Fimmtudagur, 25. október 2012
Glæsilegur sigur kvennalandsliðsins í knattspyrnu
Kvennalandsliðið í knattspyrnu yljar svo sannarlega landanum þessa dagana með frábærri knattspyrnu.
Baráttan og leikgleðin geislaði af hverju andliti í leiknum gegn Úkraínu sem var að ljúka. Þær ætluðu svo sannarlega að vinna, stúlkurnar og gerðu það.
Ég minnist viðtals við Helga Símonarson, bónda og kennara frá Þverá í Svarfaðardal fyrir nokrum árum. Helgi fyllti vel hundrað árin og hvort það var í viðtali af því tilefni man ég ekki, en hann var spurður um, hvað honum finndist skemmtilegast að horfa á í sjónvarpi.
Og Helgi svaraði að bragði, fótbolti, og mótmælti harðlega aumingjaskapnum í ríkissjónvarpinu að sleppa sýningaréttinum á beinum útsendingum frá enska fótboltanum.
Er hann var spurður hvers vegna fótbolti, svaraði hann: "að horfa á fjörugan fótboltaleik er eins og að hlusta á góða musik, maður hrífst með taktinum og hrynjandinni í leiknum".
Þannig fór einnig hjá mér við að horfa á þennan frábæra leik beggja liða, Íslands og Úkraínu í kvöld á vellinum. En tónsprotinn var verðskuldað í höndum íslenska liðsins.
Til hamingju stúlkur með glæstan sigur.