Að koma beint að kjarna máls

„Til  Brussel er bölvuð leið,

hvorki bein eða greið.

Einsýnt er allt þetta makk.

E.  S.  B. -   Nei takk! "

Þannig mæltist Finnboga Leifssyni, bónda  í Hítardal á  Aðalfundi  Samtaka Sveitarfélaga á Vesturlandi í dag.  En fundurinn stendur nú yfir í Stykkishólmi.

Tilefnið var ræða Stefáns Hauks Jóhannessonar aðalsamningamanns  Íslands í viðræðum við ESB. 

Stefán Haukur lýsti í ræðu sinni  mjög fjálglega öllum þeim milljörðum sem Ísland  gæti átt  í vændum  í byggðastyrkjum frá ESB,  ef  við kæmumst þar inn.  

Sérstaklega yrðu bitarnir feitir ef Ísland  væri skilgreint sem harðbýlt land, sem  lægi eins og á mörkum hins byggilega heims.

Formaður samninganefndarinnar var hinsvegar ekki alveg viss um að sú skilgreining fengist viðurkennd í Brussel,  m.a. af því að  þjóðartekjur á mann væru hér í  hærri  kantinum  miðað við  ESB-löndin.

Svo eru það náttúrulega blessuð fiskimiðin, hitaorkan, vatnsorkan og aðrar náttúruauðlindir, sem setja þar strik í reikninginn. Reyndar kom Stefán ekki inn á það,  hvað Ísland þyrfti að borga mikið til ESB, enda er það hálfleiðinlegt umræðuefni.

Stefán upplýsti enn fremur að aðgerðaráætlun í Byggðamálum sem ESB hefði krafist,  væri nú tilbúin ásamt samningsmarkmiðum  Íslands í þeim málaflokki.  Biðu pappírarnir  aðeins eftir póstskipinu til Brussel.  

Þar reyndist formaður samninganefndarinnar hinsvegar  hafa farið fram úr sér,  því  að samningsmarkmiðin og aðgerðaráætlunin í Byggðamálum hefur  það ég best veit  ekki verið afgreidd frá utanríkismálanefnd og óljóst er hvort ríkisstjórnin hafi blessað málið fyrir sitt leiti.

En auðvitað er allt slíkt aukaatriði  þegar ESB - bænaskráin er annarsvegar .

Bóndinn og sveitarstjórnarmaðurinn í Hítardal  uppskar dynjandi lófaklapp fundarmanna sem viðbrögð við hinni  snjöllu  og hnitmiðuðu ræðu,  sem  komst fyrir í einni  vísu,  ferskeytlu sem sagði allt sem segja þarf.


Orð og efndir í ESB- umræðunni

Vinstrihreyfingin grænt framboð var m.a. stofnuð á sínum tíma til að verja sjálfstæði landsins og standa gegn umsókn og aðild að ESB.

Aðrar meginstoðir flokksins eru umhverfismál, jafnréttismál og velferðarmál.

VG hefur fært miklar fórnir í þessu ríkisstjórnarsamstarfi með Samfylkingunni, misst öfluga þingmenn, stuðningsfólk, félaga og baráttufólk úr forystusveit til þess eins að þóknast Samfylkingunni í ESB-umsókninni, þessu eina baráttumáli hennar.

Meirihluti þingflokks VG hefur því miður stutt dyggilega öll þau skref sem hingað til hafa verið stigin í aðildar- og aðlögunarferlinu að ESB og nú síðast lagst svo lágt fyrir tæpum tveimur mánuðum að samþykkja aðlögunarstyrkina,(IPA), peningana,  dúsurnar sem ESB bauð til að greiða fyrir í aðlögun Íslands og aðild að sambandinu

Það er því fagnaðrefni ef ráðherrar VG, þær Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir virðast nú átta sig á því að ESB-umsóknin var feigðarflan fyrir VG frá upphafi og getur ekki haldið áfram. Báðar lýstu þær efasemdum sínum um aðildarferlið að ESB í kvöldfréttum útvarps hinn 11. ágúst sl. Undir það hafa nú fleiri þingmenn VG tekið. Vonandi er þetta fyrirboði stefnubreytinga enda styttist í næstu kosningar og alvöruna sem þeim fylgir. Ég hef krafist þess að umsóknin verði afturkölluð hið fyrsta.

 Þrengt að formanninum

Lítið hefur þó breyst í ESB-málinu frá því fyrr í sumar. Makrílveiðunum var bjargað með ákvörðun um veiðarnar fyrir sl. áramót. Aðlögunarferlið að ESB heldur áfram á fullri ferð,  en jafnframt breikkar bilið milli grasrótarinnar og þeirra forystumanna VG sem ýta á eftir í þessu ferli.

" Villikettirnir" í VG hafa þó staðið vaktina og munu gera áfram. Svo sannarlega er gott, því fleiri félaga minna í VG sem hafa stutt umsóknina til þessa og lagt sál sína þar undir telji nú að endurskoða þurfi málið í heild sinni.

Orð eru til alls fyrst en að sjálfsögðu verður spurt um trúverðugleikann og efndir í þeirri umræðu.

Að fá fyrirgefningu og bæta ráð sitt

Menn munu vafalaust reyna að ná fyrirgefningu kjósenda VG og þjóðarinnar í ESB-málinu m.a. með því að ganga berfættir milli höfuðkirkna landsins.
Slíkt gerði Sturla Sighvatsson forðum í Róm og „lét hýða sig til blóðs fyrir kirkjudyrum“ til að fá fyrirgefningu synda sinna og ná sáttum við kaþólska kirkjuhöfðingja landsins. Áhorfendum fannst mikið til um.
Reyndar kom hann svo við á heimleiðinni í Noregi og sór konungi hollustueiða með afleiðingum sem öllum er kunn, en það er önnur saga. Hér sem fyrr munu verkin tala.
Það ber í sér feigð fyrir VG að ætla að ganga til kosninga með þetta mál opið og ófrágengið. Þetta skilja sem betur fer æ fleiri og fleiri.

Umsóknin verði afturkölluð

Að tillögu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna samþykkti Alþingi að sækja um aðild að ESB. Ég var því andvígur og fleiri þingmenn VG greiddu einnig atkvæði gegn þeirri tillögu á þingi, enda gekk sú samþykkt þvert gegn stefnu VG og þeim loforðum sem ég og fleiri frambjóðendur gáfum fyrir kosningar. Því var jafnframt hafnað á Alþingi að þjóðin greiddi atkvæði um það fyrst hvort haldið skyldi út í vegferð aðlögunar og aðildar.
 Það er mikilvægt að Alþingi afturkalli umsóknina og tryggi að ný umsókn verði ekki send nema að þjóðin hafi veitt samþykki sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Tillaga þess efnis frá mér og Atla Gíslasyni liggur nú fyrir Alþingi.
( Birtist sem grein í mbl. 14. ág.sl.)

"Vitleysisumræðan" í Grímsstaðamálinu

        
Efnahags og viðskiptaráðherra lagði fyrir ríkisstjórn minnisblað 12.06 sl. þar sem greint var frá því að ráðuneytið hefði veitt Zongkung Europe ehf undanþágu frá því ákvæði í lögum að minnst helmingur stjórnarmanna félags skuli vera búsettir hér á landi .
"Eftir yfirferð yfir málið var það niðurstaða ráðuneytisins að veita umræddu félagi undanþágu en þess
var sérstaklega getið að við afgreiðslu málsins hefði verið tekið tillit til þess að framkvæmdastjóri
félagsins er íslenskur
" segir í niðurlagi minnisblaðs ráðuneytisins.
Framkvæmdastjórinn er íslenskur !!!!

Með þeirri undanþágu ráðuneytisins var rutt úr vegi hindrunum fyrir kínversku fyrirtækin að stofna nýtt fyrirtæki hér á landi um áform sin á Grímsstöðum á Fjöllum. Skírskotað er til þjóðernis framkvæmdastjórans. Nú vita menn að framkvæmdastjórar þurfa ekki að vera eilífir í starfi þó þeir séu íslenskir og vinni fyrir kínverja.
Minnisblað þetta frá 12 júní sl. til ríkisstjórnarinnar sem birtist á vefsíðu mbl. sl. þriðjudag er um margt athyglisvert. Ekki aðeins vegna þess að málið í heild sinni var tekið af innanríkissráðherra Ögmundi Jónassyni og vegna andstöðu hans og fært til efnahags og viðskiptaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, heldur og fyrir það hversu tíunduð eru vönduð vinnubrögð efnahagsráðneytisins við þá ákvörðun að heimila tveim kínverskum fyrirtækjum að stofna einkahlutafélag hér á landi: „Ráðuneytið tók erindið til ítarlegrar skoðunar m.a. út frá því hvort að rétt væri að skilyrða undanþáguna með einhverjum hætti. t.d. þannig að einn stjórnarmanna yrði að vera búsettur á Íslandi“.
Það lýsir í nokkru baksviði þessa máls að undanþágan í svo mjög umdeildu máli skuli afgreidd frá ríkisstjórn og það í ágreiningi án þess að greina frá því á fjölmiðlayfirliti ríkisstjórnarfunda eða opinbera það á annan hátt. Hvers vegna þessi feluleikur?

Nú vissi ég að innanríkisráðherrann, Ögmundur Jónasson hafði á sínum tíma aflað margvíslegra gagna um hin kínversku fyrirtæki áður en hann hafnaði að veita undanþáguna til kaupa á Grímstaðajörðinni. Þeirrar vinnu er hinsvegar hvergi getið í umræddu minnisblaði efnahags og viðskiptaráðherra, sem er reyndar ósköp rýrt efnislega.
T.d. er minnisblaðið ekki nákvæmara en svo að lagatilvitnunin virðist röng, vitnað er til laga nr. 134 frá 1994 en eiga að vera lög um einkahlutafélög nr. 138 frá 1994. Þá er nafn hins nýja kínverska fyrirtækis breytilegt í texta minnisblaðsins : Zongkung- Zongkun- Zhongkun.

Villikettir og skúrkar

Þjóðin hefur fylgst mjög náið með umræðunni um Grímsstaðamálið síðustu daga. Það hefur engum dulist ágreiningur ráðherranna Ögmundar Jónassonar og Steingríms J. Sigfússonar í þessu máli. Ég studdi ákvörðun Ögmundar á sínum tíma í ríkisstjórn og er áfram þeirrar skoðunar að það eigi að stöðva þessi fjárfestingaráform kínverjanna á Grímsstöðum í fæðingu enda samræmast þau engan vegin stefnu og hugmyndafræði VG.
Hvarvetna þar sem ég hef farið um landið heyri ég þá sömu skoðun bæði hjá fyrrverandi og núverandi Vg félögum sem og hjá öllum almenningi. Grímsstaðamálinu var sparkað í horn á síðasta ríkisstjórnarfundi með því að skipa í það sérstaka ráðherranefnd en leyfið og undanþágan sem efnahags og viðskiptaráðuneytið veitti kínverjunum hefur ekki verið afturkallað, sem átti að gera.
Segir það sína sögu um stöðu málsins í ríkisstjórn. Í viðtali við ríkisútvarpið eftir ríkisstjórnarfund sl. þriðjudag spyr fréttamaðurinn út í Núbó og Grímsstaða umræðuna síðustu daga: " Steingrímur segir það af og frá að hann sé að bakka í málinu eða einangrast í eigin flokki. „Ég er bara nákvæmlega að leggja til það sem mér finnst skynsamlegt í þessu máli. Ég gef nákvæmlega ekkert fyrir þessa vitleysisumræðu sem búin er að vera í gangi undanfarna daga þar sem verið er að reyna að draga upp hetjur og skúrka.“ 
Fyrr meir gaf forysta ríkisstjórnarinnar ákveðnum armi VG nafnið Villikettir. Nú hefur hinn helmingurinn einnig fengið nafn frá sömu forystu og kallast Skúrkar.

 

.
Meðf. er Minnisblað til ríkisstjórnarinnar frá 12.06. 2012 og birt var í vikunni.
Minnisblaðið

"Ríkisstjórn Íslands
Sendandi: Efnahags- og viðskiptaráðuneytið
Dagsetning: 12.06.2012
Málsnúmer: EVR12060042
Bréfalykill: 8.11
Efni: Undanþága frá búsetuskilyrðum - Zongkung Europe ehf.
Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 134/1994 um einkahlutafélög er kveðið á um að a.m.k. einn stofnefnda félags
skuli hafa heimilisfesti hér á landi nema ráðherra veiti undanþágu þar frá. Þá segir í 2. mgr. 42. gr. að
minnst helmingur stjórnarmanna félags skuli vera búsettir hér á landi en ráðherra getur veitt frá því
undanþágur. Skilyrðin eiga þó ekki við um þá sem búsettir eru inna EES-svæðisins, ríkisborgara
OECD ríkja, ríkisborgara aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyinga.
Ráðuneytið hefur undanfarið haft til meðferðar beiðni félagsins Zongkun Europe ehf. um undanþágu
frá skilyrðum 3. gr. laga um einkahlutafélög þar sem félagið óskar eftir að tvö kínversk félög geti
stofnað Zhongkun Europe ehf. hér á landi. Þá óskar félagið jafnframt eftir undanþágu frá
búsetuskilyrðum 42. gr. laganna þannig að þrír Kínverjar geti setið í stjórn félagsins.
Ráðuneytið tók erindið til ítarlegrar skoðunar m.a. út frá því hvort að rétt væri að skilyrða
undanþáguna með einhverjum hætti. t.d. þannig að einn stjórnarmanna yrði að vera búsettur á Íslandi.
Í ljósi þeirra víðtæku undanþágu sem nú þegar er í gildi, líkt og rakið er hér að framan, taldi
ráðuneytið ekki mögulegt að setja sem skilyrði að stjórnarmaður yrði að hafa búsetu á Íslandi. Þá
þótti það ekki þjóna tilgangi að krefjast þess að stjórnarmaður væri búsettur innan þeirra svæða sem
nú þegar hafa almennar undanþágur. Við vinnslu málsins kom einnig í ljós að erfitt er að færa rök
fyrir því að gera búsetu á Íslandi að skilyrði sérstaklega í ljósi þess hve víðtæk almenn undanþága er
þar frá. Má í því sambandi t.d. benda á að íslenski félagarétturinn er byggður að mestu á dönskum
rétti en þar var að finna sambærilegt skilyrði um búsetu sem Danir hafa nú afnumið.
Þá hefur ráðuneytið í öllum tilvikum fallist á að veita undanþágur hafi verið eftir því sóst. Hafa
undanþágur m.a. verið veittar til kínverskra ríkisborgara og mikilvægt að gæta að jafnræði við
afgreiðslu mála enda hefði annars komið upp misræmi í afgreiðslu ráðuneytisins sem erfitt er að
rökstyðja enda er ekki að finna skýringar á búsetuskilyrðinu, þ.e. tilgangi þess, í lögunum sjálfum eða
lögskýringargögnum. Ætla má að tilgangur búsetuskilyrðisins hafi í upphafi verið sá að tryggja
einhverskonar tengsl við landið og að auðvelda samskipti við félagið en segja má að þau sjónarmið
samræmis illa núverandi lagaumhverfi í ljósi þess hversu víðtækar hinar almennu undanþágur frá
búsetuskilyrðinu eru.
Eftir yfirferð yfir málið var það niðurstaða ráðuneytisins að veita umræddu félagi undanþágu en þess
var sérstaklega getið að við afgreiðslu málsins hefði verið tekið tillit til þess að framkvæmdastjóri
félagsins er íslenskur."


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband