Sáttin um Ríkisútvarpið ! - útvarp allra landsmanna

 Það er alveg hárrétt að sáttin um Ríkisútvarpið var rofin með hlutavélagavæðingu þess, Ríkisútvarpið ohf.    Í beinu framhaldi af því var svæðisútvörpunum lokað á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum. Þannig var skorin á bein tengsl Ríkisútvarpsins við landið allt og dagskráin varð sjálfhverfari og snerist upp í samkeppni við aðra miðla á þröngu sviði.

„Sátt um Ríkisútvarp í almannaeigu var ekki rofin með niðurskurðinum nú. Sáttin var rofin með ohf-væðingunni svokölluðu. Þá var tekin upp sú grímulausa stefna að um fyrirtæki í samkeppnisrekstri væri að ræða. Þess vegna borgar sig að segja upp dagskrárgerðarfólki á Rás 1 en hrófla ekki við markaðs- eða auglýsingadeildinni. Og þess vegna meta stjórnendur stofnunarinnar það svo að yfirboð á boltaleikjamótum úti í heimi séu fyllilega réttlætanleg.“ (Mikael Torfason, Fréttablaðið 7.des. 2013 )                      

Ofan í kaupið var svo hætt að kynna sig sem Ríkisútvarp, útvarp allra landsmanna, heldur notuð skammstöfunin Rúv, sem smám saman enginn veit fyrir hvað stendur.

Það átti að verða eitt fyrsta verk ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri Grænna að afnema  hlutafélagsformið á útvarpinu og breyta því aftur í Ríkisútvarp allra landsmanna. En til þess höfðu þeir sem réðu ferð  þar á bæ hvorki kjark, vilja eða þor. Ég lagði það ítrekað til og um það var flutt tillaga m.a. af Atla Gíslasyni og fleirum að hf. væri tekið af útvarpinu aftur, en forystumenn ríkisstjórnaflokkanna, Vg og Samfylkingar brast vilja til þess. Ríkisútvarpið á að færa til fyrra forms og það á að vera þjónustustofnun en ekki eins og hvert annað fyrirtæki á samkeppnismarkaði.

Að því leyti er ég sammála ritstjóra Fréttablaðsins:

„Íslendingar hafa ekkert með Ríkisútvarp Páls Magnússonar að gera. Við þurfum öflugt Ríkisútvarp sem rekur sjónvarps- og útvarpsstöð sem lætur ekki afvegaleiðast og blindast í keppni á auglýsingamarkaði. Gott Ríkisútvarp á að losa sig við markaðs- og auglýsingadeildir og sinna því sem einkareknar stöðvar geta ekki sinnt. Ríkisútvarp er ekki fyrirtæki heldur stofnun sem á ekki að vera í samkeppnisrekstri.“

Það þarf að endurvinna stöðu og traust og hlutverk Ríkisútvarpsins, sem þjónustustofnun allra landsmanna.


Mannlífsmyndir Vigfúsar á Laxamýri

Einkar hugljúf bók barst mér í hendur á dögunum, smásögur og mannlífsmyndir Vigfúsar Bjarna Jónssonar, fyrrverandi alþingismanns og bónda á Laxamýri í Aðaldal. Vigfús er nú á 85. aldursári en þetta er  fyrsta bók hans. Vonandi endist þessum góða  sagnamanni aldur og þrek til að miðla okkur af brunni sínum í fleiri bókum.

Vigfús er landsþekktur félagsmálamaður og höfðingsbóndi á bökkum Laxár í Aðaldal. Hann er mikill náttúruunnandi og  frásagnargáfan honum eins og ættinni allri  í blóð borin. Stíllinn er léttur og kímin, við það að vera ljóðrænn á köflum. Sögusviðið er nokkuð breitt en þó allt honum nákunnugt og mannlífsmyndirnar verða lesandanum því mjög lifandi.

