Fimmtudagur, 25. desember 2014
Gleðileg jól
Gleðileg jól. Gleðileg jól hljómar um götur og torg til sjávar og sveita hvar sem fólk hittist.
Hátíð ljósanna er gengin í garð. Við lútum í gleði litlu, nýfæddu barni og sem lagt var í jötu en það var eigi pláss fyrir móðurina með barnið í gistihúsinu. Börnin eru ljósberar mannkynsins, gjöf til framtíðarinnar hvar sem þau fæðast.
Skær og einlæg barnsaugu sem horfa í lifandi jólaljósin eru glitrandi gimsteinar.
En því miður fá ekki öll börn sitt pláss í gisthúsinu.
Á það minnir fæðing frelsarans okkur á.
Kristni og þjóðkirkja
Nokkur umræða hefur verið um stöðu kristni og kirkjustarfs á Íslandi. Hollt er að hafa stöðugt í huga hvar ræturnar liggja og stoðirnar standa hjá íslensku samfélagi.
Um árið 1000 lá við borgarstyrjöld á Íslandi vegna deilna um trú-, kirkju- og þjóðfélagsskipan. Lá við að þingheimur berðist á Þingvöllum.
En sem betur fór voru þá einnig til staðar menn sem voru vandanum vaxnir.
Landsmenn höfðu skipað sér í tvær fylkingar sem skipuðu hvor um sig sáttamenn.
Kristnir menn tilnefndu Síðu-Hall ( Hall Þorsteinsson á Þvottá) en heiðnir menn kölluðu til Þorgeir Ljósvetningagoða Þorkelsson. Hallur samdi síðan við Þorgeir um að hann Þorgeir skyldi einn segja upp lög sem allir gætu fellt sig við:
En nú þykir mér það ráð , að vér látum og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorirtveggja hafi nokkuð til síns máls og höfum allir ein lög og einn sið.
Það mun vera satt, er við slítum í sundur lögin að vér munum slíta og friðinn.
Kvað Þorgeir það lög að menn skyldu taka kristni.
Í stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands er kveðið skýrt á um þjóðkirkjuna og skyldur hins opinbera gagnvart henni:
Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Ég óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.12.2014 kl. 09:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 3. desember 2014
Séra Baldur í Vatnsfirði kvaddur
Séra Baldur Vilhelmsson fyrrverandi prestur og prófastur í Vatnsfirði er allur. Útför hans var gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag. Útfararræða Biskups Íslands, Agnesar Sigurðardóttur, geislaði af hlýju og virðingu fyrir þessum einstæða höfðingja sem þjónaði allan sinn starfsferil sem sóknarprestur í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp allt frá árinu 1956. Séra Baldur var einlægur baráttumaður fyrir jafnrétti og kærleika hér í jarðríki. Himnafaðirinn myndi sjá um þá þætti þegar yfir um væri komið.
Ég hafði kynnst séra Baldri í skólastjóratíð minni á Hólum í Hjaltadal er hann kom þar á prestastefnur. En einnig er mér minnistæð heimsókn þeirra félaga, Baldurs, Einars Laxness og séra Sigurjóns Einarssonar en þeir tóku saman góðar ferðarispur um landið og voru aufúsugestir. Síðar var það fastur liður að koma við í Vatnsfirði er ekið var um Vestfirði.
Séra Baldur var fæddur á Hofsósi og unni þeim stað nokkuð til jafns við Vatnsfjörð. Séra Baldur var þjóðsagnarpersóna í lifanda lífi og fjöldi sagna og tilsvara eru eignaðar honum. Sameiginlegt þeim öllum er frumleiki og leiftrandi fyndni en jafnframt þrungnar kærleik til þess samfélags sem hann unni, vann með og þjónaði.
"Veistu hver er stærsta bylting Íslandssögunnar?" spurði hann mig eitt sinn. Ég hváði. "Jú" sagði hann, "ekkert hafði eins mikla þýðingu fyrir landsmenn eins og gúmmískórnir". Séra Baldri voru þá hugstæðar egghvassar og grýttar heiðarnar milli bæja, héraða og landshluta en þær voru gjarnan mældar í fjölda skópara, hvort sem voru það skinnskór, roðskór eða hveljuskór.
