Þriðjudagur, 21. maí 2013
ESB- umsóknin afturkölluð ?
Framsókn og Sjálfstæðisflokkur munu verða að standa við landsfundarsamþykktir og kosningaloforð sín og afturkalla umsókn Íslands að Evrópusambandinu , loka áróðurskrifstofu ESB, skera á mútustyrkina og treysta sjálfstæði þjóðarinnar í samskiptum við aðrar þjóðir. Ef þeir gera það ekki strax og afdráttarlaust flækjast þeir áfram í netinu og litið verður á það sem hrein svik. Það var Alþingi sem samþykkti að sækja um aðild og það er því þess að samþykkja breytingu þar á og afturkalla umsóknina.
Hamskipti Framsóknar og VG í ESB- málumFramsóknarflokkurinn undir forystu Halldórs Ásgrímssonar var mjög ESB- sinnaður og yfirbauð meira að segja Samfylkinguna í undirlægjuhættinum gangvart ESB og vildi hraðferð þar inn. Grasrótin leit á stefnu Halldórs og forystusveit hans í ESB- málum sem svik við flokkinn.
Vinstrihreyfingin grænt framboð var meðal annars stofnuð um sjálfstæði í utanríkismálum og til að berjast gegn hugsanlegri umsókn og aðild að ESB- Þar skildu leiðir milli VG og Samfylkingar í upphafi. Það var hinsvegar forysta VG sem gekk á bak stefnu flokksins og loforða og sótti um aðild að ESB. Á síðasta landsfundi samþykkti VG að halda því umsóknar- og innlimunarferli áfram.
Framsóknarflokkurinn getur í raun ekki annað en staðið við að afturkalla umsóknina eins og hann hefur lofað. Þá hefur forysta þessara tveggja flokka farið í hring á nokkrum árum.
Fyrrverandi formaður Bændasamtakanna hlýtur að standa í lappirnar
Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki annað en staðið við sína landsfundarsamþykkt sem einnig er afdráttarlaus um afturköllun umsóknarinnar. Ég óska fyrrverandi formanni Bændasamtaka Íslands, Haraldi Benediktssyni til hamingju að vera kominn á þing. Það er fengur að Haraldi í þingliðið og gott fyrir landsbyggðina.
Saman og með liði Bændasamtakanna tókum við slaginn í minni ráðherratíð og síðar í utanríkismálanefnd Alþingis gegn framsali á meginhagsmunum Íslands til ESB. En hart var sótt að okkur af Sambandssinnum innan ríkisstjórnarinnar og á Alþingi eins og atburðarásin sannar. Haraldur á sinn pólitíska feril undir því að afturköllun umsóknar að ESB verði afdráttarlaus.
Sjálfstæði þjóðar er ekki verslunarvara
Sjálfstæði þjóðarinnar og fullveldi á ekki að gera að verslunarvöru í samskiptum við ríki eða ríkjasambönd. Verði umsóknin að ESB nú formlega og endanlega afturkölluð hefur verið til nokkurs barist. Ég treysti á að svo verði gert.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.5.2013 kl. 07:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)