 Bókin sem er 155 blaðsíðna kilja hefur að geyma 14 smásögur og sagnir : „Vitnisburður hringsins“ sem fannst á beinagrind af konu í klettaskúta lengst frammi á heiðum í nágrenni forns heiðarbýlis, fjarri núverandi byggðum kallar fram aldargamla,  tilfinninga þrungna gleði- og  sorgarsögu tveggja kynslóða, mæðgna þar sem dóttirin fórnaði að lokum  lífinu fyrir heiður sinn og fjölskyldunnar. Í kirkjubókinni stendur aðeins:  „Arna Árnadóttir heimilisföst í foreldrahúsum að Selási í Uppdalasókn, hvarf aðfaranótt hins 28. maí 1890 þá tæpra 19 ára“.

Lífið á fámennum heiðarbýlum fjarri alfarleiðum gat bæði verið hart og svikult.

Fallegar finnst mér ástarsögurnar „Meðlagið“ og „Endurfundir“ en þar nýtur stíll höfundarins sér best eins og ég þekki Vigfús, leiftrandi kímni en jafnframt tilfinningaríkan og rómantískan mann sem elskar mannlífið allt í sinni fjölbreyttu mynd. -  Lestur er sögu ríkari.

Bókasmiðjan á Selfossi gefur bókina út.  Hafi hún og höfundur þökk fyrir.


ESB endursendir aðildarumsókn Íslands

Með ákvörðun ESB um að afturkalla alla IPA- styrki til Íslands er sambandið í raun að hóta því að  senda umsóknina aftur til síns heima. Hættir við einhliða og án fyrirvara .

 Sú ákvörðun væri fullkomlega rökrétt af þeirra hálfu. ESB er löngu orðið það ljóst að umsóknin var send þeim á fölskum forsendum, hvorki lá fyrir meirihlutavilji þjóðarinnar fyrir aðild né eindreginn stuðningur allrar ríkisstjórnarinnar við umsóknina á sínum tíma né heldur nú. Umsóknin í raun send til baka

 Legið hefur í loftinu að ESB myndi  taka frumkvæðið og  slíta formlega umsóknar- og aðlögunarferli Íslands að sambandinu. Enda hefur stækkunarstjórinn, Stefan Fule ítrekað sagt að ekki sé  sótt um aðild nema til þess að komast inn.  Það er ekki í neinn pakka að kíkja,  aðeins að uppfylla skilyrði, lög og reglur ESB.  IPA-styrkjunum er eingöngu ætlað það hlutverk að styðja breytingar og undirbúa umsóknarríki  til inngöngu í ESB  í innlimunarferlinu:  Instrument for Pre-Accession Assistance (IPA) - Europa

"Bjölluatið" í Brussel gat aldrei gengið upp

Talsmenn ESB hafa aldrei farið dult með tilgang þessara IPA-styrkja þó svo ýmsir Sambandssinnar hér heima hafi haldið öðru fram. Nú hefur ESB sjálft tekið af öll tvímæli með það.

 Þeir sem heldu að bæði  væri hægt að dansa í kringum gullkálfinn og kíkja í pakkann án þess að brenna sig,  hafa  heldur betur  fengið á baukinn sem reyndar var vitað fyrir.

Talsmenn ESB hafa ávalt lýst því yfir að ekki sé hægt að semja sig frá grundvallar lögum og reglum sambandsins, einungis um tímabundinn aðlögunar tíma frá einstökum ákvæðum:

 Úr handbók stækkunarferils ESB:

. Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu – sem fylla 90 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið.“ [1] “First, it is important to underline that the term "negotiation" can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules ... are not negotiable.” (Sjá: http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/enl-understand_en.pdf

 Alþingi ber að sýna heiðarleika og  afturkalla umsóknina

Ekki verður séð hvaða tilgangi skýrslugerð um stöðu samningaviðræðna þjónar lengur. Ríkisstjórn og Alþingi hlýtur að bregðast við með sama hætti og afturkalla formlega umsóknina af sinni hálfu. Þjóðin var hvort eð er aldrei spurð hvort hún vildi ganga í ESB. En það hefði átt að gera áður en slíkt umsóknar- og aðlögunarferli færi í gang. Það er að mínu mati heiðarlegast og réttast að afturkalla umsóknina formlega eins og lofað var fyrir síðustu kosningar. Með hreint borð getum við lagt áherslu á góð samskipti Íslands og ESB á grunni tvíhliða samninga eins og við gerum við aðrar þjóðir.

