Sunnudagur, 5. febrúar 2012
Að vera sjálfum sér trúr og segja þjóðinni satt
Ég virði skoðanir opinberra ESB-sinna sem viðurkenna af heilindum samningaviðræðurnar eins og þær eru: aðlögunarferli. Þeir vilja hraða för okkar eins og kostur er inn í sambandið. Þeir eru ekki í neinu bjölluati. För annarra er hins vegar heldur verri þeirra sem tala í vestur en ganga samt í austur þegar ESB-aðild er til umfjöllunar. Slíkur blekkingaleikur sumra íslenskra forystumanna er ekki heiðarlegur og er ólíðandi gagnvart þjóðinni.
Umsókn Íslands að ESB klýfur þjóðina í tvennt. Hvarvetna eru menn tvístígandi og þeirri spurningu heyrist oftar kastað upp: hvert er framhaldið? Harkan í umræðunni eykst. Brennimerkingar, fórnir og flokkadrættir munu enn aukast ef framhald verður á, ekki síst þegar stofnanir og stjórnsýsla ánetjast fjárframlögum ESB í aðlögunarferlinu. Umsóknin hefur komið bæði lagasetningu Alþingis og vinnu stjórnsýslunnar í uppnám. Það er heldur ekki að undra. Margir þeir sem voru hlynntir því að sækja um aðild héldu að hér væri um samningaviðræður að ræða. Þeir héldu í sakleysi sínu að hér gengju tveir fullbærir aðilar til samninga á sjálfstæðum forsendum. Sumir halda enn í þessa óskhyggju og tala um samninga. Lagagerð og reglusmíð ísl. stjórnsýslu taka nú þegar mið af því sem okkur verður gert að uppfylla við inngöngu í ESB.
Aðlögun en ekki samningar við ESB
Það er mikill misskilningur að hægt sé að leika sér í milliríkjasamningum, að kíkja hvað sé í pakkanum. Ríki sem sækir um aðild að Evrópusambandinu fer inn í aðlögunarferli þar sem umsóknarríki tekur jafnt og þétt upp lög og reglugerðir Evrópusambandsins. Ráðamenn í Brussel gera ráð fyrir að umsóknarríki hafi gert upp hug sinn og vilji inn í félagsskapinn. Evrópusambandið býður ekki upp á neinar óskuldbindandi viðræður. Á vefsíðu ESB sem fjallar um stækkun ESB segir orðrétt:
Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu sem fylla 90 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið.
[1] First, it is important to underline that the term "negotiation" can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules ... are not negotiable. (Sjá: http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/enl-understand_en.pdf).
Sjá grein mína í mbl. 4. febr . Þjóðaratkvæði um ESB samhliða forsetakosningum
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:33 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.