Sunnudagur, 27. október 2013
Góður pistill Ólafs Arnarsonar
"Hættulegustu óvinir sérhverrar þjóðar eru æfinlega innlendir umboðsmenn sem geingið hafa hinu erlenda kúgunarvaldi á hönd og reka erindi þess innanlands. Þessir menn eiga sitt lángfeðgatal í sögu þjóðarinnar eingu síður en frelsishetjurnar. Nafn Gissurar Þorvaldssonar er þeirra nafn, ætt þeirra hans ætt." ( Halldót Laxness af svölum Alþingishússins 1. des 1935) ávarpaði þjóðina
Ólafi Arnarsyni er þessi tilvitnun hugleikin í pistli sínum um vinnubrögð og hótanir slitastjórnana, fulltrúa kröfuhafa í þrotabú gömlu bankanna. Honum verður tíðrætt um undirlægjuhátt íslenskra stjórnvalda á síðustu árum. Mér verður hugsað til ESB umsóknarinnar og þeirra sem þar hafa beitt sér, og linkindarinnar gangvart erlendu kröfuhöfum bankanna. Allt er þetta af sama meiði. Erindrekar erlends kúgunarvalds
Og Ólafur hvetur stjórnvöld til dáða:
"Ekki er eftir neinu að bíða en það kallar vissulega á staðfestu að berja í borðið og segja við heimtufreka útlendinga og áfjáða, íslenska samverkamenn þeirra: Hingað og ekki lengra! Síðasta ríkisstjórn bjó ekki yfir slíkri staðfestu heldur bugtaði sig og beygði hvenær sem erlendir bankamenn og lögfræðingar í vönduðum jakkafötum lyftu brúnum. Það mun ráða miklu um afdrif núverandi ríkisstjórnar hvernig hún stendur í ístaðinu",
segir Ólafur og tek ég undir hvert orð hans.
Gjaldþrotaskipti lagalega skýr og gagnsæ
"Við gjaldþrot verða allar kröfur í gömlu bankana að kröfum í íslenskum krónum og mikilvægt er að setja ákvæði í gjaldþrotalög um að skiptastjórum sé óheimilt að aðhafast nokkuð það við skipti búa og útgreiðslur úr þeim til kröfuhafa, sem valdið getur óstöðugleika á gengi íslensku krónunnar" segir Ólafur, sem er alveg hárrétt:
"Það er tími til kominn að stöðva slitastjórnirnar og setja þrotabú gömlu bankanna í formlegt gjaldþrotaferli undir stjórn skiptastjóra að íslenskum lögum"
- Haustið 2008, við hrunið, lögðum við Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir þáverandi þingmenn Vg til að föllnu bankarnir færu beint í gjaldþrotameðferð eins og lá beinast við. Uppgjör við gjaldþrot lýtur skýrum lögum og þekktum reglum. Þar eru uppskiptin gagnsæ en lúta ekki duttlungum, handvali og spilamennsku eins og raunin hefur orðið. Því miður urðu önnur sjónarmið ofan á og undirlægjuhátturinn gangvart kröfuhöfunum, hluti af ESB umsókninni réð ferð. Síðan var það kórónað með því að afhenda kröfuhöfunum nýju bankana á silfurfati.
Ég er áfram þeirrar skoðunar að setja eigi gömlu bankana í gjaldþrotameðferð þótt seint sé. Aðrar leiðir verða ógangsæjar, ekki trúverðugar og "snjóhengjan" fellur að óbreyttu yfir þjóðina.
Pistill Ólafs fylgir hér með:
Erindrekar erlends kúgunarvalds
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.10.2013 kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 25. október 2013
Gefum ekki eftir okkar hlut í makrílveiðunum
Miklu skiptir að halda vel á okkar hlut í heildarveiði á makríl. Nú þegar veiðiheimildir í makríl hafa verið auknar er eðlilegt að hlutdeild Íslands í veiðinni hækki og fylgi þeim breytingum.
Falsaðar veiðitölur ESB - margfalda má með 1,7-3,6
Nýjustu rannsóknir sýna að veiðitölur ESB ríkjanna eru stórlega falsaðar og má margfalda skráðan afla þeirra með 1,7- 3,6. Himinn og haf milli gagna og stofnmats
Er það væntanlega skýring á að ESB hefur hvorki viljað leyfa fullt eftirlit með löndunum í höfnum sambandsins né taka þáttt í sameiginlegum rannsóknum um útbreiðslu og magn stofnsins.
Hér eru gríðarmiklir hagsmunir í húfi og skiptir máli að íslensk stjórnvöld standi vel í lappirnar og verji stöðu og rétt Íslendinga í makrílveiðunum.
Mikið og vaxandi magn makríls í íslenskri lögsögu.
Aldrei hefur mælst meira magn af makríl í íslenskri lögsögu en í ár eða liðlega 1.5 milljón tonna. Er það fjórða árið í röð sem makríllinn mælist yfir milljón tonn í lögsögunni. Heildarvístala makríls á því svæði sem rannsakað var í sumar reyndist um 8.8 milljónir tonna, þar af um 17% innan íslensku lögsögunnar. Er það álíka magn og mældist inna færeysku lögsögunnar. Þótt svæðið sem var rannsakað í sumar sé stærra en undanfarin ár er fjarri því að mælingarnar hafi náð yfir allt útbreiðslusvæði makríls . Niðurstöður rannsóknanna sýna að makrílstofninn er í örum vexti og útbreiðslusvæði hans stækkar og göngurnar færast vestar.
Makríllinn fer eins og ryksuga í nýjum beitilöndum
Makríllinn er ekki í neinni kurteisisheimsókn við Íslandstrendur, heldur er hann að leggja undir sig nýjar beitilendur: Stofn eins og makríll, sem fer vítt og breitt og étur mikið getur unnið svæðisbundinn skaða ef hann fer yfir viðkvæmt svæði á viðkvæmum tímum. Makríllinn er mjög þurftafrekur, hefur hröð efnaskipti og fitnar hratt á skömmum tíma í fæðugöngunni,segir forstjóri Hafrannsóknastofnunar í viðtali við mbl. 30. ágúst sl. Talið er að makríllinn auki þyngd sína um meira en 40% meðan hann er hér við land. Það er gríðarleg þyngdaraukning. Menn geta sér til um að hann þurfi að éta 2-3 milljónir tonna af sjávarfangi. það er augljóst að þegar kominn er nýr gestur sem tekur til sín 2-3 milljónir tonna af lífmassa þá minnkar framleiðslugeta annarra fiskstofna ef fæðunám skarast. Það getur leitt til staðbundinna áhrif á vöxt t.d. seiða þorsks og loðnu.
Ég sá þá það í Hólmavíkurhöfn í fyrrasumar að makríllinn hafði smalað sandsíli og seiðum inn í höfnina, króað þau af og síðna hirt upp eins og gríðarstór ryksuga. Allt þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar rætt er um makrílveiðar og hlut Íslendinga í þeim.
Ekki má bogna undan hótunum
Ráðgjöf fyrir heildarveiði í makríl á næsta ári hefur verið aukin um 65% frá síðasta ári eða úr 542 þús. tonnum í 895 þús. tonn. Í raun er sú tala meðaltals heildarveiði í makríl síðustu þriggja ára. Þar með er viðurkennd sú staðreynd sem við Íslendingar höfum haldið fram að makrílstofninn sé og hafi verið í mjög örum vexti í mörg ár og allt tal um ofveiði og ósjálfbærar veiðar verið rökleysan ein.
Þetta þýðir jafnframt að hótanir ESB um viðskiftaþvinganir og refsiaðgerðir vegna offveiði á makríl styðjast ekki við neinar raunverulegar forsendur aðrar en yfirgang og drottnunargirni framkvæmdastjórnar ESB. Ég kynntist því sem ráðherra að ESB hefur í raun haft lítinn áhuga á að rannsaka magn eða útbreiðslu makríls heldur að fá að deila og drottna í makrílveiðum á Norður- Atlantshafi.
Að deila og drottna
Samkvæmt fréttum virðast ísl. stjórnvöld reiðubúin að þiggja úr hnefa ESB aðeins 11,9% af hlutdeild í heildarveiði í makríl. En það er einum 4-5% lægri hlutdeild en við nú þegar höfum. Jafngildir þetta því að verið sé að gefa frá sér um 50- 60 þús. tonn af makríl til ESB og Noregs.
Mín skoðun er reyndar sú að ekki eigi að ganga til slíkra nauðasamninga og nú er talað um í makríl. Og alls ekki má bogna fyrir ríkjasambandi sem í krafti stærðar og óskammfeilni heldur uppi hótunum um beitingu valds eins og ESB hefur gert gangvart Íslendingum og Færeyingum. Færeyingar hafa þó enn haldið haus í deilunum við ESB um fiskveiðimálin, enda mikið í húfi, yfir 95% af útflutningstekjum þeirra.