 


Fullveldishátíð Heimssýnar 1. des

Samtök fullveldissinna bjóða til 1. des  hátíðar í nýjum höfuðstöðvum Heimssýnar að Hafnarstræti 20, Reykjavík kl.14. Vegleg dagskrá og veitingar. Fjölmennum, fögnum saman á fullveldisdaginn og opnum hið nýja húsnæði Heimssýnar.

Verið öll hjartanlega velkomin.

 

fullveldishatid

 


Síldveiðar frjálsar fyrir smábáta á Kolgrafafirði

Sjávarútvegsráðherra hefur gefið frjálsar veiðar á síld í Kolgrafafirði frá og með deginum í dag . Dregst sú veiði ekki frá úthlutuðum aflaheimildum sem bátarnir hafa þegar fengið. Bátarnir komast aðeins undir brúna á fjöru, siglingar undir brúna getur verið hættuleg í straumköstum og  sýna verður mikla aðgæslu að lokast ekki inni í firðinum. En skjótt skipast veður í lofti á þessum stöðum og Kolgrafafjörður er einn sviptivindamesti staður á landinu eins og kunnugt er.

Best væri að koma upp löndunaraðstöðu fyrir bátana inni í firðinum sjálfum með flotbryggju og jafnframt vera tilbúinn með aðgerðir til að taka bátana upp eða verja þá ef veður loka þá inni.

 Baráttan fyrir síldveiði smábáta vorið 2011

Alflaheimildir á síld höfðu safnast á örfá stór skip. Minni bátar og útgerðir áttu enga möguleika þar að.

Það var vorið 2011, "stóra" fiskveiði frumvarpið stóð fast í ríkisstjórn og var búið að vera það síðan í byrjun mars það ár.  Stöðug og bein afskipti formanna ríkisstjórnarflokkanna og skoðanaágreiningur innan þeirra kom i veg fyrir að frumvarpið færi í  þingið til meðferðar. Mér var þá ljóst að breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu samkvæmt því frumvarpi  myndu ekki koma til framkvæmda fyrir næsta fiskveiðiár sem átti hefjast 1. sept. 2011.

  "Minna" frumvarpið náði fram  - "hótað" stjórnarslitum

Því var ég með annað frumvarp tilbúið snemma um veturinn, svokallað minna frumvarp, sem tók á tilteknum brýnum  atriðum í fiskveiðistjórnun þar á meðal lagaheimild til að ráðstafa  tilteknum hluta síldarkvótans til veiða  smábáta á heimaslóð eins og Breiðafirði . - Það var óþolandi að sjá hin gríðarstóru vinnsluskip skrapa landsteinana og moka upp síldinni og flytja alla í aðra landshluta, en heimafólk réttlaust til að nýta sér þessa auðlind í fjöruborðinu.-.

Eigendur lítilla báta höfðu t.d. verið sektaðir fyrir að ná sér í nokkur hundruð kíló af síld til beitu.

Og úrtöluraddirnar voru nægar:-   Það fara engir að kaupa sér net eða græjur til slíkra smáveiða-.

Ég hélt fast við mitt og sagði að það kæmi bara í ljós. Í frumvarpinu sem ég kynnti fyrst var gert ráð fyrir allt að 5 þús. tonnum af sumargotssíld  til úthlutunar framhjá „hefðbundnum kvótaeigendum“  og var mér þá hugsað til minni báta á Snæfellsnesi sem lönduðu í heimahöfnum. Í "stóra frumvarpinu, sem ekki náði fram, var gert ráð fyrir að stærri hluti heildaraflaheimilda mætti ráðstafa með þessum hætti. 

Helst vildi ég gefa smábátaveiðar á síld til löndunar í heimahöfnum alveg frjálsar. Allavega að væri á annaðborð gefnar út heimildir til síldveiða myndi takmörkun á magni til smábáta ekki hamla veiðum þeirra.

