Mánudagur, 23. desember 2013
Uppgjöf ráðherra í makríldeilunni
Fréttir Stöðvar tvö í kvöld hermdu að sjávarútvegsráðherra hefði bognað fyrir hótunum ESB og fallist á aðeins 11,9% hlut í makílveiðunum sem er um 30% lægri hlutdeild en við nú höfum tekið okkur. Jafngildir þetta að Íslendingar gefa eftir um 50-60 þús tonn af makríl. Sagt var í fréttinni að utanríkisráðuneytið hafi í upphafi deilunnar verið reiðubúið að fallast á 12%. Það má vera að einhver í ESB- liði utanríkisráðuneytisins hafi fundist það nóg. Hið rétta er hinsvegar að það er Sjávarútvegsráðuneytið fer með þessa samninga og ég sem ráðherra setti í upphafi samninga fram kröfuna um lágmarks 16-17% hlutdeild af heildarveiði í makríl. Og það höfum við veitt innan íslensku fiskveiðilögsögunnar síðustu ár og talið eðlilegt. Þegar ESB bauð 3% neitaði sambandið jafnframt að viðurkenna að nokkur makríll væri við Íslandstrendur. Óformlegt samkomulag um makrílinn
Norðmenn og Færeyingar standa utan við þetta samkomulag og hlutur Grænlendinga er ekki nefndur. Öðru vísi mér áður brá þegar Framsókn gagnrýndi Steingrím J. hart fyrir eftirgjöf við ESB í makrílnum en falla nú sjálfir enn lengra í duftið.
1. ESB hefur ekkert einkaumboð til að "vila og díla" í samningum strandríkjanna í makríl, þar eru allar hlutaðeigandi þjóðir á jafnréttisgrunni. Við gætum með sama hætti boðið ESB 12%.
2. Engin rök eru fyrir því að Íslendinga séu að gefa svo mikið eftir úr veiðum af stofni sem er í örum vexti og stöðugt að færa sig norðurum og vestur fyrir Ísland og inn á alla firði og víkur við ströndina.
3. Mun nær væri að Íslendingar gæfu nú út reglugerð um upphafskvóta Íslendinga í makríl 160-170 þús tonn á næsta ári eða um 17% af áætlaðri heildarveiði.
Íslendingar eiga að standa með Færeyingum og ásamt Grænlendingum eigum við að taka höndum saman og semja innbyrðis um magn og gagnkvæmar veiðiheimildir í makríl og koma sameinaðir að borði í samningum við ESB og Norðmenn. Það væri manndómsbragur að því af okkur hálfu og var minn vilji sem ráðherra.
4. ESB hefur beitt hótunum og ólögmætum yfirgangi bæði gagnvart Íslendingum og beitt Færeyinga viðskiptaþvingunum. ESB sækist eftir viðurkenningu sem drottnunarþjóð á Norður-Atlantshafi. Með því að beygja sig fyrir kröfum þeirra er verið að gangast undir það ok að svo sé.
Eftirgjöf íslenskra stjórnvalda í makríl gangvart ESB veldur miklum vonbrigðum og veldur þjóðarbúinu tjóni upp á fleiri milljarða króna. Sýnir þessi undanlátssemi gagnvart ESB veika og tvístígandi fætur ríkisstjórnarinnar í samskiptum við ESB. Verður að vona að Færeyingar standi á sínum hlut og komi í veg fyrir að slíkt samkomulag nái fram að ganga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.12.2013 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 15. desember 2013
Sammála Stefáni Ólafssyni - þvílík lágkúra
Að íslensk stjórnvöld fari í málshöfðun við ESB útaf vanefndum í IPA- styrkjunum er alveg ótrúleg lágkúra og tvískinnungsháttur. Sömu stjórnvöld, sömu stjórnmálamenn lofuðu fyrir kosningar að afturkalla umsókn að ESB. Þau loforð áttu stjórnvöld að efna strax á sumarþingi og þá væri þessu máli lokið. Eftir að umsóknin væri út úr heiminum gátu þau einbeitt sér að auknum samskiptum við ESB á heiðarlegum tvíhliða grunni með hreint borð. Ef þessu heldur fram er að verða lítill munur í þessu máli á undirlægjuhættinum hjá þessari ríkisstjórn og hinni sem var undir forystu Samfylkingarinnar og ESB-sinnanna í VG. Bragð er að þegar Samfylkingarmanninum og Sambandssinnanum Stefáni Ólafssyni blöskrar: Eru engin takmörk fyrir því hversu lágkúrulegir við Íslendingar eigum að vera?
