Fimmtudagur, 3. janúar 2013
Skýr skilaboð frá kjósendum VG
Nýjasta skoðanakönnun Gallup sýnir að VG er aðeins með 9,1% fylgi, sem er ekki helmingur þess sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum.
Vissulega er þetta aðeins skoðanakönnun, skilaboð, en hún kemur okkur ekki á óvart, sem þekkjum vel til í grasrótinni. Umsókn að ESB, þvert á grunnstefnu flokksins og loforð fyrir síðustu alþingiskosningar kom almennum kjósendum hans í opna skjöldu. ESB umsóknin tekur auk þess í gíslingu flest önnur mál og umræðu þjóðfélagsins , sem er algjörlega óviðunandi.
Kjósendur VG hafa fengið gjörsamlega upp í kok af þrákelkni þeirra forystumanna VG sem hafa keyrt þessa ESB umsókn áfram , sumir undir þeim formerkjum að kíkja í pakkann. Sömu aðilar þykjast vera á móti aðild, en standa samt að margvíslegum breytingum á stjórnsýslu og innviðum að kröfu ESB og þiggja milljarða króna frá sambandinu til aðlögunar íslensks samfélags að ESB.
Í síðustu fjárlögum var keyrt um þverbak, en þar er gert ráð fyrir milljörðum króna til aðlögunar og aðildarvinnu að ESB á næstu árum auk enn frekari óbeinna fjárskuldbindinga, langt inn í næsta kjörtímabil. En VG er samt á móti aðild!
Þingmenn, forystufólk í félögum VG vítt og breytt um landið hafa séð sig knúna til að yfirgefa flokkinn, og stuðningsfólki sem treysti á VG hefur verið fórnað á altari ESB - einsmálsstefnu Samfylkingarinnar.Til þess að bjarga VG frá hruni og endurvekja traust á baráttu fyrir grunngildum flokksins verður formaðurinn og aðrir forystumenn sem gengið hafa í björg ESB að brjótast undan því valdi og losa sig úr þeim álögum þegar í stað.
Þarna er í raun ekkert val. Hér dugar enginn heimilskattaþvottur, svo gengið sé í smiðju forsætisráðherra Samfylkingarinnar.Forysta Vinstri Grænna , sem þarna á í hlut, verður einfaldlega að stíga fram og biðja þjóðina og kjósendur VG afsökunar fyrir að hafa gengið undir þessi álög ESB og Samfylkingarinnar.
Því næst ber að stöðva aðildarviðræðurnar við ESB nú þegar og koma þeim algjörlega útaf borðinu. Við eigum þess í stað að beina kröftum að öðrum mikilvægari verkefnum sem nóg er af og semja við ESB innan EES eða beint á tvíhliða forsendum eins og önnur ríki. Það er ekkert til sem heitir að kíkja í pakkann hjá ESB. Makríldeilan er gott dæmi um það og er fínt að hafa hana sem afsökun fyrir þá sem þurfa þess.
Viðræður um aðild að ESB eiga ekki að hefjast aftur nema að þjóðin hafi samþykkt að óska eftir aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu. Tillögur þessa efnis frá mér og fleirum liggja bæði fyrir utanríkismálanefnd og Alþingi og verða vonandi samþykktar hið bráðasta.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)