Pólitíkin var séra Baldri ávallt mjög hugleikin en hann var afar róttækur í hugsun og mjög ákveðinn í orðum.
Ég minnist með þakklæti hvatningarsímtala hans til þingmannsins síns og ógleymanlegrar leiðsagnar um Vatnsfjörð og nágrenni.
Séra Baldur gerði sér ekki alltaf lífsins stundir auðveldar frekar en margir aðrir andans jöfrar.
En hann var sannur vinur vina sinna og hreinskiptinn í allri orðræðu.
"Enginn kemur í hans stað en lögmálinu lútum við öll," segir Kjartan Ólafsson fyrirverandi alþingismaður og félagi Baldurs til margra ára.
Blessuð sé minning um ógleymanlegan mann, höfðingjann séra Baldur Vilhelmsson prófast í Vatnsfirði við Djúp.
Minningargrein um sr. Baldur Vilhelmsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 1. desember 2014
Hátíðardagskrá Heimssýnar 1. des
Heimssýn óskar landsmönnum heilla á fullveldisdaginn 1. desember.
Dr. Atli Harðarson heimspekingur, fyrrverandi skólameistari Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi og nú lektor við Háskóla Íslands flytur hátíðarræðu.
Dagskráin verður fjölbreytt með tónlist, söng, ávörpum og veitingum.
Hittumst í salnum Snæfelli á Hótel
Sögu í kvöld klukkan 20.00
Sunnudagur, 30. nóvember 2014
Fullveldishátíð Heimssýnar 1. des
Heimssýn fagnar fullveldisdeginum 1.des næstkomandi mánudagskvöld í Snæfelli á Hótel Sögu klukkan 20.00 með fjölbreyttri dagskrá:
Hátíðarræða: Dr. Atli Harðarson fyrrverandi skólameistari, lektor við Háskóla Íslands.
Ávörp: Jón Bjarnason fyrrverandi ráðherra, formaður Heimssýnar.
Jóhanna María Sigmundsdóttir alþingismaður, varaformaður Heimssýnar.
Halldóra Hjaltadóttir formaður Ísafoldar, félags ungs fólks gegn ESB aðild
Tónlist: Hópur söngvara og hljóðfæraleikara flytur söngva úr Söngvasafni Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings.
Hljómsveitin Reggie Óðins flytur nokkur lög.
Þorvaldur Þorvaldsson syngur við undirleik Judy Þorbergsson
Fjöldasöngur
Kaffiveitingar
Allir eru hjartanlega velkomnir
1.desember 1918 öðlaðist Ísland fullveldi á ný eftir áratuga og alda baráttu.
Stöndum vörð um fullveldið og heiðrum 1.des
Fimmtudagur, 30. október 2014
Þjóðarsáttar er þörf um heilbrigðismálin
Það er engin framtíðarlausn að skera niður heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, loka skurðsstofum og þjónustuverkum og flytja öll læknisverk á Landspítalann eða til Akureyrar. Heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni látið blæða út
Sú hefur þó verið stefna stjórnvalda undanfarin ár og er nú að bíða skipbrot. Það sem við uppskerum er skert og óöruggari þjónusta á hjá íbúum landsbyggðarinnar, þeim gert að fara til Reykjavíkur með ærnum kostnaði.
Eins hefur það sýnt sig að Landspítalinn hefur enga getu til að taka á móti stórauknum fjölda sjúklinga sem áður var sinnt á öðrum sjúkrahúsum. Hann má ekki hafa það sem stefnu að soga til sín öll læknisverk í landinu.
Landspítalinn á að helga sig sérhæfðum aðgerðum og þjónustu. Þess vegna þarf að halda í virkri notkun bæði almennri og sérhæfðri aðstöðu og búnaði sem er til staðar víða um land.
Kjör heilbrigðisstarfsfólks verða hinsvegar að bæta og þau verða með þeim hætti að hægt sé bæði að manna vel heilbrigðisþjónustuna og þróa hana tæknilega.
Heilbrigðisráðherra á villigötum
Forkastanleg er framganga heilbrigðisráðherra sem beitir sér fyrir að leggja niður heilbrigðisstofnanir í heilum landshlutum og sameina hreyturnar í eina fyrir heila landshluta. Þannig verður nú ein fyrir allt Vesturland, ein fyrir alla Vestfirði, ein fyrir allt Norðurland, ein fyrir Austurland og ein fyrir allt Suðurland .Vestfirðingar mótmæla lokun og sameiningu heilbrigðisstofnana .
Eitt stærsta ágreiningsefni síðustu ríkisstjórnar
Tekist var hart á um heilbrigðismálin, niðurskurð, lokanir og sameiningu heilbrigðisstofnana í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Fór svo að hluti þingflokks Vg neitaði að styðja fjárlagafrumvarpið með þeim mikla niðurskurði til heilbrigðismála sem þá var boðaður og formenn stjórnarflokkanna vildu. Áform um lokanir fjölda heilbrigðisstofnana voru stöðvaðar í ríkisstjórn og af hluta þingmanna VG sbr. atkv. greiðslur frá þeim tíma.
Það er því hálf hrokafullt að heyra fyrrverandi formann og varaformann Fjárlaganefndar í ríkisstjórn Jóhönnu berja sér á brjóst í hinni alvarlegu stöðu sem heilbrigðismálin eru í nú. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/01/03/kirkjan_ekki_faer_adur_vegna_innanmeins/
Þau skötuhjú, formaður og varaform fjárlaganefndar veittust m.a. á sínum tíma með fúkyrðum að þjóðkirkjunni og biskupi sem þá hvatti til þjóðarstuðnings við Landspítalann. Sbr ummmæli þeirra frá þeim tíma.http://www.ruv.is/frett/undrast-sofnun-kirkju-sem-bad-um-meira-fe http://www.bvg.is/bvg/2013/01/03/politiskar-akvardanir-umfram-annad
Það virðist því miður hafa skipt litlu máli hver fer með stjórnvölinn í ríkisstjórn síðust árin.
Staðreyndin er sú að síðan 2003 hefur heilbrigðiskerfið smátt og smátt verið holað að innan og virðist litlu hafa skipt, hver ríkisstjórnin er. Þá var lögum um heilbrigðisþjónustu breytt, brautin rudd fyrir einkavæðingu, niðuskurð, lokanir og órökstuddar sameiningu stofnana.
Hugtakinu heilbrigðisþjónustu var breytt í heilbrigðisrekstur. Hver man ekki eftir tillögunni um Landspítalann hf.?
Hvar eru nú þingmenn Framsóknar?
Margir spyrja nú t.d. hvar þingmennirnir séu sem börðu sér á brjóst fyrir kosningar um að standa vörð um Landsspítalann og heilbrigðisstofnanirnar á landsbyggðinni, ekki hvað síst á Vestfjörðum og Norðurlandi .
Gott er fyrir sveitarstjórnarmenn og aðra íbúa þeirra landsvæða sem nú mega sjá fram á lokun heilbrigðisstofnana og stjórnun þjónustunnar færða frá fólkinu að ryfja upp þingsályktun framsóknarmanna frá því skömmu fyrir síðust kosninga:
í skipulagningu og stjórnun heilbrigðisþjónustu í heimabyggð.
Birkir Jón Jónsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.
Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að undirbúa og leggja fyrir næsta þing frumvarp til laga sem tryggi beina þátttöku fulltrúa sveitarfélaga og starfsmanna heilbrigðisstofnana í skipulagningu og stjórnun heilbrigðisþjónustu á þjónustusvæði viðkomandi heilbrigðisstofnunar. Markmiðið með frumvarpinu verði að auka íbúa- og atvinnulýðræði og að sjónarmið og óskir heimamanna og starfsmanna heilbrigðisstofnana ráði meiru en nú er þegar heilbrigðisþjónusta er skipulögð og þjónustu forgangsraðað."
Þjóðarsáttar er þörf
Fyrir starfsemi Landspítalans er mikilvæg ölfug heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni og í nærsamfélagi fólksins. Jafnframt er okkur öllum miklvægt að hafa tæknivæddan Landspítala og gott sér menntað fagfólk, staðsettan við innanlandsflugvöllinn
Það er þörf á þjóðarsátt um endurskoðað skipulag, forgaangsröðun og fjármagn til heilbrigðisþjónustu landsmanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 27. október 2014
Hvar er bankinn minn ?
Ákvörðun Arionbanka að loka fyrir alla starfsemi sína á Vestfjörðum hlýtur að vekja spurningar. Stóru bankarnir virðast komast upp með að loka á heilu landshlutana.
Lokun útibúa og þjónustustofnana í litlum samfélögum er andsamfélagsleg aðgerð og ekkert einkamál stofnunar eða fyrirtækis sem starfar með ríkisábyrgð á landsvísu.
Gildir einu hvort það er bankaútibú eða þjónusta sýslumannsembætta.
Í starfsleyfum bankanna er kveðið á um þjónustukvaðir og samfélagsskyldur sem bæði neytendasamtök eða eftirlitsstofnanir mættu fylgja eftir. Færri og sterkari útibú !
Að sjálfsögðu þarf banki að gæta fyllstu hagkvæmni í rekstri og vafalaust eru stóru bankarnir hér allt of stórir miðað við íslenskar aðstæður.
Hinsvegar eru það engin rök fyrir lokun þjónustuútibús, að hluti viðskiptavina Arionbanka á Hólmavík eigi lögheimili utan sveitarfélagsins og það réttlæti lokun útibúsins eins og bankastjórinn heldur fram. Arion banki lokar á Hólmavík
Samfélagsábyrgð
Sú staðreynd segir þvert á móti að með nýjustu fjarskiptatækni er hægt að byggja upp ákveðna starfsemi á landsvísu óháð staðsetningu. Jafnframt getur verið að viðskiptavinir haldi tryggð við byggðarlagið og vilji einmitt styrkja það með því að skipta við útibúið á staðnum.
Kaldar kveðjur frá Arion banka
Arionbanki hlýtur að skulda íbúum Vestfjarða og þar með landsmönnum öllum skýringu á því, hversvegna ekkert útibú er frá bankanum í þessum landshluta.
Ef stóru bankarnir þrír, Arionbanki, Landsbankinn og Íslandsbanki eru búnir að skipta landinu á milli sín eins og virðist vera, eru lítil rök fyrir því að vera að reka fleiri en einn banka í landinu.
Bankarnir eru með ríkisábyrgð
Rétt er að vekja athygli á að bankarnir eru að hluta í ríkiseigu með ríkisábyrgð á meginhluta innlána sinna, sem þeir byggja jú starfsemi sína á.
Arður þeirra nú byggist ekki hvað síst á því, að "nýju" bankarnir fengu innlendar kröfur á viðskiftaaðila sína með miklum afföllum í hruninu, kröfur sem reynast svo miklu meira virði þegar frá líður.
Mismuninn, hagnaðinn, borgar svo almenningur, húseigendur og lítil fyrirtæki líka á Vestfjörðum. Bankinn tútnar út umfram það sem áætlað var og safnar óvæntum hagnaði sem viðskiftavinirnir og samfélagið borgar.
Þjónustuskyldur
Arionbanki er því ekkert eyland sem getur hagað sér að vild og bankastjórar ættu að gæta hógværðar í framkomu sinni gagnvart landsmönnum.
Fyrirvaralaus lokun útibúa og uppsagnir starfsfólks eins og á Hólmavík minna óneitanlega á orðræðuna og hroka fjármálastofnana fyrir hrun.
Það að loka á alla starfsemi í heilum landshlutum hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir stjórnvöld og eftirlitsstofnanir eins og Samkeppniseftirlitið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 23. október 2014
Þið getið bara sótt þjónustuna suður !
Arionbanki tilkynnti fyrirvaralaust lokun útibús síns á Hólmavík og benti viðskiptavinum sínum á að sækja þjónustuna suður.
Með lokuninni hverfa störf þriggja fjölskyldna úr þessu litla en blómlega bæjarfélagi og þjónustan skert. Allt sem heitir samfélagsábyrgð Arionbanka er varpað fyrir róða, græðgin ein skal ráða för. Kaldar kveðjur frá Arion banka. :
Þetta eru kaldar kveðjur og óviðbúnar aðgerðir frá banka sem sýnir stórfelldar hagnaðartölur og ofurlaun æðstu stjórnenda. Í afkomutilkynningu frá Arionbanka frá 27. ágúst 2014 kemur fram að hagnaður bankans á fyrri hluta ársins nemi 17,4 milljörðum króna sem er veruleg aukning frá árinu á undan segir sveitarstjórinn á Hólmavík. Fréttatilkynning frá Strandabyggð vegna lokunar útibús Arionbanka á Hólmavík:
Engin þjónusta Arionbanka á öllum Vestfjörðum
Arionbanki telur sig geta fetað athugasemdalaust í fótspor ríkisstjórnarinnar, sem nýlega lagði niður sýslumannsembætti Strandamanna á Hólmavík, þvert á gefin loforð þingmanna kjördæmisins sem nú sitja í ríkisstjórn.
Það er svo merkilegt, að þrátt fyrir aukna tækni í fjarskiptum sem eiga að getað virkað í báðar áttir, er ákvörðun stjórnvalda jafnt sem þjónustustofnanna og stórra einkafyrirtækja að byggja allt upp miðlægt á höfuðborgarsvæðinu í stað þess að nýta tæknina til að styrkja þjónustuna og störfin á landsbyggðinni.
Sem betur fer er Sparisjóður Strandamanna á staðnum. En hann stóð af sér bankahrunið og hefur ekki þurft að velta milljörðum yfir á landsmenn í afskriftum eins og forveri Arionbanka gerði, en bankinn græðir nú á.
Hvað með Samkeppniseftirlitið og bankana?
Þrátt fyrir fögur fyrirheit standa stjórnvöld viljalaus með tærnar á ráðherrunum upp í loftið, flúnum til fjarlægra heimshorna, hvort heldur til Brasilíu, Chile eða Japan og láta sig engu varða um, hvað gerist í litlum samfélögum á Fróni.
Hvað með Samkeppniseftirlitið, ber því ekki að fylgjast með því hvernig einokunarfyrirtæki eins og stóru bankarnir sinna þjónustu og jafnréttisskyldum við alla landsmenn?.
Bankarnir fá jú starfsleyfi á landsvísu með réttindum og skyldum sem því tilheyrir. Nú verður ekkert útibú Arionbanka á öllum Vestfjörðum.
Úr því að hægt var að kæra Mjólkursamsöluna fyrir að halda uppi sama verði á mjólk til söluaðila hvar sem er á landinu og greiða bændum sama verð óháð búsetu, hvernig væri þá að Samkeppniseftirlitið tæki á starfsemi og þjónustu stóru einokunarbankanna gagnvart fyrirtækjum og íbúum landsbyggðarinnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 10. október 2014
Fjölmenni á aðalfundi Heimssýnar
Umsóknarferlinu að ESB var siglt í strand á miðju ári 2011, þegar ljóst var að Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins myndu ekki opinbera formlega kröfur sínar í sjávarútvegsmálum gagnvart Íslendingum. ESB kaus heldur að vísa alfarið á lög og reglur sambandsins í þeim efnum og ítrekaði að frá þeim yrði ekki vikið.
Ísland gat því ekki heldur birt formlega kröfur sínar og vegna þessa gátu viðræður um sjávarútvegskaflann aldrei hafist.
Ágúst Þór Árnason aðjúnkt við Lagadeild Háskólans á Akureyri, sem var fyrirlesari á aðalfundi Heimssýnar vísaði m.a. í orð utanríkisráðherra Össurar Skarphéðinssonar í bókinni Ár drekans að hann hefði árið 2012 nánast grátbeðið framkvæmdastjórn ESB um að sýna á spilin í sjávarútvegsmálum svo ferlið gæti gengið áfram.
En Evrópusambandið hafnaði því og þóttist vafalaust vita hverjar yrðu pólitískar afleiðingarnar þess á Íslandi, ef kröfur þess í sjávarútvegi væru birtar formlega.
Að mínu mati var það ekki síst ESB, sem vilda gera hlé í ársbyrjun 2013 án þess að lýsa því opinberlega að ferlið væri stopp.
Fyrir Samfylkinguna var hinsvegar engu að tapa, hún varð að ríghalda í eina mál sitt, ESB aðild, hvað sem það kostaði.
Það leið að kosningum á Íslandi og umsóknarferlið komið í strand. Þrátt fyrir allt var að mati ESB vænlegast að gera hlé á ferlinu og láta umsóknina liggja um hríð. Tíminn yrði þá nýttur til að vinna jarðveginn betur á Íslandi og bíða eftir nýjum ESB-sinnuðum stjórnvöldum til þess að láta inngönguferlið halda áfram.
Það kom fram í erindi Ágústs að ekki væri hægt að halda áfram aðildarferlinu á grundvelli þeirrar umsóknar sem nú er í gangi. Umsóknarríki verði að samþykkja réttareglur Evrópusambandsins í einu og öllu.
Fyrir því verði að vera skýr meirihluti bæði meðal þings og þjóðar áður en farið væri í þá vegferð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 9. október 2014
Aðalfundur Heimssýnar í kvöld kl. 20
Sérstakur gestur fundarins er Ágúst Þór Árnason aðjúnkt við Lagadeild Háskólans á Akureyri, en hann er höfundur viðauka 1 við skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um aðildarumsókn Íslands að ESB.
Hann ræðir um "Aðildarumsókn Íslands í sögulegu ljósi og stöðu mála innan Evrópusambandsins". - Hver er staðan?
- Heimssýn -hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum - boðar til aðalfundar í kvöld kl. 20 í Snæfelli, Hótel Sögu.
Heimssýn er þverpólitísk samtök sem berjast fyrir opnu og sjálfsstæðu Íslandi utan ESB -klúbbsins.
Ég hef oft velt fyrir mér spurningum eins og:
Hvað vissu þingmenn um aðildarferið að ESB áður en þeir samþykktu að senda beiðni um inngöngu í sambandið vorið 2009 ?
Héldu þeir í raun að hægt væri að semja sig frá grunnskilyrðum ESB aðildar?
Ætli að þingmenn hafi þá lesið grunnatriði stækkunarferlis ESB sjálfs áður en þeir greiddu atkvæði ?:
Aðildarviðræður snúast um skilyrði um tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu. Um þessar reglur verður ekki samið.
Svo virðist t.d. ekki vera hjá þingmönnum sem sögðu já við umsókninni en sögðust samt vera á móti aðild.
Mikilvægt er að ljúka "bjölluatinu í Brussel" og afturkalla umsóknina eins og núverandi stjórnarflokkar hafa lofað.
Allt áhugafólk um feril og stöðu ESB umsóknar Íslendinga og ástandið innan Evrópusambandsins er hvatt til að koma og kynna sér málin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 29. september 2014
Hérna var ég skorin upp
Hann Páll Kolka langafi virðist hafa skorið upp aðra hverja manneskju hér á Blönduósi, sagði dóttir mín Katrín Kolka þegar hún kom heim eftir fyrsta daginn í vinnu á Héraðshæli Húnvetninga á Blönduósi fyrir nokkrum árum.
Starfsþjálfunin þar var hluti af hjúkrunarnámi Katrínar. Það þyrptist að mér allt eldra fólkið til að sýna mér stolt örin þar sem Páll skar, sagði Katrín með aðdáun.
Páll V. G. Kolka var héraðslæknir Húnvetninga frá 1934 til 1959 en hafði áður verið héraðslæknir í Vestmannaeyjum. Hann var einn sá fyrsti sem fór í sérnám erlendis í skurðlækningum . Sú þekking nýttist honum vel, bæði sem héraðs - og sjúkrahússlæknir í áratugi
Já, vissulega eru breyttir tímar og tækni og krafan um sérþekkingu er önnur en þá. Hins vegar breytast ekki væntingarnar um félagslegt öryggi, trúnað og traust, hlýju og nærgætni heilbrigðisþjónustunnar.
Þeir tímar koma að vísu ekki aftur þar sem læknirinn bjó sjálfur í sjúkrahúsinu og eiginkonan bauð sjúklingunum inn til sín í kaffi meðan þeir biðu. Sjúklingarnir fundu að þeir voru í öruggum höndum og tekið yrði heildstætt á því sem hrjáði þá. Þörfin fyrir öryggið og það að finna að allt sé gert til að sjúklingnum líði sem best og hann leiddur í gegnum það sem þarf er þó áfram fyrir hendi. Ekkert er verra sjúklingi en finna til óöryggis og fálms eða vera skilinn eftir eftir á miðjum gangi og vita ekki hvert á að fara næst.
Það hafa ekki allar heilbrigðisstofnanir stóra mömmu eins og frú Guðbjörg Kolka var Páli eigimanni sínum í þjónustunni við Húnvetninga. Eitt er víst að sjúklingur vissi oft ekki hvort hafði borið meiri árangur, kaffið og hughreystingarorð frú Guðbjargar Kolka eða færar læknishendur Páls. En saman veittu þau sjúklingnum bæði öryggi og þá meinabót sem mögulegt var að veita.
Ósjaldan dvaldi fólk um tíma á heimili þerra hjóna og fékk aðhlynningu og í hjónarúminu fæddi kona barn er þröngt var á spítalanum.
Oft var komið með litla stúlku eða lítinn dreng til lengri eða skemmri dvalar á heimili þeirra, ef ástæður voru erfiðar heimafyrir.
Læknirinn gerði sér grein fyrir að þau gátu verið mörg meinin þótt aðeins eitt væri sýnilegt í það skiptið. Engu að síður er það þessi heildstæða yfirsýn, nærgætni og læknisfræðileg færni sem sjúklingar eru að leita eftir þegar hjálpar er leitað. Spor sjúklings til læknis, í rannsókn eða á sjúkrahús eru oft þung og hlaðin óvissu um hvað tekur við.
Páll Kolka læknir signdi sig og fór með bæn áður en ráðist var í stóraðgerð. Ekki veitti af öllum styrk og krafti og honum farnaðist afar vel í læknisverkum sínum: Sjáðu hérna var það, sem Páll Kolka héraðslæknir Húnvetninga skar mig.
Páll Kolka hannaði og stýrði byggingu Héraðshælisins á Blönduósi, stolti Húnvetninga. Nú stendur hún nánast ónotuð en fullbúin skurðstofan á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi .
Mér kemur þetta í hug eftir umræðuna um heilbrigðismálin síðustu daga og vikur, stöðu þeirra og skipulag. Áfram hriktir alvarlega í grunnstoðum heilbrigðisþjónustunnar og innviðum hennar. Áratuga uppbygging og þróun þessar þjónustu hefur í ýmsu molnað og holast um of að innan á síðastliðnum tuttugu árum. Þar bera stjórnvöld höfuðábyrgð. Hinsvegar hafa tækniframfarirnar orðið miklar og möguleikarnir til lækningar orðnir fleiri. Þeim möguleikum þarf að finna sem bestan farveg okkur öllum til velfarnaðar.
Ég held þó að löggjafinn hafi gert alvarleg mistök við samþykkt laganna frá 2003 um heilbrigðisþjónustu þar sem hugtakinu þjónustu var skipt út fyrir heilbrigðisrekstur. Þótt rekstrarhugtakið í heilbrigðisþjónustu sé mikilvægt missir það inntak sitt ef metnaðurinn, þjónustuhugtakið og auðmýktin er ekki í fyrirrúmi. Nærþjónustan, heilsugæslulæknirinn, gamli héraðslæknirinn sem þekkti sjúklinginn og hemilishagi hans, gegnir áfram lykilhlutverki í að halda utan um einstaklinginn í heilbrigðisþjónustu landsmanna
Sem betur fer er áfram við lýði sama kærleikshugsjón heilbrigðisþjónustunnar og ríkti á stofu og í eldhúsi læknishjónanna á Blönduósi, Páls og Guðbjargar Kolka þótt í öðru formi sé.
En þá hugsjón þarf að rækta og hlúa að. Í því felst ákall svo margra í dag. Þar í liggur forgangsröðunin fyrir hugsjónirnar sem leggja grunninn að farsælli heilbrigðisþjónustu landsmanna.
( Skrifað á afmælisdegi Katrínar Kolka hjúkrunarfræðings)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)