Ég sem ráðherra taldi hæfilega hlutdeild okkar vera milli 16 og 17% af heildarveiði úr makrílstofninum. Tók ég þar mið af þáverandi magni og útbreiðslu makríls í íslenskri lögsögu. Lætur nærri að makrílveiði Íslendinga hafi gefið samtals um 100 milljarða króna í útflutningstekjur sl. 4-5 ár. Munar um minna.
Halda fast í okkar hlut
Ísland hefur á undanförnum árum áskilið sér rétt til að lágmarki 16 -17% af heildarveiði makríls en það er byggt á rétti strandþjóðar, magni makríls í íslenskri lögsögu og gríðarlegu fæðunámi hans hér við land.
Yfirstandandi samningaviðræður eru í skugga hótana Evrópusambandsins og hafa beina tengingu við aðildarviðræður Íslands sem ekki hefur verið slitið. Heimssýn telur að samningagerð og eftirgjöf undir hótunum Evrópusambandsins um viðskiptabann sé Íslandi sem fullvalda þjóð ekki samboðin.(Ályktun Heimsýnar 23.okt. sl)
Hér er mikið alvörumál og skiptir miklu að standa vörð um rétt og hagsmuni Íslands í makrílveiðunum.
(Birtist sem grein í mbl. 25.okt.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 21. október 2013
Framsókn að bogna í lykilmálum
Vaxandi vonbrigða gætir vegna fálmkenndra vinnubragða framsóknarmanna í mörgum meginmálum sem þeir hreyktu sér af og lofuðu í síðustu kosningabaráttu. En miklar væntingar eru bundnar við að þeir standi við stóru orðin.
Eftirgjöf í makríl
Sjávarútvegsráðherrann lætur nú ESB kúga sig til undirgefni í makríldeilunni. Samkvæmt fréttum ætlar hann að þiggja úr hnefa ESB aðeins tæp 12% hlutdeild í heildarveiði á makríl. En það er um 30% lægri hlutdeild en við nú þegar höfum. Jafngildir þetta því að verið sé að gefa frá sér um 50- 60 þús. tonn af makríl til ESB og Norðmanna. Búast við boði um 12 prósent makrílkvótans , ..Damanaki er hóflega bjartsýn
Að bogna undan hótunum
Svo virðist sem stjórnvöld séu að bogna fyrir ólögmætum hótunum ESB um viðskiptaþvinganir og fleiri refsiaðgerðir. Mín skoðun er reyndar sú að ekki eigi að ganga til slíkra nauðasamninga eins og nú er talað um í makríl. Og alls ekki á að bogna fyrir ríkjasambandi sem í krafti stærðar og óskammfeilni heldur uppi hótunum um beitingu valds eins og ESB hefur gert gangvart Íslendingum og Færeyingum. Færeyingar hafa þó enn haldið haus í deilunum við ESB um fiskveiðimálin, enda mikið í húfi, yfir 95% af útflutningstekjum þeirra.
100 milljarða útflutningsverðmæti í makríl á 4-5 árum
Ég minnist þess fyrir um ári síðan þegar sá orðrómur gekk að þáverandi sjávarútvegsráðherra hafi boðið ESB að lækka hlutdeild Íslendinga niður í tæp 14% af heildarveiðimagni makríls. Þá höfðu framsóknarmenn á þingi stór orð um svik og undirlægjuhátt ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms gangvart ESB. Verið væri að bogna fyrir hótunum. Ég sem ráðherra taldi lágmarks hlutdeild okkar vera milli 16 og 17% af heildarveiði úr makrílstofninum. Tók ég þar mið af magni og útbreiðslu makríls í íslenskri lögsögu. Lætur nærri að makrílveiði Íslendinga hafi gefið samtals um 100 milljarða króna í útflutningstekjur sl. 4-5 ár. Munar um minna. Kynnti sjónarmið Íslands um makrílveiðar fyrir ESB
Makrílstofninn í mjög örum vexti - höldum okkar hlut
Þrátt fyrir allt tal um ofveiði er makrílstofninn áfram í örum vexti og sækir stöðugt inn á ný beitilönd. Líkist hann helst stórri ryksugu í útrás og tekur til sin gríðarlegt magn fæðu sem annars væri étin af öðrum fiskum. Vissulega er nauðsynlegt að hlutaðeigandi þjóðir nái að semja um veiðistýringu og skiptingu veiðiheimilda í makríl. En við Íslendingar megum ekki láta hótanir beygja okkur til að samþykkja niðurlægjandi tilboð ESB eins og nú er látið í veðri vaka. Öðru vísi mér áður brá með yfirlýsingar Framsóknar í makrílmálum.
