Laugardagur, 14. janúar 2012
Að verja hagsmuni og samningsstöðu Íslands í ESB - viðræðum
Það hefur verið þrýstingur frá Evrópusambandinu, utanríkisráðuneytinu og þeim í forystu ríkisstjórnarinnar sem fara með þessi mál að ganga stöðugt lengra í aðildarferlinu að ESB , segir Jón Bjarnason.
Hann nefnir að fyrir um tveimur árum samþykkti Alþingi að innleiða matvælalöggjöf EES og ESB, en alþingi samþykkti jafnframt að viðhalda banni á innflutningi á hráu ófrosnu kjöti og lifandi dýrum. Enda var það eitt af kosningaloforðum VG.
Nú krefst Evrópusambandið þess að landið verði opnað fyrir innflutningi á hráu ófrosnu kjöti og lifandi dýrum frá ESB og þess vegna er kengur í ESB- viðræðunum um landbúnaðarmál.
Slíkur innflutningur myndi eins og kunnugt er ógna heilsu og lífi viðkvæmra íslenskra búfjártegunda
Slagurinn stendur um það hvort við ætlum að gefa þennan innflutning eftir fyrirfram eða alls ekki. Ég sagði nei, við gefum þetta ekki eftir fyrirfram.
Við verðum að gæta okkur á því að gera ekkert í þessu ferli sem getur skaðað hagsmuni eða samningsstöðu Íslands.
Við förum ekki að skrifa lög og reglur um innleiðingu á hinu evrópska landbúnaðarkerfi inn í íslenska löggjöf fyrr en búið er þá að semja um hvað við ætlum okkur að yfirtaka og hvað ekki.
Að kröfu forystu ríkisstjórnarinnar átti ég að samþykkja að einhverjum dönskum dýralækni yrði falið að leggja mat á áhættuna fyrir Ísland að heimila óheftan innflutning á hráu, ófrosnu kjöti og lifandi dýrum frá ESB.
Ég heyrði hvað klukkan sló og harðneitaði að framselja þennan rétt Íslands til dansks dýralæknis þó svo að Danir verði í forsvari í Evrópuviðræðunum á næstunni.
Við myndum leita til okkar innlendu sérfræðinga sem þekktu í raun þá hagsmuni sem í húfi eru.
Ég skipaði sem ráðherra innlendan starfshóp sérfræðinga sem hefur það hlutverk að verja hagsmuni okkar í þessum efnum en ekki til að gefa þá eftir.
(Ágúst Ingi Jónsson, Mbl. ræðir við Jón Bjarnason 7. jan 2012)
(Hópinn skipa:
Vilhjálmur Svansson dýralæknir sérfræðingur í veirusjúkdómum Keldum
Auður Lilja Arnþórsdóttir dýralæknir og sérfræðingur Matvælastofnun
Konráð Konráðsson dýralæknir og sérfræðingur Matvælastofnun
Ólafur Dýrmundsson búfjárfræðingur B. Í
Erna Bjarnadóttir hagfræðingur B.Í
Guðmundur Sigþórsson sérfræðingur í ESB málum
Ingimar Jóhannsson skrifstofustjóri SLR, formaður
Hópurinn hefur kvatt til Stefán Má Stefánsson prófessor og hrl. til lögfræðivinnu.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:07 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.