Þriðjudagur, 24. janúar 2012
Asni klyfjaður gulli - aðlögun að ESB
ESB- sinnar sækja nú hart á Alþingi að samþykkja heimildir til að taka á móti ca 5 milljarða sérstökum beinum fjárstuðning (IPA) við Ísland til þess að tryggja að íslensk stjórnsýsla og stofnanir verði tilbúin til að yfirtaka allt regluverk ESB við lok samningsgerðar. Ráðstöfun þessa fjár skal njóta víðtækra skattfríðinda hér á landi.
Málið var rætt á Alþingi í dag.
Fjárstuðningurinn dreifist á næstu þrjú ár, en á þeim tíma á að ljúka samningsferlinu og aðlögun Íslands að ESB.
Mér kemur ekki á óvart brennandi áhuga Samfylkingarinnar í að þiggja þessar fjárgjafir.
En þeim mun mikilvægara er að þingmenn VG standi í lappirnar og komi í veg fyrir slíka mútuþægni.
Sagt er að engir borgarmúrar séu svo háir að asni klyfjaður gulli komist ekki þar inn fyrir.
Eitt er að hafa sótt um aðild að ESB þvert á vilja þjóðarinnar, en að þiggja beint mútufé til að liðka fyrir aðildarsamningum, það er nokkuð sem Alþingi getur ekki látið bjóða sér.
Þessar fjárgjafir standa aðeins þeim til boða sem sótt hafa um aðild og tilgangur þeirra er grímulaus ; aðlaga regluverk og innri samfélagsgerð umsóknarlandsins að stjórnsýslu ESB.
Ég lýsti andstöðu við þessa tillögur í ríkisstjórn.
Þegar styrkjamálið var rætt í þingflokki Vg lýsti ég ásamt fleiri þingmönnum fullum fyrirvara um stuðning við málið á Alþingi
Enda er sú afstaða okkar í fullu samræmi við grunnstefnu Vinstri grænna og ítrekaðar flokksráðs og landsfundarsamþykktir:
Úr grunnstefnuskrá VG
"Samskipti við Evrópusambandið ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála.
Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað.
Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of."
Eftir þessari stefnu hef ég farið.
Úr flokksráðssamþykkt VG okt 2010
" ..Til þess að umræðan verði í reynd sanngjörn og lýðræðisleg þarf að nást sátt um skýrar leikreglur sem tryggja jafna stöðu allra sjónarmiða og nái meðal annars utan um kostnað og fjármögnun áróðursstarfsemi. Þar til þjóðin hefur tekið sína ákvörðun þarf að tryggja að ekki verði gerðar neinar breytingar á stjórnsýslunni eða íslenskum lögum í þeim eina tilgangi að laga íslenskt stjórnkerfi fyrirfram að reglum Evrópusambandsins. Ekki verði heldur tekið við styrkjum sem beinlínis eiga að undirbúa aðild.
Flokksráðið hvetur til þess að svo fljótt sem unnt er verði í viðræðuferlinu látið reyna á meginhagsmuni Íslands eins og þeim er lýst í samþykkt Alþingis..."
Hér kemur skýrt fram að ekki skulið tekið á móti aðlögunarstyrkjum
Úr Landsfundarsamþykkt VG okt 2011
" .Landsfundurinn bendir á þá miklu skerðingu lýðræðis sem felst í ESB-aðild ásamt fullveldisafsali á fjölmörgum sviðum. Þróun innan ESB að undanförnu, nú síðast vegna átaka um framtíð evru-samstarfsins, stefnir í átt að enn frekari samruna með hertri miðstýringu. Með Lissabon-sáttmálanum er einnig kominn vísir að samstarfi um utanríkis- og hernaðarmálefni. Jafnframt eiga félagsleg sjónarmið, umhverfisvernd, fæðu- og matvælaöryggi og réttindi launafólks undir högg að sækja innan sambandsins.
Þá mun VG tryggja að íslenskt stjórnkerfi verði ekki aðlagað stjórnkerfi ESB á meðan á aðildarviðræðum stendur. .."
Framsögumaður ályktunarinnar á Akureyri tók frram að með aðlögun væri einnig átt við neitun á fjárstyrkjum eins og IPA
Úr Málefnahandbók VG
"Evrópsk samvinna
Samskipti við Evrópusambandið (ESB) ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála. Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að ESB réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar. Lýðræðislega kjörin stjórnvöld á Íslandi geta sjálf tekið ákvarðanir um lagabreytingar hliðstæðar þeim sem ákveðnar eru innan ESB, ef þau svo kjósa og þá út frá eigin forsendum. Aðild að ESB myndi skerða fullveldi Íslands enn frekar en orðið er með EES-samningnum og tefla í tvísýnu yfirráðum Íslendinga yfir auðlindum sínum.
Alþjóðleg viðskipti einkennast í síauknum mæli af því að þar eru þrjú stór markaðssvæði, Evrópusambandið, Ameríka og Suðaustur-Asía. Óráðlegt er fyrir smáríki eins og Ísland sem er bæði mjög háð innflutningi og útflutningi að taka sér stöðu innan tollmúra ESB. Íslendingar verða að geta samið um viðskipti við aðrar þjóðir á eigin forsendum.
Áróður um að Ísland geti gengið í ESB en fengið undanþágur frá grundvallarsáttmálum þess er varasamur. Undanþágur eru jafnan hugsaðar til skamms tíma á meðan aðlögun á sér stað. Íslendingar eiga ekki að sækjast eftir sérsamningum heldur axla sömu ábyrgð og önnur fullvalda ríki á alþjóðavettvangi.
Eðlilegt er að leggja aukna áherslu á lýðræðislega samvinnu á borð við þá sem fram fer í Evrópuráðinu. Þangað senda nær öll ríki álfunnar fulltrúa frá sínum þjóðþingum og skilyrði fyrir aðild lúta að mannréttindum en ekki efnahagsmálum. Evrópuráðið er vettvangur fyrir umræður um ýmis mikilvæg samfélagsleg málefni og samskipti aðildarríkjanna innbyrðis. Þá hefur ráðið haft forgöngu um mikilvæga samninga í umhverfismálum.
Aðild Íslands að Schengen-samkomulaginu um afnám vegabréfaskoðunar var óheillaskref. Í því felst að Íslendingar taka að sér vörslu ytri landamæra Evrópusambandsins og girðingar eru hækkaðar gagnvart öðrum ríkjum og heimshlutum. Schengensamstarfið er að auki kostnaðarsamt og felur í sér víðtæka og varhugaverða skráningu persónuupplýsinga".
Þarna er kveðið fast og vel að orði og ætti að vera öllum ljóst hver stefna VG er í þessum málum. Viðurkennd er sú staðreynd að engir möguleikar eru á varanlegum undanþágum frá grundvallarsáttmála ESB. Hægt væri því að kjósa strax um aðild eða ekki.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.1.2012 kl. 09:29 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.