 

Og tröppur í alþingishúsinu svignuðu undan þungstígum „kvótaeigendum“

Skemmst er að minnast að þessar tillögur mínar ullu miklu írafári utan þings og innan. Fimmþúsund tonn af síld til smábáta „ógnuðu“ tilveru rétti og kerfi stórútgerðarinnar sem taldi sig eiga alla ófædda síld í sjónum

Og tröppur alþingishússins svignuðu undan þungstígum sendinefndum stórútgerðarmanna  einkum að austan og sunnan. Þingmenn Norðausturkjördæmis sérstaklega gengu  sumir mjög hart fram gegn þessum litla síldarkvóta til smábáta og ég man að nefnd voru stjórnarslit í hita leiksins á göngum hússins  m.a. vegna þessara þúsund tonna af síld til smábáta

 Og alvarlegust var andstaðan innan ríksstjórnarflokkanna sjálfra: Varð ég að lækka magnið til ráðstöfunur niður í 2000 tonn af sumargotssíld að mig minnir  og 2000 tonn af norsk-íslenskri síkd til að fá það samþykkt í þinginu .

Þetta reyndust síðan síðustu stóru breytingarnar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sjálfu í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar.  

Forsaga þessa máls skýrir að nokkru hversu eftirmenn mínir á ráðherrastóli  hafa síðan reynst tregir í  úthlutun  á síld til  smábáta og haldið þeim í spennitreyju frá viku til viku með smáskömmtum upp á nokkur tonn í einu, en einungis 700 tonnum af þeim 2.000 sem  heimilt er, hefur verið úthlutað. 

 Vel að merkja þessar  litlu útgerðir verða að borga 13 kr. á kílóið af síld til ríkisins  fyrirfram sem stóru kvótaútgerðirnar  þurfa ekki að gera.  Síldarkvótinn aukinn um 200 tonn   Skorað á sjávarútvegsráðherra

Staðreyndin er sú að síldveiðar þessara litlu báta hafa gefið tugum sjómanna og fiskvinnslufólks dýrmæta atvinnu þá mánuði sem þær standa. Og verðmæti hvers kílós af síld unnum á heimaslóð er mun meira en hjá stærri skipunum. Veiðarnar hafa þróast hægt og bítandi og án stórfjárfestinga. Þeim verður að gefa það tækifæri áfram

Að sjálfsögðu á að gefa  síldveiðar smábáta að fullu frjálsar.

Ákvörðun sjávarútvegsráðherra nú  um frjálsar veiðar á Kolgrafafirði  er viss prinsippviðurkenning á rétti smábáta sem á að fylgja eftir.  Öllum má vera ljóst að veiðar upp á nokkur tonn skipta litlu máli fyrir heildina og ástand lífríkisins þar ef tugir þúsunda tonna ganga inn í fjörðinn.  Veiðar þessara smábáta á alveg að gefa frjálsar ekki aðeins inni á Kolgrafafirði.

Væntanlega verður að fjarlægja stíflugarðinn sem fyrst í mynni fjarðarins og byggja brú yfir fjörðinn sem hleypir óheftu rennsli og streymi inn og út um Kolgrafarfjörðinn.

En nú er að láta hendur standa fram úr ermum og veiða, en það eitt sér mun ekki bjarga síldinni frá hörmungardauða í firðinum og þeim afleiðingum sem það getur haft.

 

 

 

 

 

 


Makríllinn og píslargangan

Ákafi Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra í að láta undan hótunum  ESB í makríldeilunni hlýtur að valda vonbrigðum og vekja ugg meðal ESB andstæðinga. Píslarganga hans í síðustu viku til Brussel minnir orðið á hliðstæðar ferðir  Steingríms J. Sigfússonar þáverandi sjávarútvegsráðherra sumarið 2012. En þá var lagt mikið kapp á að gefa eftir til að ná „samningum“ við ESB  um makríl.  En það var ein forsenda þess að hægt væri að ljúka aðlögunarsamningum við ESB.

Að kyssa  á vöndinn

Ég minnist umræðunnar frá því fyrir rúmu ári,  þegar þáverandi stjórnvöld voru að bogna fyrir hótunum ESB í makrílnum. Þá höfðu  framsóknarmenn á þingi stór orð um svik og undirlægjuhátt ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms gangvart ESB.

- Ég sem ráðherra taldi hinsvegar  lágmarks hlutdeild okkar vera milli 16 og 17% af heildarveiði úr makrílstofninum. Tók ég þar mið af magni og útbreiðslu makríls í íslenskri lögsögu -. 

 Að „þiggja“ nú  frá ESB um 11,9% hlutdeild í makríl  eins og talað er um, er um 30% lækkun frá því sem nú er.

„ Hefur bilið milli ESB og Íslands verið brúað“ spyr blaðamaðurinn.

  „Já við getum sagt að ekki sé lengur gjá milli ESB og Íslands“ segir ráðherrann í viðtali við Mbl. sl. laugardag. Ísland og ESB að ná saman

ESB hefur þó  ekki dregið til baka  samþykktir Evrópuþingsins  og hótanir um víðtækar viðskipta- og refsiaðgerðir gegn Íslendingum.  Þeim vendi er áfram veifað.

Það býður enginn öðrum, heldur á að semja

Staðreyndin er  sú að öll strandríkin sem hlut eiga að máli eru jafn rétthá og bera sömu skyldur.  Öllum ber  að ná samningum,  en það gerist ekki á þann hátt að einn taki sér valdið og bjóði öðrum.

Samt talar ráðherrann í auðmýkt um gott tilboð ESB:

Ég met það svo að annarsvegar  þurfi Evrópusambandið að ná samkomulagi við Noreg  og hinsvegar þurfi Evrópusambandið og Noregur að ná samkomulagi við Færeyjar.“

Það er alveg ótrúlegur undirlægjuháttur í þessum orðum. Þarna er gengist undir það, að ESB deili og drottni eins og lögregluvald og aðrir beygja sig undir það.

Með sama hætti gætu Íslendingar  sagt,  við bjóðum ESB   20%.

Stöndum þétt með Færeyingum og rétti strandríkja til veiða í eigin lögsögu

  Evrópusambandið hefur nú þegar sett viðskipta- og löndunarbann á Færeyinga, eitt minnsta ríki Evrópu sem á allt sitt undir fiskveiðum.  Lögregluríkið ESB vill deila og drottna  yfir fiskveiðum á Norðurhöfum og sjávarútvegsráðherra Íslands virðist ætla að taka við því sem að honum er rétt.

Í stað þess að bugta sig fyrir drottnunarvaldi ESB í sjávarútvegsmálum í Norðurhöfum ættum við að standa þétt með Færeyingum og sjálfstæðum rétti okkar sem strandríkis  og hafna samningum undir ólögmætum  hótunum og refsiaðgerðum .

(Úr grein í mbl. 21.11. 2013 ,Makríllinn og píslargangan)

 


Fyrrverandi formaður Heimssýnar aðstoðar forsætisráðherra

Baráttan gegn umsókn að ESB og síðan afturköllun hennar var eitt af stærstu málum á þingi síðasta kjörtímabil  og í kosningunum sl. vor. 

Ásmundur Einar Daðason var formaður Heimssýnar nánast allt síðasta kjörtímabil og barðist af einurð gegn umsókninni að ESB.  Hann yfirgaf Vg meðal annars vegna stefnubreytingar flokksforystunnar og  aðlögunarferilsins sem sett var af stað.  Fyrir síðustu kosningar lagði Framsóknarflokkurinn áherslu á að umsóknin að ESB yrði afturkölluð hið fyrsta.

ESB- umsóknin er myllusteinn um háls ríkisstjórnarinnar

Flestir bjuggust við því í samræmi við úrslit kosninganna að afturköllun umsóknarinnar yrði afgreidd á sumarþinginu, en urðu fyrir vonbrigðum. Ásmundur gerir sér vel grein fyrir að því að standa verður við kosningaloforðin í þessum efnum sem öðrum og betur má ef duga skal.  Mörgum hefur fundist ríkisstjórnin draga lappirnar um of í þessu máli. Lofað hefur verið skýrslu Hagfræðistofnunar um stöðu ESB umsóknarinnar fyrir 15. janúar á næsta ári. Henni á þá að fylgja tillaga til þingsályktunar um afturköllun ESB-umsóknarinnar. Afstaða Ásmundar til ESB umsóknarinnar hefur verið afdráttarlaus.  Ráðning hans sem aðstoðarmanns forsætisráðherra ætti að tryggja að staðið verði við kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna um afturköllun umsóknarinnar að ESB strax í upphafi næsta árs.