Að fara í máslsókn við ESB út af styrkjum sem aldrei átti að þiggja og núverandi stjórnarflokkar voru andvígir sýnir ótrúlegan skort á dómgreind og sjálfsvirðingu. Bjóst einhver við að ESB myndi standa við þá samninga ef umsóknin væri afturkölluð?. Forsendur styrkjanna voru þar með brostnar. Og var það vilji stjórnvalda að þessir IPA styrkir héldu áfram vitandi hver tilgangur þeirra var? Skoða réttarstöðu vegna IPA-styrkja
Gildir þar einu hvort ESB sé að brjóta þar einhverja ímyndaða samninga eða ekki. Forsvarsmenn ESB hafa lýst því mjög ákveðið, sem við vissum fyrir að IPA styrkir eru aðeins til að undirbúa umsóknar land til inngöngu í ESB. Styrkirnir eru hluti af innlimunarferlinu og veittir á þeim forsendum, sama hver verkefnin eru, góð eða slæm. Esb er í raun búin að slíta þessum "viðræðum" og segir: "hættum þessari vitleysu"
Utanríkisráðherra á bara einn kost
Utanríkisráðherra á nú þann eina kost að sýna myndugleik og standa við stefnu og kosningaloforð flokks sín og leggja strax fyrir þingið tillögu um afturköllun umsóknarinnar.
Spor fyrrverandi stjórnarflokka og svikanna hjá forystu VG í ESB - málum ættu að hræða núverandi stjórnarflokka til vits.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 12. desember 2013
Blóðtaka fyrir Borgfirðinga
Að leggja niður Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og láta hann hverfa inn í Háskóla Íslands, yrði gríðarleg blóðtaka fyrir Borgarfjarðarhérað, allt Vesturland, atvinnuvegi og búsetu hinna dreifðu byggða, landið sem heild. Hvanneyri í Borgarfirði hefur verið með sæmd eitt öflugasta skólasetur landsins í hátt á annaðhundrað ár. Þau skammsýnu áform um að leggja niður Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri ganga jafnframt í berhögg við yfirlýsta stefnu núverandi ríkisstjórnar í landsbyggðarmálum.
Þingmenn kjördæmisins sem ég þekki lofuðu því fyrir kosningar að standa vörð um sjálfstæði háskólanna í kjördæminu, Hvanneyri, Bifröst og Hóla í Hjaltadal. Trúi ég ekki á annað fyrr en á reynir að staðið verði við þau gefin loforð enda ekkert vit í öðru.
Íbúar Borgarfjarðar bregðast hart við
Á fjölmennum íbúafundi Borgfirðinga nýverið var samþykkt áskorun á stjórnvöld: Fundurinn varar eindregið við þeim hugmyndum að sameina háskóla á landsbyggðinni háskólum á höfuðborgarsvæðinu og auka þannig miðstýringu háskólanáms hér á landi. Tryggja þarf rekstrargrundvöll og sjálfstæði Háskólans á Bifröst og Landbúnaðarháskóla Íslands.
Hollvinasamtök Hvanneyrar hafa ályktað í sömu veru. Fólk skilur alvöruna, sér hvað er í húfi.
Háskólaráð LbhÍ hefur lagt áherslu á samstarf en ekki á samruna og að starfsemin verði byggð upp á Hvanneyri.
Nú er það ekki síst héraðsins að fylgja málum eftir og snúa því á heillavænlegri brautir.
Ég hafnaði þessum tillögum í minni ráðherratíð
Tillögur um að leggja niður Landbúnaðarháskólann komu upp í ráðherratíð minni, en ég hafnaði þeim algjörlega. Ég lýsti þeirri afstöðu sem ráðherra að Landbúnaðarháskóli Íslands ætti að vera sjálfstæður og höfuðstöðvar hans að vera á Hvanneyri. Sama gilti einnig um Hóla. Naut ég í þeim efnum afdráttarlauss stuðnings forystumanna Bændasamtaka Íslands og fjölmargra annarra á þessum sviðum. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að rannsóknir og kennsla LbhÍ líði fyrir það að vera í sjálfstæðum háskóla síður en svo.
Í nýlegri alþjóðlegri úttekt á gæðum í starfi landbúnaðarháskólanna er bent á að sérstaðan, náin tengsl við atvinnulífið og nærumhverfið sé styrkur skólanna. Sá styrkur getur glatast við að þeir hverfi inn í aðra fjarlæga stofnun.
Útibúin munu deyja
Oft er sem stjórnsýslunni vaxi í augum smæðin og fámennið utan Reykjavíkur og sú skoðun virðist of almenn að engar almenningsstofnanir geti þrifist fyrir ofan Ártúnsbrekkuna.
Sameining og aukin miðstýring eru engin töfraorð. Það getur falið í sér ýmsa kosti að vera "smár og knár. Auk þess eiga smæð og fámenni við Ísland allt.
Það er tálsýn og ekki byggt á heilindum að svipta skólann sjálfstæði en lofa svo á móti einhverri tiltekinni starfsemi um einhver ár. Slík loforð hefur enginn á valdi sínu og er hreinn blekkingarleikur. Kerfislæg miðstýring fjarlægra höfuðstöðva tekur þá öll völd.
Missi Landbúnaðarháskólinn sjálfstæðið munu tengslin við héraðið, atvinnuvegina og landsbyggðina dofna og þynnast út.
Í umræðunni um Kennaraháskóla Íslands 2007 sagði Jón Torfi Jónasson prófessor og fyrrum sviðsforseti við Menntavísindasvið Háskóla Íslands:
Þess vegna hef ég talið skynsamlegt að á Íslandi væru fjölmargir háskólar, hver með sitt reglukerfi, vegna þess hve regluveldin eru ráðrík. Ég tel þá stefnu stjórnvalda, sem mér sýnist birtast í þessum lögum, að setja alla ríkisháskólana inn í sama reglukerfið með sameiningu mjög misráðna. Sömuleiðis tel ég ásókn HÍ í stærri köku sem fæst með sameiningu stofnana ekki spegla skynsamlega framtíðarsýn um uppbyggingu fjölbreyttrar háskólamenntunar á Íslandi.
Ég er sama sinnis og þessi virti prófessor við Háskóla Íslands
Háskólar landsbyggðarinnar sjálfstæði og samvinna er þeirra auðlind
Það er mjög mikilvægt að hafa í huga styrkinn sem sjálfstæðið gefur. Útibúin, fjarlægustu deildirnar munu ávallt mæta afgangi í fjölskyldu annarra stærri stofnana, sem allar hafa fastar hugmyndir um eiginn vöxt og viðgang. Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri hefur byggt upp víðtækt samstarf við erlendar menntastofnanir, verið í forystu fyrir auknu samstarfi meðal háskólanna í landinu m.a. í gegnum Net opinberra háskóla sem er hægt að efla enn meir.
Landsbyggðarháskólarnir eru meira en tölur á excelskjali, þeir eru heil samfélög með blómlega byggð, mikla þekkingu og öflugt atvinnu- og menningarlíf að baki sér. Með því að leggja niður Hvanneyri, Hóla eða Bifröst sem sjálfstæð menntasetur munu heilu samfélögin og við öll verða miklu mun fátækari eftir. Látum það ekki gerast.
Grípum til varnar og sóknar fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 7. desember 2013
Sáttin um Ríkisútvarpið ! - útvarp allra landsmanna
Það er alveg hárrétt að sáttin um Ríkisútvarpið var rofin með hlutavélagavæðingu þess, Ríkisútvarpið ohf. Í beinu framhaldi af því var svæðisútvörpunum lokað á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum. Þannig var skorin á bein tengsl Ríkisútvarpsins við landið allt og dagskráin varð sjálfhverfari og snerist upp í samkeppni við aðra miðla á þröngu sviði.
Sátt um Ríkisútvarp í almannaeigu var ekki rofin með niðurskurðinum nú. Sáttin var rofin með ohf-væðingunni svokölluðu. Þá var tekin upp sú grímulausa stefna að um fyrirtæki í samkeppnisrekstri væri að ræða. Þess vegna borgar sig að segja upp dagskrárgerðarfólki á Rás 1 en hrófla ekki við markaðs- eða auglýsingadeildinni. Og þess vegna meta stjórnendur stofnunarinnar það svo að yfirboð á boltaleikjamótum úti í heimi séu fyllilega réttlætanleg. (Mikael Torfason, Fréttablaðið 7.des. 2013 )
Ofan í kaupið var svo hætt að kynna sig sem Ríkisútvarp, útvarp allra landsmanna, heldur notuð skammstöfunin Rúv, sem smám saman enginn veit fyrir hvað stendur.
Það átti að verða eitt fyrsta verk ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri Grænna að afnema hlutafélagsformið á útvarpinu og breyta því aftur í Ríkisútvarp allra landsmanna. En til þess höfðu þeir sem réðu ferð þar á bæ hvorki kjark, vilja eða þor. Ég lagði það ítrekað til og um það var flutt tillaga m.a. af Atla Gíslasyni og fleirum að hf. væri tekið af útvarpinu aftur, en forystumenn ríkisstjórnaflokkanna, Vg og Samfylkingar brast vilja til þess. Ríkisútvarpið á að færa til fyrra forms og það á að vera þjónustustofnun en ekki eins og hvert annað fyrirtæki á samkeppnismarkaði.
Að því leyti er ég sammála ritstjóra Fréttablaðsins:
Íslendingar hafa ekkert með Ríkisútvarp Páls Magnússonar að gera. Við þurfum öflugt Ríkisútvarp sem rekur sjónvarps- og útvarpsstöð sem lætur ekki afvegaleiðast og blindast í keppni á auglýsingamarkaði. Gott Ríkisútvarp á að losa sig við markaðs- og auglýsingadeildir og sinna því sem einkareknar stöðvar geta ekki sinnt. Ríkisútvarp er ekki fyrirtæki heldur stofnun sem á ekki að vera í samkeppnisrekstri.
Það þarf að endurvinna stöðu og traust og hlutverk Ríkisútvarpsins, sem þjónustustofnun allra landsmanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 6. desember 2013
Mannlífsmyndir Vigfúsar á Laxamýri
Einkar hugljúf bók barst mér í hendur á dögunum, smásögur og mannlífsmyndir Vigfúsar Bjarna Jónssonar, fyrrverandi alþingismanns og bónda á Laxamýri í Aðaldal. Vigfús er nú á 85. aldursári en þetta er fyrsta bók hans. Vonandi endist þessum góða sagnamanni aldur og þrek til að miðla okkur af brunni sínum í fleiri bókum.
Vigfús er landsþekktur félagsmálamaður og höfðingsbóndi á bökkum Laxár í Aðaldal. Hann er mikill náttúruunnandi og frásagnargáfan honum eins og ættinni allri í blóð borin. Stíllinn er léttur og kímin, við það að vera ljóðrænn á köflum. Sögusviðið er nokkuð breitt en þó allt honum nákunnugt og mannlífsmyndirnar verða lesandanum því mjög lifandi.
Bókin sem er 155 blaðsíðna kilja hefur að geyma 14 smásögur og sagnir : Vitnisburður hringsins sem fannst á beinagrind af konu í klettaskúta lengst frammi á heiðum í nágrenni forns heiðarbýlis, fjarri núverandi byggðum kallar fram aldargamla, tilfinninga þrungna gleði- og sorgarsögu tveggja kynslóða, mæðgna þar sem dóttirin fórnaði að lokum lífinu fyrir heiður sinn og fjölskyldunnar. Í kirkjubókinni stendur aðeins: Arna Árnadóttir heimilisföst í foreldrahúsum að Selási í Uppdalasókn, hvarf aðfaranótt hins 28. maí 1890 þá tæpra 19 ára.
Lífið á fámennum heiðarbýlum fjarri alfarleiðum gat bæði verið hart og svikult.
Fallegar finnst mér ástarsögurnar Meðlagið og Endurfundir en þar nýtur stíll höfundarins sér best eins og ég þekki Vigfús, leiftrandi kímni en jafnframt tilfinningaríkan og rómantískan mann sem elskar mannlífið allt í sinni fjölbreyttu mynd. - Lestur er sögu ríkari.
Bókasmiðjan á Selfossi gefur bókina út. Hafi hún og höfundur þökk fyrir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 4. desember 2013
ESB endursendir aðildarumsókn Íslands
Með ákvörðun ESB um að afturkalla alla IPA- styrki til Íslands er sambandið í raun að hóta því að senda umsóknina aftur til síns heima. Hættir við einhliða og án fyrirvara .
Sú ákvörðun væri fullkomlega rökrétt af þeirra hálfu. ESB er löngu orðið það ljóst að umsóknin var send þeim á fölskum forsendum, hvorki lá fyrir meirihlutavilji þjóðarinnar fyrir aðild né eindreginn stuðningur allrar ríkisstjórnarinnar við umsóknina á sínum tíma né heldur nú. Umsóknin í raun send til baka
Legið hefur í loftinu að ESB myndi taka frumkvæðið og slíta formlega umsóknar- og aðlögunarferli Íslands að sambandinu. Enda hefur stækkunarstjórinn, Stefan Fule ítrekað sagt að ekki sé sótt um aðild nema til þess að komast inn. Það er ekki í neinn pakka að kíkja, aðeins að uppfylla skilyrði, lög og reglur ESB. IPA-styrkjunum er eingöngu ætlað það hlutverk að styðja breytingar og undirbúa umsóknarríki til inngöngu í ESB í innlimunarferlinu: Instrument for Pre-Accession Assistance (IPA) - Europa
"Bjölluatið" í Brussel gat aldrei gengið upp
Talsmenn ESB hafa aldrei farið dult með tilgang þessara IPA-styrkja þó svo ýmsir Sambandssinnar hér heima hafi haldið öðru fram. Nú hefur ESB sjálft tekið af öll tvímæli með það.
Þeir sem heldu að bæði væri hægt að dansa í kringum gullkálfinn og kíkja í pakkann án þess að brenna sig, hafa heldur betur fengið á baukinn sem reyndar var vitað fyrir.
Talsmenn ESB hafa ávalt lýst því yfir að ekki sé hægt að semja sig frá grundvallar lögum og reglum sambandsins, einungis um tímabundinn aðlögunar tíma frá einstökum ákvæðum:
Úr handbók stækkunarferils ESB:
. Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu sem fylla 90 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið. [1] First, it is important to underline that the term "negotiation" can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules ... are not negotiable. (Sjá: http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/enl-understand_en.pdf
Alþingi ber að sýna heiðarleika og afturkalla umsóknina
Ekki verður séð hvaða tilgangi skýrslugerð um stöðu samningaviðræðna þjónar lengur. Ríkisstjórn og Alþingi hlýtur að bregðast við með sama hætti og afturkalla formlega umsóknina af sinni hálfu. Þjóðin var hvort eð er aldrei spurð hvort hún vildi ganga í ESB. En það hefði átt að gera áður en slíkt umsóknar- og aðlögunarferli færi í gang. Það er að mínu mati heiðarlegast og réttast að afturkalla umsóknina formlega eins og lofað var fyrir síðustu kosningar. Með hreint borð getum við lagt áherslu á góð samskipti Íslands og ESB á grunni tvíhliða samninga eins og við gerum við aðrar þjóðir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)