópur á vegum ráðherra lokið yfirferð málsins og lagði fram vinnugögn í formi tillögu að nýju frumvarpi. Þetta var eini tíminn þar sem Jón Bjarnason hafði málið einn á sínu forræði.

Þessi nýju drög kynnti Jón Bjarnason fyrir ríkisstjórninni og á netinu. Þar með var kallað eftir athugasemdum og ábendingum hagsmunaðila.

Þá eins og nú viðhafði forsætisráðherra gífuryrði um málið og skipaði síðan nýja ráðherranefnd til að yfirfara það en um starf þeirrar nefndar eru litlar heimildir. Steingrímur J. Sigfússon hefur nú eftir 12 vikna veru í embætti lagt fram nýtt frumvarp sem er til meðferðar í þinginu.

Sjávarbyggðirnar blæða í nýju frumvarpi

Um leið og rangfærslur forsætisráðherra í þessu efni eru leiðréttar viljum við nota tækifærið til að óska henni og flokki hennar til hamingju með þann árangur sem Samfylkingin hefur náð í samstarfi við Steingrím J. Sigfússon. Ágreiningur ríkisstjórnarflokkanna um sjávarútvegsmálin hefur snúist um átök milli félagshyggju og markaðshyggju. VG lagði áherslu á samfélagslega ábyrgð og réttlætissjónarmið sem aðeins yrði mætt með ríkum byggðatengingum í sjávarútvegi. Innan Samfylkingarinnar hefur sú skoðun aftur á móti verið ríkjandi að lausn málsins felist fyrst og fremst í skattlagningu útgerðarinnar í ríkisstjórn og að réttlætismál verði leyst með markaðshyggju. Þá skiptir miklu á þeim bæ að allar breytingar falli að hinum óraunhæfu Evrópudraumum ríkisstjórnarforystunnar.

Enginn vafi er að þessi sjónarmið hafa orðið algerlega ofan á í þeirri vinnu sem Steingrímur J. Sigfússon leggur nú fram. Raunar er það ekki eina dæmið um að stefna Samfylkingarinnar virðist nær einráð í starfi sitjandi ríkisstjórnar.

Mikilvægar breytingar hafa náðst fram

Þrátt fyrir það ofríki sem forsætisráðherra og forysta ríkisstjórnarinnar beitti frá fyrsta degi í þessu máli hefur náðst mikilvægur árangur í stjórn fiskveiða á kjörtímabilinu. Þeir sigrar hafa verið unnir með öðrum frumvörpum sem varða greinina og of langt mál er að rekja í stuttri blaðagrein. Þar munar mestu um innleiðingu strandveiða, eflingu byggðatengdra aðgerða með svokölluðu litla frumvarpi sem var lagt fram vorið 2011 og útboð aflaheimilda m.a. í skötusel, sem Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon reyndu að stöðva á lokasprettinum.

Forsætisráðherra og flokk hennar hefur náð að beygja VG og keyra fram markaðslausnir í stað félagshyggju og byggðasjónarmiða.

Höfundar eru:  Atli Gíslason alþingismaður og fyrrverandi formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar  og Jón Bjarnason alþingismaður og fyrrverandi sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra. Birtist sem grein í Mbl. 30. mars sl.

 

 

 

--


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband