Forsetinn minnir á fullveldið og efna kosningaloforð

Forseti Íslands tók afdráttarlaust af skarið af sinni hálfu við setningu Alþingis að hætta beri aðildar og innlimunaferlinu að ESB og afturkalla umsóknina. Umsókn og aðild að ESB snýst um fullveldisframsal og því hæsta máta eðlilegt að forsetinn tjái hug sinn gagnvart þingi og þjóð. Það gerði hann reyndar líka rækilega fyrir síðustu forsetakosningar  enda má segja að  slagurinn milli tveggja aðalkeppinautanna hafi snúist um forseta með eða móti ESB aðild. Flokkarnir tveir sem nú mynda ríkisstjórn, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur höfðu báðir lýst því afdráttarlaust yfir að þeir myndu hætta umsókninni og fella niður allt það sem henni tilheyrði.

Skilaboðin frá þjóðinni skýr

 Hinn meginn armur pólitíska litrófsins, Samfylking, VG og Björt framtíð sögðust allir vilja halda áfram umsóknar-og innlimunarferlinu að ESB ef þeir kæmust áfram til valda. Kannski var þetta einmitt ein ástæðan fyrir ákvörðun forsetans um hverjum skyldi falin stjórnarmyndun og þá hafi verið rætt eftir hvaða megin línum ný ríkisstjórn ynni í þessu stóra máli.

Ég met það svo að í setningaræðu sinni hafi forsetinn verið að gera þjóðinni kunnugt að hann teldi afturköllun ESB umsóknarinnar eitt mikilvægasta málið til að ná sáttum innan þjóðarinnar og jafnframt var hann að segja núverandi stjórnarandstöðuflokkum að vegna ESB afstöðu sinnar hafi þeir ekki að hans mati komið til greina við ríkisstjórnarmyndun.  Forsetinn gat líka verið árétta samtöl og loforð núverandi ríkisstjórnarflokka um að standa undanbragðalaust við það  sem heitið var fyrir kosningar. Það væri hluti af því að endurvinna traust milli þings og þjóðar. 

ESB -Sambandssinnar fara á taugum

Auðvitað fara ESB- sambandssinnar á taugum yfir þessari innblöndun forsetans en ég er sammála Sigmundi Davíð að í fullveldis máli eins og ESB umsókn hefur forsetinn fullan rétt til að tjá skoðun sína enda var hann kosinn út á hana sem forseti

Hvað hefði gerst í ESB málum ef Samfylkingin, Björt framtíð og VG hefðu fengið meirihluta og myndað ríkisstjórn?

Ríkisstjórn yrði að skrifa upp á ESB- samninginn

Jú þá væri Ísland nú á fullu í áframhaldandi innlimunarferli að ESB.  Blekkingarleiknum um að „kíkja í pakkann“  ljúka samningum og kjósa svo væri haldið fram sem yfirskini. Innlimunarferlið sem sumir kalla samninga eru á forsendum ESB þeir ráð hraðanum.

 Samningum af hálfu ESB verður aðeins lokið við  íslensk stjórnvöld, ríkisstjórn sem vill ganga í ESB.  Ríkisstjórnin verður að skrifa upp á samninginn fyrir sitt leyti og mæla með samþykkt hans. Það er hluti af því að ljúka samningnum. Þetta hefur verið ljóst frá byrjun. 

Forsetinn og fullveldið

Ég var ekki hrifinn af útrásardekri forsetans á sínum tíma. En framlag hans síðustu misseri í einörðum málflutningi fyrir fullveldi og sjálfsákvörðunarrétti Íslendinga hefur skipt miklu máli. Ég  tek undir með forseta Íslands um að umsóknina að ESB á að afturkalla strax og refjalaust.

Rétt er að minna á í hverju vinnan við  aðildarumsókn að ESB  er fólgin:

. Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu – sem fylla 90 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið.“ [1] “First, it is important to underline that the term "negotiation" can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules ... are not negotiable.” (Sjá: http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/enl-understand_en.pdf).   


Birgir Ármannsson nýr formaður Utanríkismálanefndar

Sannarlega erum við, andstæðingar inngöngu í ESB öruggari að hafa Birgi Ármannsson sem formann utanríkismálanefndar en Árna Þór Sigurðsson, þegar kemur að ESB – málum.  Ég hef reynt Birgi að því að vera heiðarlegur og traustur í þeim málum og einlægan stuðningsmann þess að innlimunarferlinu  í ESB verði hætt og umsóknin kölluð til baka.  Engin hálfvelgja þar gengur, enda er betra að vinna í samskiptum  við önnur ríki á hreinu borði.  Fyrirfram þá treysti ég  Birgi Ármannssyni vel sem formanni utanríkismálanefndar. En hjá honum eins og öðrum verða það verkin sem tala.

Sammála forseta Íslands við þingsetninguna

Ummæli forseta Íslands við þingsetningu í gær um  heilindin að baki umsóknar Íslands að ESB hafa vakið umræðu. En forsetinn er sömu skoðunar og ég að mikilvægt sé að  draga umsóknina með afdráttarlausum hætti strax til baka ekki síst til að koma heiðarlega fram gagnvart ESB ríkjunum. Við erum ekkert á leiðina inn í ESB- sem betur fer. Sambandssinnar hafa beðið ósigur sem á að fylgja eftir svo trúverðugt sé.

Umsóknin að ESB byggð á blekkingum

Ég sem ráðherra hitti fjölmarga forystumenn ESB ríkja sem voru forviða yfir því að umsókn um aðild  skyldi vera send án þess að hún nyti óskoraðs stuðnings allrar ríkisstjórnar. Annar ríkisstjórnarflokkurinn þættist vera á móti aðild og ætlaði aðeins að blekkja sjálfan sig og aðra með því  að „kíkja“ í pakkann. Ekkert slíkt er til í orðasafni ESB.  Þeir  forsvarsmenn sem ég hitti hjá ESB voru ekki hrifnir af því að taka þátt slíku „bjölluati“ og mér fannst eðlilegt að þeir litu á slíka  framkomu  sem  óheiðarlega. Margir höfðu ekki hugmynd um hinar veiku pólitísku stoðir umsóknarinnar á Íslandi.

Sigur ESB - andstæðinga 

  Á móti voru þeirra fullvissaðir um að þetta væri bara einn ráðherra sem væri til vandræða og eins og ýjað var að í framvinduskýrslu  um  aðildarvinnu  að ESB. Þar var jafnframt fullyrt að aðild að ESB  nyti æ meiri stuðnings meðal almennings á Íslandi,  þó svo raunin væri allt önnur. Og þegar mér var skipt út sem ráðherra   sjávarútvegs og landbúnaðarmála vegna andstöðu minnar við innlimunarferlið  og nýr tók við,  var því fagnað sérstaklega í Brussel.  Með þeim ráðherraskiptum var þess vænst í Brussel að umsóknin væri nú  komin á beinu brautina.  Sem betur fer hafði áður tekist að setja þau skilyrði bæði í landbúnaði, sjávarútvegi og dýraheilbrigðismálum  meðan ég var ráðherra, sem  ekki var svo auðgert að ganga fram hjá  þó reynt væri.

Makrílveiðarnar skiptu sköpum

Réttmæt ákvörðun  um makrílveiðarnar var afar þýðingarmikil bæði fyrir þjóðarhag og einnig til að standa á strandríkjarétti Íslendinga.  Mér finnst gott að nýr ráðherra sjávarútvegsmála  er sömu skoðunar og ég,  að ógerlegt sé að semja sem fullvalda ríki  um hlutdeild okkar í makríl  við ESB  samtímis því að vera í aðildarviðræðum og innlimunarferli  í ESB.  Það gengur einfaldlega ekki upp. Auk þess hljóta Norðmenn  að vera tregir í makrílviðræðum við þær aðstæður þar sem hlutdeild Íslendinga rynni beint  inn í heildarkvóta ESB við inngöngu Íslands í sambandið.

 ESB- umsóknin verði afturkölluð undanbragðalaust

Það er afar mikilvægt að afturköllun umsóknarinnar að ESB verði gerð með afdráttarlausum hætti  og vinna við aðlögun og innlimun Íslands í ESB verði lögð af. Þessu hafa núverandi ríkisstjórnarflokkar lofað og verða að standa við strax.

Ekki má setja traust sitt á eitthvert "svikalogn" í þeim efnum sem sambandssinnar reyna nú að læða inn í umræðuna.

Það var Alþingi sem samþykkti að senda umsóknina og það er Alþingi sem verður að afturkalla hana.

Þjóðaratkvæðagreiðsla sem er um að óska eftir inngöngu í ESB er svo sjálfstætt mál.

   

Úr sögu "vinstri" stjórnar

Það er mjög fróðlegt að fylgjast með skrifum fyrrum forystumanna Samfylkingarinnar um það sem miður fór í síðustu ríkisstjórn, og hverjum það er að kenna og ríkisstjórnin var nánast verklaus frá árslokum 2011, En allt þetta var undanfari að því hruni sem flokkurinn varð fyrir í síðustu alþingiskosningum.
Sighvatur Björgvinsson fyrrverandi ráðherra Alþýðuflokksins rekur sínar skýringar í grein í DV í dag.
Áður hafa bæði Kristrún Heimisdóttir fyrrum aðstoðakona Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttir og Ingibjörg Sólrún sjálf komið inn á þessi sömu mál á heimasíðum sínum. Þar sem ég er nefndur til sem einn af örlagavöldum í lánleysi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur einkum síðustu tvö árin finnst mér við hæfi að fara í smá söguskoðun. Miklar væntingar voru bundnar við þessa stjórn í upphafi. Hún stóð frammi fyrir alvarlegum verkefnum en líka gríðarmiklum tækifærum. Ég sem aðrir vorum óþreyjufullir að fá að taka til hendi.

ESB - lík í farteskinu

ESB -umsóknin var fullkomið lík í farteski ríkisstjórnarinnar frá fyrsta degi. Fyrst og fremst var ESB umsókn ekki kosningamál vorið 2009 og alls ekki það sem lá brýnast fyrir gagnvart kjósendum eftir hrun . Að gera ESB umsókn að meginmáli ríkisstjórnarinnar var fráleitt, ekki síst þegar ljóst var í upphafi að umsóknin naut ekki meirihlutastuðnings ríkisstjórnarflokkanna. Henni var hnoðað í gegnum þingið sem einskonar þingmannamáli, þó flutt af utanríkisráðherra. ESB- sinnarnir treystu á stuðning þingmanna úr öðrum flokkum. Þá lýstu allmargir þingmenn yfir andstöðu sinni við aðild þótt þeir styddu tillöguna. Sá tvískinnungur lýsti þeim veruleika að viðkomandi þingmenn gerðu sér ekki grein fyrir hvers eðlis umsókn er. Hún er ekki könnunarviðræður heldur umsókn um inngöngu . Sumir halda enn í þennan blekkingaleik sér til friðþægingar. Aðrir þingmenn lýstu því yfir að innan tveggja ára ætti að taka stöðuna og halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort menn vildu ganga í ESB eða ekki. Ekkert af þessu hefur gengið eftir.

Í nóvember 2011 var ljóst að ESB myndi ekki samþykkja áframhaldandi samnings- og innlimunarferli nema að Íslensk stjórnvöld gæfu út skuldbindandi yfirlýsingu um nánast fullkomna eftirgjöf í landbúnaðarmálum, dýraheilbrigðismálum og sjávarútvegsmálum. Gefin væri út tímasett áætlun um aðlögun og upptöku laga og reglna ESB sem yrði að vera lokið eða sæist fyrir endann á áður en viðkomandi samningskafla væri lokað. Ég sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gat alls ekki fallist á þessar kröfur ESB og taldi það reyndar ekki samræmast samþykkt og fyrirvörum Alþingis. Ákvörðun mín um makrílkvóta Íslendinga var síðan einn dropinn sem fyllti mælinn. Deilt var um fyrirfram eftirgjöf við ESB og ég gaf mig ekki en stóð á rétti Íslendinga..

Lítill áhugi á að breyta kvótakerfinu

Mér var búið að vera lengi ljóst að forystumenn ríkisstjórnarinnar höfðu enga sérstakan áhuga á að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þar á bæ var fyrst og fremst hugsað um stórhækkun veiðigjalds og að ná tekjum í ríkissjóð. Ég var á öndverðum meiði og lagði megináherslu á kerfisbreytingu og þá með hagsmuni sjávarbyggðanna í huga og að sporna gegn enn frekari samþjöppun. Maður gerir ekki mikla kerfisbreytingu samtímis og að leggja á himinhátt veiðigjald.

Ég er sammála Sighvati Björgvinssyni í því að Guðbjartsnefndin svokallaða sem skipuð var vorið 2009 í upphafi ríkisstórnarinnar um endurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar, var fyrirfram ráðslag til að koma í veg fyrir uppstokkun fiskveiðikerfisins. Það var krafa Jóhönnu og Samfylkingarinnar við ríkisstjórnarmyndunina 2009 að þessi nefnd væri skipuð og undir formennsku Samfylkingarinnar. Ég var ekki sammála þeirri kröfu, en hún var studd af formanni VG. Nefndin fékk víðtækt hlutverk og engar breytingar mátti gera í sjávarútvegsmálum meðan hún væri að störfum.

Fyrst átti Guðbjartsnefndin aðeins að starfa til haustsins 2009 en raunin varð sú að hún lauk ekki störfum fyrr en ári seinna eða um 1.sept 2010. Ég var ítrekað kominn á fremsta hlunn með að leysa nefndina upp, en þá kom skjálftahrina frá forystumönnum ríkisstjórnarinnar.

Stöðugleikasamningurinn mistök

Í stöðugleika samningi ríkisstjórnarinnar og Samtaka atvinnulífsins var m.a. kveðið á um að engar grundvallarbreytingar mætti gera á fiskveiðistjórnunarkerfinu næstu tvö árin þ.e. gildistíma samningsins og auk þess mætti ekkert gera í þeim breytingum, fyrrr en Guðbjartsnefndin hefði lokið störfum. Ég lét það þó ekki hindra mig að bera fram tillögur um tímabundnar aðgerðir sem skiptu miklu máli og eru sumar orðnar varanlegar.

Stöðugleikasamningurinn sumarið 2009 var að mínu mati ein stærstu mistök fráfarandi ríkisstjórnar enda var tekist á um hann í ríkisstjórn og þar var hann aldrei formlega samþykktur þó svo formennirnir hafi skrifað upp á hann. En hann batt hendur ríkisstjórnar, sem var samt kosin til að gera breytingar. Stöðugleikasamningurinn átti að tryggja óbreytt ástand á sömu forsendum og giltu fyrir hrun, þó svo þær væru í raun brostnar. Samningurinn batt ríkisstjórnina í fiskveiðisstjórnun, í endurskipan fjármálakerfisins og efnahagsmálum og á fjölmörgum öðrum sviðum sem að mínu viti gengu gegn grundvallarstefnumiðum ríkisstjórnarflokkanna.

Í viðjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Að hinu leytinu var ríkisstjórnin bundin af skilyrðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn m.a. um að hlífa erlendum kröfuhöfum í íslensku fjármálastofnunum. Þar ofan á komu svo samningarnir um Icesave, sem hluti af þessum pakka og ESB umsóknin sem alltaf átti að hafa forgang í samskiptum við ESB ríkin. Tillaga Guðbjartsnefndarinnar um langtímasamning við útgerðirnar um kvóta var mér aldrei að skapi og þýddi í raun að verið var að festa núverandi kvótakerfi í sessi enn frekar en er með núgildandi lögum.

En samkvæmt samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar átti að semja frumvarp á grundvelli tillagna Guðbjartsnefndarinnar. Sjávarútvegsráðherra fékk þó ekki frjálsar hendur með það heldur var sett til höfuðs honum nefnd þingmanna úr flokkunum og þegar svo hún lauk störfum í mars 2011 var sett á ráðherranefnd undir formennsku Jóhönnu Sigurðardóttur sem skilaði svo því frumvarpi sem lagt var fram í maí 2011. Vissulega var það frumvarp um margt gallað en reynt hafði verið að taka tillit til mismunandi sjónarmiða flokkanna og einstakra þingmanna þeirra, en halda samt megináformum um endurbætur og breytingar.

Byggðasjónarmið og markaðssjónarmið

Samfylkingin vilda ganga mjög langt í markaðsvæðingu aflaheimilda. Ég og fleiri vildum tryggja stöðu og rétt sjávarbyggðanna auk þess að setja aukinni samþjöppun skýrar skorður. Skemmst er frá því að segja að jafnvel þeir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem höfðu mest haft við að koma einstökum óskum sínum að, hlupu svo frá málinu og þóttust ekki kannast við krógann.

Haustið 2011, frá því í október og fram í nóvember, hafði svo ég loksins sem ráðherra málið hjá mér, vann úr umsögnum og kynnti svo drög að nýju frumvarpi sem grundvöll og jafnframt voru þau drög sett á upplýsingavef ráðuneytisins til kynningar. Þar var fyrst og fremst var tekið á kerfisbreytingunni, treyst stöðu sjávarbyggðanna og spornað gegn aukinni samþjöppun.

Frá árslokum 2011 hefur síðan ekkert gerst annað en að lagt var á sérstakt veiðigjald sem verður trúlega afnumið áður en það kemur að fullu til framkvæmda, en enginn sér enn til botns í því hvernig á að reikna það út.

Þær breytingar sem náðust fram voru gerðar framhjá Guðbjartsnefndinni og stöðugleikasáttmálanum eins og skötusels málið fræga, sem hleypti öllu upp. Þar var í raun kynnt hugmynd, fyrirmynd að heildar útfærslu sem samræmdist stefnu beggja flokkanna.

Baráttan um "skötuselsákvæðið" var líka hatrömm, svikabrigsl og uppsögn stöðugleikasáttmálans og verkföllum og vinnustöðvunum hótað. Formenn ríkisstjórnarflokkanna gengu sérstaklega á fund meirihluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, til að fá hana til að stöðva eða afturkalla frumvarpið fyrir lokaafgreiðslu í þinginu. Sem betur fór stóðst nefndin álagið. Það sýndi í raun huga formannana til breytinga í verki.Skötuselsákvæðið er svo ekki inní nýjasta frumvarpi sjávarútvegsráðherra sem dagaði uppi.

Rekið áfram á þráanum

Árni Páll Árnason hafði sem efnahags- og viðskiptaráðherra sýnt af sér sjálfstæði og einurð í starfi m.a. í viðbrögðum gagnvart Icesave, uppgjöri og lausn á skuldum heimilanna, í efnahagsmálum og uppgjöri og eftirliti með bönkunum svo nokkuð sé nefnt. En verksviðið skaraðist á köflum við svið fjármálaráðherra og frumkvæði Árna ekki alltaf vel séð. Þótt ég væri oft ósamála Árna Páli og finnst hann alltof hægrisinnaður og hallur undir ESB, virti ég hann fyrir frumkvæðistilburði sem fóru óneitanlega mjög þverrandi hjá forystu ríkistjórnarinnar.Og menn vildu þar heldur verja tímanum í hrein þrákelknismál eins og stjórnarskrármálið, uppstokkun ráðuneyta, sem öll orka og stífni var nú sett í.

Undir árslok 2011 lá einnig ljóst fyrir að innan ríkisstjórnarflokkanna var ekki meirihluti fyrir mörgum veigamiklum þáttum stjórnarskrárfrumvarpsins og andstaða var við þann ferill sem málið hafði lent í.

Þegar svo forystumenn ríkisstjórnarflokkanna ákváðu skömmu fyrir jól 2011 að keyra áfram á  þráanum og víkja tveimur ráðherrum úr ríkisstjórn, sem þeim var ekki að skapi, var ljóst að ekki voru áform um að fara yfir stöðu mála, styrkja innviðina, endurskoða samstarfið og meta framhaldið. Vg hafði þegar misst þingmenn vegna ágreinings.

Stjórnmál snúast um traust

Forystumenn ríkisstjórnarinnar völdu að semja við þingmenn Hreyfingarinnar í árslok 2011 um stuðning eða hlutleysi gegn því að halda áfram stjórnarskrármálinu. Þar með var forysta ríkisstjórnarinnar að innsigla uppgjöf sína. Hefðu ríkisstjórnarflokkarnir þá í þess stað farið málefnalega ofan í stöðuna og samstarfið og framtíð þess og ákveðið framhaldið að tekinni slíkri umræðu, hefðu hlutirnir getað þróast á allt á annan hátt innan beggja flokkanna. Flestum var vel ljóst þá, að formenn beggja ríkisstjórnarflokkanna voru að missa tiltrú og traust og tapað tengslum við almenning og grasrót flokkanna, Þau hefðu þá átt að segja af sér bæði og hleypa öðrum að. Ríkisstjórnsamstarfið hafði um of byggst á einkasambandi þeirra Steingríms og Jóhönnu. Endalok stjórnarinnar voru nátengd stöðu þessarra tveggja.

Hefði getað farið öðruvísi

Hefði Árni Páll orðið formaður haustið 2011, Steingrímur látið af formennsku þá hjá VG einnig og ríkisstjórnarsamstarfið endurskoðað væru þessir flokkar trúlega í allt annarri stöðu. ESB andstæðingar innan Vg, sem vildu aðeins " kíkja" í pakkann og hætta innan tveggja ára eins og lofað var gætu þá haldið haus. Einnig ESB -sinnar Samfylkingarinnar sem gætu sagt, að nú væru kaflaskil, hver vill arka veginn með okkur áfram inn í ESB?

Það sem skrif Kristrúnar, Ingibjargar Sólrúnar, Sighvats Björgvinssonar eru að segja og flestie höfðu fyrir löngu gert sér grein fyrir var, að Jóhanna  sem forsætisráðherra var  löngu hætt að gera sér grein fyrir til hvers hún væri forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar. Hún  eyddi allri orku sinni og „samningslipurð“  í að kalla fram og  elta "villiketti" og leita sér að andstæðingum til að stilla upp gegn sér og til að siga liði sínu á.

Það hefur aldrei þótt farsælt eða mjög gáfulegt að hengja bakara fyrir smið

Ég get því um margt tekið undir með þeim Kristrúnu, Ingibjörgu og Sighvati í gagnrýni þeirra á umræðu og atburðarrásina innan þeirra eigin flokks og ríkisstjórnarinnar. Þótt ég sé þeim ekki málefnalega sammála, hefur hið sama gerst innan Vinstri grænna í ríkisstjórnarsamstarfinu. Áður en yfir lauk höfðu 5 þingmenn yfirgefið þingflokk Vg og báðir formenn ríkisstjórnarflokkanna sagt af sér..

Það átti að endurskoða stjórnarsamstarfið haustið  2011 og  slíta því þá, ef ekki næðist málefnalegt samstarf. Þá hefði átt að skipta um forystu beggja flokkanna, frekar en hengslast tvö ár enn verklítil og með málefnin og flokkana í upplausn.

Nú verður fróðlegt að sjá hvað framtíðin ber í skauti sínu fyrir þessa tvo flokka en oft endurtekur sagan sig.

 



Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband