Föstudagur, 25. ágúst 2023
Stórfelld einkavæðing almannaþjónustu
Fjármálaráðherra boðar stórfellda einkavæðingu almannaþjónustu.
Niðurskurður á opinberum störfum og þjónustu mun fyrst bitna á þeim sem fjarstir standa ráðuneytunum sjálfum og verkkaupum þeirra.
Aukinn kostnaður grunnþjónustunnar mun færður yfir á almenning. Liggur í orðanna hljóðan
Skyldu verða skorin niður laun þeirra og sporslur sem gegna nefndarstörfum, stjórnum eða aðkeypta lögfræðiþjónustu og ráðgjöf ráðuneyta sem ég man sem ráðherra höfðu mikla tilhneigingu til þess að hlaða utan á sig?.
Maður veltir því fyrir sér hvort ekki standi nær að hækka meir skatta á ofurgróða og arðgreiðslur einstakra fyrirtækja og einstaklinga með hæstu tekjur frekar en ráðast á almannaþjónustuna, öðru nafni " Hægræðingar tal" og uppsagnir almenns starfsfólks.
Spurning hvort öll þessi miklu útgjöld til hervæðingar landsins og háværa vopnaskaks séu í samræmi við forgangsröðun, stjórnarskrá og vilja friðelskandi þjóðar.
Botnlausir sjóðir ESB kveina af hungri.
Sjálfssagt er að spara og sýna aðhald.
Ekki var nefnt í máli ráðherra hvort ætti að afsala fleiri feitum ríkiseignum á altari stóreignamanna og vildarvina.
Það var athyglisvert og vægast sagt mjög sérstakt ef ríkisfjármálin og stefna í ríkisfjármálum hafi ekki á hrif á verðbólgu og vaxtastig í landinu og þar með kjör almennings og atvínnulífs:
"Það er ekki hlutverk ríkisfjármálanna að vinna bug á verðbólgunni. Það er hlutverk Seðlabankans. Og ríkisfjármálin eru ekki að þvælast fyrir Seðlabankanum í því hlutverki.
Öðru vísi mér áður brá hér á árum áður þegar ég sat á Alþingi eða í ríkisstjórn.
Þá vissum við að þingið og ríkisstjórnin bar ábyrgð á ríkisfjármálum þar með sínum hlut í verðbólgu og vaxtastigi og kjörum almennings í landinu. Hvort sem okkur líkaði betur eða ver.
Annað væri hrein veruleikafirring
![]() |
Dálítið langsótt af Ásgeiri að vísa ábyrgð annað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 24. ágúst 2023
Ríki - og sveitarfélög kynda verðbólguna
"Flest hækka gjaldskrár í takt við verðlag nema Seltjarnarnesbær meira
Átta stærstu sveitarfélög landsins hækka gjaldskrá grunnskólaþjónustu, í einstaka tilfellum um tugi prósenta. Framkvæmdastjóri Heimilis og skóla óttast að foreldrar segi upp mataráskrift eða taki börn sín af frístundaheimilum.
Valgerður Gréta Guðmundsdóttir Gröndal

Það er umtalsverður munur á gjaldskrám sveitarfélaga fyrir síðdegishressingu, dagvistun og mat í skólum.
RÚV Ragnar Visage
Þrátt fyrir að hafa verið hvött til þess að stilla gjaldskrárhækkunum í hóf hafa öll stærstu sveitarfélög landsins hækkað gjaldskrár sínar á milli ára. 152% munur er á lægsta og hæsta gjaldi sveitarfélaga fyrir síðdegishressingu. Verðbólga mældist 7,6% í júlí.
Í upphafi skólaárs kannaði fréttastofa gjaldskrár sveitarfélaganna og bar saman við upplýsingar úr könnun verðlagseftirlits ASÍ frá því í fyrra. Könnuð voru gjöld fyrir skóladagvistun, síðdegishressingu og skólamat.
Gjöld fyrir frístundaheimili og skólamáltíðir hafa hækkað umtalsvert á milli ára. Á Seltjarnarnesi hækkar skólamaturinn um 45% og í Reykjanesbæ um 18%. Gjaldskrárhækkunin fyrir skólamat og dvöl í frístundaheimili er þó í flestum tilfellum um átta til tíu prósent. Misjafnt er hversu mikið síðdegishressing hækkar í verði, allt frá tæpum þremur prósentum í Reykjavík upp í 68% í Hafnarfirði. Mest nam hækkunin 9,8% á gjöldum fyrir frístundaheimili.
Munur á milli einstakra sveitarfélaga er einnig umtalsverður. Á hæsta og lægsta verði skólamáltíða munaði 71% þar sem munurinn er mestur. 152% munur var á verði síðdegishressingar. 108% munur var á hæsta og lægsta gjaldi fyrir frístund.
Líkt og í fyrra greiða foreldrar í Seltjarnarnesbæ mest fyrir grunnskólaþjónustu en lægsta verðið fyrir skólamáltíðir er í Mosfellsbæ. Lægsta verð fyrir frístund er í Hafnarfirði.
Lýðheilsumál frekar en þjónusta
Arnar Ævarsson, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, segir þessar niðurstöður fyrst og fremst vera vonbrigði og lýsir yfir áhyggjum af þessari þróun. Þessar verðhækkanir koma til með að hafa mest áhrif á þau sem minna mega sín, öryrkja, útlendinga og þau sem hafa minnst bakland. Afleiðingarnar geti verið mjög alvarlegar. Hægt sé að reikna með því að foreldrar sjái sér ekki annað fært en að segja upp mataráskriftum eða draga börn sín úr frístund.
Arnar tekur einnig fram að streita, kvíði og sektarkennd yfir því að geta ekki veitt börnum sínum það sama og önnur börn fá hellist yfir foreldra, áhyggjur sem enda svo í fangi barnanna.
Sveitarfélögum er tamt að tala um þetta sem þjónustu, segir Arnar. Hann telur brýnt að breyta orðræðunni og tala frekar um lýðheilsu. Það sé mikilvægt lýðheilsumál að börn fái næringarríkan mat í skólum. Gæði skólamáltíða eru misjöfn, sum hætta í mataráskrift vegna versnandi gæða og önnur mættu vera með betra nesti með sér, segir Arnar. Það er hagur samfélagsins alls að börnin fái góða næringu í skólanum.
Til lengri tíma litið er hætt við því að léleg næring muni síðar bitna á heilsu einstaklinganna. Þá er þetta kostnaður sem kemur niður annars staðar í kerfinu, segir Arnar sem bætir því að Íslendingar ættu að horfa til Finna sem hafa verið leiðandi í lýðheilsumálum. Allt frá árinu 1948 hafa Finnar boðið skólabörnum upp á skólamáltíðir án endurgjalds. Næringarríkar og vel samsettar máltíðir stuðla að heilbrigðum vexti og þroska nemendanna auk þess að vera félagslegt jöfnunartæki, segir hann. "

Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 18. ágúst 2023
Sameina Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík ?
"Fyrst og síðast á að sameina Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.
Þeir eru í göngufæri beggja vegna sömu mýrarinnar".
Sagði Laugvetningurinn Guðmundur Birkir Þorkelsson f.v.kennari og skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík um yfirlýsingu ráðherra að sameina Hólaskóla á Hólum í Hjaltadal og Háskóla Íslands við Suðurgötuna í Reykjavík
Ráðherra háskólamála gaf út yfirlýsingu nú um síðustu helgina að hún stefndi að því sameina Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands og kallaði hún til rektora skólanna til þess að skrifa undir viljayfirlýsingu þess efnis.
Voru þau áform m.a.rökstudd "til þes að ná fram "hagræðingu" í háskólastarfi landsins".
Með þessari yfirlýsingu ráðherra stillir hann skólastjórnendum á Hólum upp við vegg með hótun um sameiningu eða leggja undir fjarlæga stofnun.
En um leið er skotið sér undan að taka alvarlega á málum og efla Hólaskóla og Hólastað.
Nú er rekstur Hólaskóla eins og lítill dropi í hafi útgjalda Háskóla Íslands, en liggur vel við höggi
Hrossarækt- Reiðmennska - Íslenski hesturinn- Náttúru og menningartengd ferðaþjónusta og Fiskeldi -
Saga og helgi Hólastaðar verður ekki flutt á Melana við Hagatorg í Reykjavík
Hinsvegar hefur tekist að marka Hólum ákveðna sérstöðu í þróun námsbrauta sem ekki hafa verið kenndar annarsstaðar á landinu.
Og sem hafa reyndar áunnið sér virðingu og stöðu út um allan heim.
Í raun hefur Hólaskóli lyft grettistaki í þróun öflugs náms og námsbrauta fyrir þessar atvinnugreinar sem hafa vaxið ævintýralega á síðustu árum.
Ef horft er til hagræðingar einnar saman í háskólanámi og fjárhagslegs ávinnings er e.t.v. rétt að athuga fyrst með sameiningu H.Í.og H.R.
Þar gæti verið eftir einhverju að slægjast sem mætti spara og nota þá fjármuni ef afgangs eru til þess að efla tækni og háskólamenntun á landsbyggðinni.
Nú er ég ekkert að leggja það beint til að sameina H.Í og H.R. en heiðarlega sagt hlýtur það að standa ráðherra nær.
Í námi og námsbrautum við Hólaskóla felast mikil verðmeti og stuðningur við ört vaxandi atvinnugreinar:
Hestamennsku, horssarækt, ferðaþjónustu og fiskeldi.
Ráðherra bretti upp ermar fyrir Hóla
Að sjálfsögðu þarf að endurbæta húsakost heima á Hólum sem hefur verið vanræktur, styrkja skólann, námið og Hólastað í verki til þess að leiða áfram þróun og tækni í þessum mikilvægu atvinnugreinum.
Við Hólaunnendur treystum á ráðherra að nálgast viðfangsefni sitt á þeim forsendum Heima á Hólum
Velkomin Heim Að Hólum
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 15. ágúst 2023
Er það hlutverk Háskóla Íslands að niðurlægja Hóla
Frétt Morgunblaðsins í dag um að leggja eigi Hólaskóla niður og færa hreyturnar undir Háskóla Íslands í Reykjavík er furðuleg og óskiljanleg. Horfa til sameiningar HÍ og Háskólans á Hólum
Ja "miklir menn erum við Hrólfur minn".
Samstarf við H.Í hefur verið mikið og gott á undanförnum árum á hinu faglega sviði og báðir haft hag af.
En best hefur farið á að hver skóli fari með sína eigin stjórn og á heimavelli.
Ég var skólastjóri á Hólum í 20 ár og alltaf komu upp hugmyndir um utanfrá að leggja skólann niður og færa hann undir aðrar stofnanir.
Yfirleitt kom slíkt frá einstaklingum og ráðherrum sem þekktu ekkert til, báru litla virðingu fyrir sögu og menningu þjóðarinnar, höfða varla komið Heim að Hólum nema í mýflugumynd.
En sem betur fer voru til sterkt fólk og framsýnir aðilar sem stóðu með Hólum í Hjaltadal og tryggðu veg staðarins og virðingu sem og öflugs menntaseturs sem öll þjóðin gat verið stolt af.
Við gátum öll með stolti litið Heim að Hólum
Það er dapurlegt ef þetta verður minnisvarði ríkisstjórnar Katrinar Jakopsdóttur að leggja Hóla í Hjaltadal niður sem menntasetur og færa hreyturnar á mölina undir Háskóla Íslands í Reykjavík sem hingað til hefur átt nóg með sig sjálfan.
Þessar hugmyndir ber að afturtkalla þegar í stað og standa að baki Hólastaðar og Hólaskóla - Háskólans á Hólum af fullum metnaði
![]() |
Horfa til sameiningar HÍ og Háskólans á Hólum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 11. ágúst 2023
Heim að Hólum - Hólahátíð 12- 13 ágúst
Náttúran hefur gætt Hólastað fegurra og endingarbetra byggingarefni en unnt er að panta frá öðrum löndum. Nefnilega hinum yfirmáta fagra rauða sandsteini sem þar finnst gnótt af í næsta nágrenni og múr sá er uppbyggður af sem staðið hefur kringum kirkjuna árum saman.
Það virðist ósannlegt að fyrirmuna kirkjunni að verða uppbyggð á þann máta sem Herrann sjálfur sýnist hafa ætlast til (.Magnús Gíslason amtmaður 21. sept. 1756.)
Fyrsta steinkirkja landsins
Hóladómkirkja, er lifandi minnisvarði um fornan glæsileik og veldi Hóla í Hjaltadal. Núverandi kirkja er ein sú hin minnsta er staðið hefur á Hólum frá stofnun biskupsstóls árið 1106. Hinar fyrri kirkjur voru hátimbraðar byggingar er annað hvort fuku eða brunnu.
Sú kirkja sem nú stendur er aftur á móti fyrsta steinkirkja landsins og líklega eina byggingin hérlendis sem var reist í þegnskyldvinnu. Þótti víst mörgum betra að þéna að Brimarhólmi en standa í steinhöggi í Hólatúni .
Byggingasaga kirkjunnar er í raun stórmerkileg og verður gerð nákvæm skil á Hólahátíð. Hin rauða steinkirkja hefur staðið af sér endurtekin harðindi, hörmungar og niðurlægingu er riðu yfir Norðurland og Ísland allt.
Hún stendur sem skjólshús yfir dýrmæta helgigripi allt frá kaþólskri tíð og minna á stórbrotna menningu á Hólastað. Þeir munir eru þó aðeins brot af því staðurinn eitt sinn átti, en kirkjan var rænd af dönskum hermönnum eftir aftöku Jóns Arasonar 1550.
Þegar litið er yfir sögu Hólakirkju virðist þó sem hagræðing, skammsýni og aurasálgæsla hafi verið hættulegasti óvinur Hólastaðar fremur en harðindi og skepnufellar.
Lok biskupsstóls á Hólum 1801
Hannes Pétursson lýsir atburðarrásinni í bók sinni Rauða myrkur: Þá höfðu lengi gnúð á harðindi með hungurdauða og pestum ; að norðan komu ísar og bruni, aska og eldur að sunnan. Svarf þetta allt svo nærri jarðeignum og landsetum stólsins að tekjur hans urðu valtar og stundum mjög rýrar. Setrið á Hólum sem átti sér þrjár miklar rætur eins og hið aldna tré norrænnar goðsögu , lafði nú uppi og mornaði og þornaði, uns konungur vor sá að baðmurinn var merktur dauðanum.
Þá lét hann gera tvö bréf , hið fyrra 14. júní 1799 og dæmdi þar prentverkið af norðlendingum, bráðum 300 ára gamalt og hið síðara 2. október 1801, er afnam biskupsdóm og latínu skóla á Hólum. Ári síðar voru allar stólsjarðir í Skagafjarðarsýslu,um 200 talsins með hjáleigum seldar á uppboðsþingum. Sömu leið fór jarðargóss stólsins í öðrum sýslum stiftisins;
Hóladómkirkja sjálf átti sér eftir sölu jarðarinnar 1802 engin réttindi, hún gleymdist á uppboðsþingum. Stefán Þórarinsson amtmaður á Möðruvöllum sem þá keypti Hóla átti hana ekki né heldur söfnuðurinn. Kirkjan stóð í Hólagarði öllum réttindum og hlunnindum rúin, eigendalaus, eignalaus og fjárhaldsmannslaus.
Jarðarmatsnefnd konungs mat máliðs svo: Þyrfti Hólakirkja sérlega mikillar aðgjörðar við, þá skyldi brjóta hana niður með því að hún lægi illa og væri of stór handa svo lítilli sókn og reisa aðra kirkju mátulega á Kálfsstöðum.
Hólar í einkaeign
Þessi umsögn mun hafa leitt til þess að konungur hafi af ráðnum hug ekki viljað leggja það á nokkurn, hvorki söfnuð né jarðareiganda að bera eignarábyrgð á kirkjunni. Kirkjan á Hólum átti sig sjálf.
Nýir eigendur á Hólum létu vera sitt fyrsta verk að rífa mörg hús staðarins og selja timbrið, og þar á meðal hina 500 ára gömlu Auðunarstofu.
Hefðu þeir án efa rifið kirkjuna einnig ef hún hefði verið úr timbri og í þeirra eigu. Gekk svo til ársins 1824 er Benedikt Vigfússon frá Garði í Kelduhverfi kaupir Hóla. Hann var kvæntur Þorbjörgu Jónsdóttur Konráðssonar frá Mælifelli. Bæði vel auðug.
Hér tók sá við Hólum sem reisti staðinn úr rústum og húsaði allan upp að nýju. Hann varð skjótt einn af auðugustu mönnum landsins. Dómkirkjan á Hólum naut atorku Benedikts sem endurbætti hana og lagfærði sem sína eign, en hún var þá mjög að fótum komin, án viðhalds í hartnær hálfa öld.
Með Bendikt Vigfússyni er þögguð niður umræðan um að rífa Hólakirkju. En Bendikt vissi sem var að hann var ekki eilífur og framtíð dómkirkjunnar var ekki frekar örugg eftir hans dag en var þegar hann kom heim að Hólum.
Vörn Hólakirkju- Bænarskrá Benedikts
Árið 1862 sendi Benedikt bænarskrá til Alþingis um fjárframlag til Hólakirkju. Bendir hann á að Hóladómkirkja sé einskonar sjálfseignarstofnun en séreignir hennar hafi verið seldar undan henni án endurgjalds. Vill hann að Alþingi og kóngurinn greiði henni bætur og tryggi rekstur kirkjunnar og viðhald um ókomin ár.Málið fékk mikla umræðu á Alþingi. Milliþinganefnd undir forystu Arnljóts Ólafssonar skilaði áliti er þing kom saman árið 1865.Tekur nefndin undir óskir Bendikts og leggur til að veitt verði fé til kirkjunnar og staða hennar tryggð til framtíðar. En hvorki Alþingi né kirkjuyfirvöld voru reiðubúin að taka á sig eigendaábyrgð kirkjunnar né heldur töldu sér það heimilt án undangengins dóms. Höfða þyrfti dómsmál til að fá úr því skorið hver ætti Hóladómkirkju. Þar til yrði að líta svo á að kirkjan ætti sig sjálf en eigandi Hóla hlyti að bera ábyrgð á henni. Benedikt hefði sýnt það að hann hefði vel efni á að standa undir rekstri hennar og viðhaldi og væri eðlilegast að svo yrði áfram. Benedikt deyr 1868.
Hólar í höndum Norðlendinga
Það varð Hólakirkju til bjargar að Skagafjarðarsýsla kaupir Hóla 1881 og stofna þar öflugan Búnaðarskóla, nýjan Hólaskóla . Norðlendingar sameinuðust síðan um rekstur hans. Aftur eru Hólar komnir í þjóðbraut. Þeir öxluðu einnig ábyrgð á dómkirkjunni. Viðhald kirkjunnar var órjúfanlegur þáttur í rekstri skóla og staðar. Hélst svo einnig eftir að Hólar urðu eign ríkisins. Sérstaða Hóladómkirkju að eiga sig sjálf hefur verið virt.
Reksturinn og viðhald er á ábyrgð ríkisins en falin í hendur sérstakrar Hólanefndar: vígslubiskups, rektors Hólaskóla, prófasts Skagfirðinga og formanns sóknarnefndar.
Þegar turninn var reistur við hlið dómkirkjunnar árið 1950 á 400 ára ártíð Jóns Arasonar og sona hans var einmitt áréttað með gjafabréfi að klukkuturninn væri gefinn Hóladómkirkju.Sama var svo einnig þegar Auðunnarstofa hin nýja var byggð. Þá afhenti bygginganefnd Stofunnar Hóladómkirkju húsið til eignar og varðveislu.
Var það gert meðvitað því eignarleg staða Hóladómkirkju er sú að hún á sig sjálf. Sú staða bjargaði kirkjunni frá niðurrifi í gegnum mörg erfið ár og fer best á því að sú verði staða hennar áfram.
Endurreisn Hóla 1981
Það hafa ávallt skipst á skin og skúrir í sögu Hóla. Um 1980 var svo komið að formlegt skólahald hafði lagst af og framtíðin óviss. Háværar raddir, líkt og 200 árum áður töldu að leggja bæri staðinn niður.
Þá risu Norðlendingar aftur stað sínum til varnar en svo vildi til að í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen sátu atkvæðamiklir norðlenskir ráðherrar eins og Pálmi Jónsson á Akri landbúnaðarráðherra og Ragnar Arnalds fjármálaráðherra. Steingrímur Hermannson þá samgönguráðherra, en faðir hans Hermann Jónasson var Skagfirðingur
Ég hygg að það ásamt öflugum einstaklingum heimafyrir undir forystu Gísla Pálssonar á Hofi í Vatnsdal hafi ráðið úrslitum um að sú ríkisstjórn tók þá ákvörðun árið 1980 að endurreisa Hóla.
Það var þá sem var kallaður heim til Hóla og átti því láni að fagna að stýra þeirri endurreisn ásamt mörgu öðru góðu fólki.
Mér er mjög minnisstæð sú orðræða sem ég mætti á þeim tíma, að hin gömlu og veglegu skólahús staðarins væri svo úr sér gengin að óvíst væri hvort borgaði sig að gera þau upp.
Ég vildi að skólahúsið yrði gert upp og það varð. Staðurinn hefur nú verið húsaður upp að nýju, skólahúsið stendur tignarlegt og engum dettur nú í hug að láta það grotna niður, sem þó lá fyrir um 1980.
Hóladómkirkja- biskupssetur - skóli
Forvígismenn Hólaskóla og Hólastaður litu ávallt á hann sem eina heild með skóla, kirkju vísindi og menningu. Því hlutu endurbætur á Hóladómkirkju að verða liður í átakinu svo og flutningur vígslubiskupsembættisins heim að Hólum.
Þetta hefur nú hvorutveggja gengið eftir. Þar með hafa verið endurreistar þær stoðir, ræturnar sem Hólar hvíldu á um aldir, en voru höggnar af með konungsbréfunum 1798 og 1802. Hólar í Hjaltadal eru í dag eitt öflugusta menntasetur á landsbyggðinni
Við tökum öll undir orð vinar míns Gunnars Eyjólfssonar leikara, sem vann hug og hjörtu Skagfirðinga er hann lék Jón Arason biskup heima á Hólum þjóðhátíðarárið 1974:
Ég skal segja þér það Jón, þegar ég kem hér að aðalhliðinu Heim að Hólum grípur mig sterk tilfinning:
Drag skó þína af fótum þér því moldin sem sem þú gengur á er heilög jörð.
Velkomin heim að Hólum.
( tekið saman á 250 ára afmæli Hóladómkirkju.J.B.)
Jón Bjarnason
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.8.2023 kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)