 

 

 


Smábátar bíða eftir auknum síldarkvóta

Síldveiðar smábáta á Breiðafirði  hafa gengið vel að undanförnu. Aflinn er kominn hátt í 400 tonn hjá þeim 26 bátum sem eru byrjaðir veiðar. Síldin fer til vinnslu hjá heimafyritækjum og veiðin veitir   tugum sjómanna og fiskvinnslufólks vinnu á svæðinu. Búnir að veiða 310 tonn

 Hágæðavara fæst við veiðar og vinnslu síldarinnar á þennan hátt. En framleiðslan er gæðamerkt sérstaklega smábátaveiðum

Úthlutað hefur verið 498  tonnum  til smábátanna en heimildin til úthlutunar þeirra er samtals 2000 tonn.

Flestir þeir sem hafa hafið veiðar eru nú stopp vegna þess að þeir hafa veitt það sem þeim var úthlutað. Veiði smábátanna eru því að stöðvast og þar með vinnslan.

Sjávarútvegsráðherra hefur tekið jákvætt í aukinn síldarkvóta til smábátanna en hefur sagst þurfa að hugsa sig um.  Finnst sjómönnum sá umhugsunartími vera orðinn nógu og langur því atvinna og tekjur tuga fólks í húfi. Snæfell fundar með ráðherra

 Heimamönnum við Breiðafjörð blæðir að horfa á stóru verksmiðjuskipin skarkast í fjöruborðinu innst inn á vogum og víkum og moka upp síldinni nánast inn í kálgörðum, en heimamönnum smábátum  skammtað lús úr hnefa.

Tek ég undir óskir og kröfur heimamanna um tafarlausa aukningu síldarkvóta til smábátanna.


Góður pistill Ólafs Arnarsonar

"Hættulegustu óvinir sérhverrar þjóðar eru æfinlega innlendir umboðsmenn sem geingið hafa hinu erlenda kúgunarvaldi á hönd og reka erindi þess innanlands. Þessir menn eiga sitt lángfeðgatal í sögu þjóðarinnar eingu síður en frelsishetjurnar. Nafn Gissurar Þorvaldssonar er þeirra nafn, ætt þeirra hans ætt." ( Halldót Laxness af svölum Alþingishússins 1. des 1935) ávarpaði þjóðina

Ólafi Arnarsyni er þessi tilvitnun hugleikin í pistli sínum um vinnubrögð og hótanir slitastjórnana, fulltrúa kröfuhafa í þrotabú gömlu bankanna. Honum verður tíðrætt um undirlægjuhátt íslenskra stjórnvalda á síðustu árum. Mér verður hugsað til ESB umsóknarinnar og  þeirra sem þar hafa beitt sér, og linkindarinnar gangvart erlendu kröfuhöfum bankanna. Allt er þetta af sama meiði. Erindrekar erlends kúgunarvalds

Og Ólafur hvetur stjórnvöld til dáða:

"Ekki er eftir neinu að bíða en það kallar vissulega á staðfestu að berja í borðið og segja við heimtufreka útlendinga og áfjáða, íslenska samverkamenn þeirra: Hingað og ekki lengra! Síðasta ríkisstjórn bjó ekki yfir slíkri staðfestu heldur bugtaði sig og beygði hvenær sem erlendir bankamenn og lögfræðingar í vönduðum jakkafötum lyftu brúnum. Það mun ráða miklu um afdrif núverandi ríkisstjórnar hvernig hún stendur í ístaðinu",

segir Ólafur og tek ég undir hvert orð hans.

Gjaldþrotaskipti lagalega skýr og gagnsæ

"Við gjaldþrot verða allar kröfur í gömlu bankana að kröfum í íslenskum krónum og mikilvægt er að setja ákvæði í gjaldþrotalög um að skiptastjórum sé óheimilt að aðhafast nokkuð það við skipti búa og útgreiðslur úr þeim til kröfuhafa, sem valdið getur óstöðugleika á gengi íslensku krónunnar" segir Ólafur, sem er alveg hárrétt:

"Það er tími til kominn að stöðva slitastjórnirnar og setja þrotabú gömlu bankanna í formlegt gjaldþrotaferli undir stjórn skiptastjóra að íslenskum lögum"

- Haustið 2008, við hrunið, lögðum við Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir þáverandi þingmenn Vg til að föllnu bankarnir færu beint í gjaldþrotameðferð eins og lá beinast við. Uppgjör við gjaldþrot lýtur skýrum lögum og þekktum reglum. Þar eru uppskiptin gagnsæ en lúta ekki duttlungum, handvali og spilamennsku eins og raunin hefur orðið. Því miður urðu önnur sjónarmið ofan á og undirlægjuhátturinn gangvart kröfuhöfunum, hluti af ESB umsókninni réð ferð. Síðan var það kórónað með því að afhenda kröfuhöfunum nýju bankana á silfurfati.

Ég er áfram þeirrar skoðunar að setja eigi gömlu bankana í gjaldþrotameðferð þótt seint sé. Aðrar leiðir verða ógangsæjar, ekki trúverðugar og "snjóhengjan" fellur að óbreyttu yfir þjóðina.

Pistill Ólafs fylgir hér með:

Erindrekar erlends kúgunarvalds


Gefum ekki eftir okkar hlut í makrílveiðunum

Miklu skiptir að  halda vel á okkar hlut í heildarveiði á makríl. Nú þegar veiðiheimildir í makríl hafa verið auknar er eðlilegt að hlutdeild Íslands í veiðinni hækki og fylgi þeim breytingum.

Falsaðar veiðitölur ESB - margfalda má með 1,7-3,6

Nýjustu rannsóknir sýna að veiðitölur ESB ríkjanna eru stórlega falsaðar og má margfalda skráðan afla þeirra með 1,7- 3,6. Himinn og haf milli gagna og stofnmats

 Er það væntanlega skýring á að ESB hefur hvorki viljað leyfa fullt eftirlit með löndunum í höfnum sambandsins né taka þáttt í sameiginlegum rannsóknum um útbreiðslu og magn stofnsins.

 Hér eru gríðarmiklir hagsmunir í húfi og skiptir máli að íslensk stjórnvöld standi vel í lappirnar og verji stöðu og rétt Íslendinga í makrílveiðunum.

Mikið og vaxandi magn makríls í íslenskri lögsögu.

Aldrei hefur mælst meira magn af makríl í íslenskri lögsögu en í ár eða liðlega 1.5 milljón tonna. Er það fjórða árið í röð sem makríllinn mælist yfir milljón tonn í lögsögunni. Heildarvístala makríls á því svæði sem rannsakað var í sumar reyndist um 8.8 milljónir tonna, þar af um 17% innan íslensku lögsögunnar. Er það álíka magn og mældist inna færeysku lögsögunnar. Þótt svæðið sem var rannsakað í sumar sé stærra en undanfarin ár er fjarri því að mælingarnar hafi náð yfir allt útbreiðslusvæði makríls . Niðurstöður rannsóknanna sýna að makrílstofninn er í örum vexti og útbreiðslusvæði hans stækkar og göngurnar færast vestar.

Makríllinn fer eins og „ryksuga“ í nýjum beitilöndum

Makríllinn er ekki í neinni kurteisisheimsókn við Íslandstrendur, heldur er hann að leggja undir sig nýjar beitilendur: „Stofn eins og makríll, sem fer vítt og breitt og étur mikið getur unnið svæðisbundinn skaða ef hann fer yfir viðkvæmt svæði á viðkvæmum tímum. Makríllinn er mjög þurftafrekur, hefur hröð efnaskipti og fitnar hratt á skömmum tíma í fæðugöngunni“,segir forstjóri Hafrannsóknastofnunar í viðtali við mbl. 30. ágúst sl. Talið er að makríllinn auki þyngd sína um meira en 40% meðan hann er hér við land. Það er gríðarleg þyngdaraukning. Menn geta sér til um að hann þurfi að éta 2-3 milljónir tonna af sjávarfangi. „ það er augljóst að þegar kominn er nýr gestur sem tekur til sín 2-3 milljónir tonna af lífmassa þá minnkar framleiðslugeta annarra fiskstofna ef fæðunám skarast.“ Það getur leitt til staðbundinna áhrif á vöxt t.d. seiða þorsks og loðnu.

Ég sá þá það í Hólmavíkurhöfn í fyrrasumar að makríllinn hafði smalað sandsíli og seiðum inn í höfnina, króað þau af og síðna hirt upp eins og gríðarstór ryksuga. Allt þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar rætt er um makrílveiðar og hlut Íslendinga í þeim.

Ekki má bogna undan hótunum

Ráðgjöf fyrir heildarveiði í makríl á næsta ári hefur verið aukin um 65% frá síðasta ári eða úr 542 þús. tonnum í 895 þús. tonn. Í raun er sú tala meðaltals heildarveiði í makríl síðustu þriggja ára. Þar með er viðurkennd sú staðreynd sem við Íslendingar höfum haldið fram að makrílstofninn sé og hafi verið í mjög örum vexti í mörg ár og allt tal um ofveiði og ósjálfbærar veiðar verið rökleysan ein. 

 Þetta þýðir jafnframt að hótanir ESB um viðskiftaþvinganir og refsiaðgerðir vegna offveiði á makríl styðjast ekki við neinar raunverulegar forsendur aðrar en yfirgang og drottnunargirni framkvæmdastjórnar ESB. Ég kynntist því sem ráðherra að ESB hefur í raun haft lítinn áhuga á að rannsaka magn eða útbreiðslu makríls heldur að fá að deila og drottna í makrílveiðum á Norður- Atlantshafi.

Að deila og drottna

Samkvæmt fréttum virðast ísl. stjórnvöld reiðubúin að þiggja úr hnefa ESB aðeins 11,9% af hlutdeild í heildarveiði í makríl. En það er einum 4-5% lægri hlutdeild en við nú þegar höfum. Jafngildir þetta því að verið sé að gefa frá sér um 50- 60 þús. tonn af makríl til ESB og Noregs.

Mín skoðun er reyndar sú að ekki eigi að ganga til slíkra nauðasamninga og nú er talað um í makríl. Og alls ekki má bogna fyrir ríkjasambandi sem í krafti stærðar og óskammfeilni heldur uppi hótunum um beitingu valds eins og ESB hefur gert gangvart Íslendingum og Færeyingum. Færeyingar hafa þó enn haldið haus í deilunum við ESB um fiskveiðimálin, enda mikið í húfi, yfir 95% af útflutningstekjum þeirra.

Ég sem ráðherra taldi hæfilega hlutdeild okkar vera milli 16 og 17% af heildarveiði úr makrílstofninum. Tók ég þar mið af þáverandi magni og útbreiðslu makríls í íslenskri lögsögu. Lætur nærri að makrílveiði Íslendinga hafi gefið samtals um 100 milljarða króna í útflutningstekjur sl. 4-5 ár. Munar um minna.

Halda fast í okkar hlut

„Ísland hefur á undanförnum árum áskilið sér rétt til að lágmarki 16 -17% af heildarveiði makríls en það er byggt á rétti strandþjóðar, magni makríls í íslenskri lögsögu og gríðarlegu fæðunámi hans hér við land.

 Yfirstandandi samningaviðræður eru í skugga hótana Evrópusambandsins og hafa beina tengingu við aðildarviðræður Íslands sem ekki hefur verið slitið. Heimssýn telur að samningagerð og eftirgjöf undir hótunum Evrópusambandsins um viðskiptabann sé Íslandi sem fullvalda þjóð ekki samboðin“.(Ályktun Heimsýnar 23.okt. sl)

Hér er mikið alvörumál og skiptir miklu að standa vörð um rétt og hagsmuni Íslands í makrílveiðunum.

(Birtist sem grein í mbl. 25.okt.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband