Miðvikudagur, 18. janúar 2012
Hvar er ráðherraábyrgð Hrunstjórnarinnar
Á þingflokksfundi Vinstri Grænna skömmu fyrir jólahlé var til umræðu boðuð tillaga um að Alþingi samþykkti að draga ákæru sína á hendur Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra til baka.
Ég gerði þar grein fyrir þeirri afstöðu minni að ég styddi það að tillaga þess efnis kæmi til umfjöllunar Alþingis.
Að mínu mati er það lýðræðisleg afgreiðsla að slík tillaga fái efnislega umfjöllun Alþingis komi fram ósk um það. Þessi skoðun mín er óbreytt.
Ég studdi á Alþingi 28.sept 2010 þá tillögu þingmannanefndarinnar að höfða mál gegn fjórum fyrrverandi ráðherrum, sem hún tilgreindi fyrir landsdómi. Leit ég svo á að þarna væri um að ræða ákæru á hendur ákveðnum handhöfum framkvæmdavaldsins sem hafi staðið næst því að bera stjórnsýslulega ábyrgð á tiltekinni atburðarás efnahagshrunsins.
Pólitíska ábyrgðin lá að mínu mati mun víðar.
-Og hvað með aðra þá ráðherra sem sátu í þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, hrunstjórninni, og sitja enn í ráðherraembættum? Hvar er þeirra ábyrgð? Hvers vegna sluppu þeir, hef ég spurt mig?-
Jóhanna Sigurðardóttir, Geir H. Haarde, Árni Mathiesen og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sátu öll sem ráðherrar saman í Ríkisfjármálanefnd hrunstjórnarinnar:
( Ráðherranefnd um ríkisfjármál skipuleggur markviss vinnubrögð á sviði ríkisfjármála á vettvangi ríkisstjórnarinnar og vinnubrögð gagnvart ráðuneytum og Alþingi þannig að markvisst verði unnið á sviði ríkisfjármála.)
Ég vísa til harðrar og málefnalegrar gangrýni minnar á græðgis- og einkavæðinguna sem leidd var af forystu fyrrverandi ríkisstjórnarflokka fyrst Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og svo einnig Samfylkingarinnar, sem dró síst af sér í hrunadansinum.
Ég viðurkenni að mér brá mjög þegar niðurstöður atkvæðagreiðslunnar á Alþingi 28. sept 2010 leiddu í ljós að aðeins var naumur þingmeirihluti fyrir ákæru á hendur eins ráðherra, Geirs H. Haarde, en á engan hinna þriggja ráðherranna sem nefndin hafði lagt til.
Við þá atkvæðagreiðslu brustu að mínu mati ákveðnar forsendur sem lagðar voru upp heildstætt af þingmannanefndinni fyrir ákæru fjórmenninganna.
Mér finnst því eðlilegt að Alþingi verði við þeirri ósk að endurskoða málið í ljósi breyttra forsendna og enn fremur þess sem hefur komið fram og gerst síðan þingið afgreiddi málið frá sér.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.