Orðaskak utanríkisráðherra
Mörgum fannst utanríkisráðherra standa sig vel í upphafi ferilsins en skortir að fylgja málum eftir. Hins vegar er fólk tekið að þreytast á innihaldslitlu orðaskaki ráðherrans við stækkunarstjóra ESB, Stefán Fule. Ísland er umsóknarríki þar til umsóknin er afturkölluð.
Stefna Framsóknarflokksins og loforð fyrir kosningar var refjalausa afturköllun umsóknarinnar að ESB. Skýrslugerð á skýrslugerð ofan lengir í flækjunni og herðir að snörunni hjá Framsókn að standa við kosningaloforðin. Úttekt á aðildarumsókn dregst
Makríllinn skiptir gríðarmiklu máli.
Eftirgjöf Framsóknar í makrílnum, sem liggur í loftinu, er slæm vísbending um framhaldið. Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi að við stöndum á rétti okkar í makríl, en lyppumst ekki niður fyrir hótunum ESB eins og nú ú er látið í veðri vak
Kröfur ESB hafa alltaf legið fyrir
Rétt er að minna á að ESB veitir engar varanlegar undanþágur og þarf ekki að gera neina sérstaka skýrslu þar um. Annað hvort ætla menn í ESB eða ekki. Framsókn getur ekki hoppað þar á öðrum fæti frekar en aðrir:Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu sem fylla 90 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið. [1] First, it is important to underline that the term "negotiation" can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules ... are not negotiable. (Sjá: http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/enl-understand_en.pdf).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 17. október 2013
Makrílveiðar Íslendinga auknar verulega á næsta ári
Ráðgjöf fyrir heildarveiði í makríl á næsta ári hefur verið aukin um 65% frá síðasta ári eða úr 542 þús. tonnum í 895 þús. tonn. Gefur það tilefni til aukins veiðimagns af Íslands hálfu. Í raun er sú tala, 895 þús. tonn, meðaltals heildarveiði á makríl síðustu þriggja ára. Byggir því ráðgjöfin einungis á veiðitölum. Þar með er viðurkennd sú staðreynd sem við Íslendingar höfum haldið fram að makrílstofninn sé og hafi verið í mjög örum vexti í mörg ár og allt tal um ofveiði og ósjálfbærar veiðar verið rökleysan ein. Öll rök okkar orðin sterkari
Þetta þýðir jafnframt að hótanir ESB um viðskiftaþvinganir og refsiaðgerðir vegna offveiði á makríl styðjast ekki við neinar raunverulegar forsendur aðrar en yfirgang og drottnunargirni framkvæmdastjórnar ESB.
Ég kynntist því sem ráðherra að ESB hefur í raun engan áhuga á að rannsaka magn eða útbreiðslu makríls heldur að fá að deila og drottna í makrílveiðum á Norður- Atlantshafi.
Firðir og víkur fullar af makríl
Og meðan ESB löndin héldu því fram að enginn makríll væri við Íslandsstrendur þá fylltust firðir og víkur af makríl kringum allt land. Þess vegna beitti ég mér sem ráðherra fyrir auknum rannsóknum á makríl í samstarfi við Færeyinga, Norðmenn og Grænlendinga. ESB hafnaði hinsvegar samstarfi um þær rannsóknir. Þar á bæ töldu menn sig væntanlega vita allt um það mál og þyrfti ekki rannsókna við.
Makríllinn í útrásStækkun makrílstofnsins og sókn hans norður er fyrst og fremst í ætisleit og að nema nýjar lendur og bússvæði. Stofninn stækkar að sama skapi.Breytt hitastig sjávar og fæðuframboð hvetur hann vestur og norður og nú allt upp með Grænlandsströndum. Sérstaða okkar hefur verið sú að nánast allur makríll Íslendinga er veiddur innan íslensku efnahagslögsögunnar.Það er mikið hagsmunamál að Ísland haldi rétti sínum og ekki lægri hlutdeild í heildarveiðimagni en við höfum haft undanfarin ár .
Miklir hagsmunir í húfi - höldum okkar hlut
Nú þegar veiðiheimildir í makríl hafa verið auknar er eðlilegt að okkar hlutdeild í veiðinni fylgi þeim breytingum. Makrílstofninn er í örum vexti og því viðbúið að veitt verði meir en ráðgjöfin segir til um eins og reyndin hefur verið undanfarin ár. Endi bygggir hún á veiðitölum.
Við gætum þess vegna þurft að auka okkar makrílkvóta enn frekar vegna stækkunar stofnsins til að halda óbreyttri hlutdeild af heildarveiðimagni. Hér eru gríðarmiklir hagsmunir í húfi og skiptir máli að íslensk stjórnvöld standi vel í lappirnar og verji stöðu og rétt Íslendinga í makrílveiðunum.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 11. október 2013
Að berja sér á brjóst í heilbrigðisumræðunni
Átök í síðustu ríkisstjórn um heilbrigðismálin
Forystumenn síðustu ríkisstjórnar eru þar engin undantekning síður en svo. Staðreyndin er sú að ástandið í heilbrigðismálum væri enn hrikalegra ef fjárlagafrumvörp fjármálaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði orðið óbreytt að lögum eins og ráðherrann lagði þau fram. Sem betur fer tóku þau nokkrum breytingum til batnaðar fyrir lokaafgreiðslu þingsins þótt stórfelldur niðurskurður væri því miður staðreynd.
Um fátt var tekist meir á um í síðustu ríkisstjórn en niðurskurðinn til heilbrigðismála. Þær litlu breytingarnar sem urðu frá frumvarpinu til lokaafgreiðslu fjárlaga voru fyrst og fremst tilkomnar vegna öflugrar baráttu heimafólks og starfsfólks einstakra stofnana og landshluta auk einstakra þingmanna þáverandi stjórnarliðs.Þessi átök þekki ég vel bæði sem þingmaður og ráðherra. Ég hef áður lýst því að þingmenn yfirgáfu Vg m.a vegna andstöðu við stefnu forystunnar í heilbrigðismálum og studdu ekki fjárlagafrumvarpið með þeim mikla niðurskurði sem fjármálaráðherra lagði til. Þeir vildu forgangsraða á annan veg.
Baráttan heldur áfram
Ég er viss um að íbúar og hollvinir heilbrigðisstofnananna á Sauðárkróki, Blönduósi, Húsavík, Vestmannaeyjum , Selfossi, Ísafirði og víðar um land muni eftir fjöldafundunum, slagnum sem tekinn var við ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms um heilbrigðismálin. Nú mun þetta sama fólk, hollvinirnir, heimafólk og starfsfólk þurfa að taka slaginn áfram við ríkisstjórn Sigmundar Davíðs og Bjarna Ben.
Og forystumenn Samfylkingar og Vinstri grænna munu gleyma sinni eigin ríkisstjórnarsetu og fara aftur í gamla farið, tala hæst og hneykslast á þeim sem nú eru í ríkisstjórn í stað þess að biðjast afsökunar á aðgjörðum sínum og aðgerðarleysi í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Það eru hinsvegar verkin sem þurfa að tala.
Hroki stjórnvalda
Það var öllum ljóst sem vildu vita að það stefndi í hreint óefni hjá Landspítalanum. Og þegar Þjóðkirkjan og biskup Íslands hvöttu til átaks til stuðnings tækjakaupa á Landspítalanum og öðrum heilbrigðisstofnunum um síðustu áramót réðust þáverandi formaður og varaformaður fjárlaganefndar, talsmenn ríkisstjórnarinnar á biskup með dylgjum og óhróðri:
RUV 3. Jan. 2013. Undrast söfnun kirkju (SII)
http://www.ruv.is/frett/undrast-sofnun-kirkju-sem-bad-um-meira-fe
Eyjan 3. Jan. 2013. Hvað á Sigríður Ingibjörg við?
http://www.pressan.is/Kaffistofan/Lesakaffistofu/hvad-a-sigridur-ingibjorg-vid?Pressandate=200904251'+or+1%3D%40%40version%2Fleggjumst-oll-a-eitt%2Fleggjumst-oll-a-%2F%2F%2F%2F%2F%2F%2F--------------
Heimasíða Björns Vals 3. Jan. 2013
http://www.bvg.is/bvg/2013/01/03/politiskar-akvardanir-umfram-annad
Mbl.is 3. Jan. 2013. Björn Valur og innanmein kirkjunnar
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/01/03/kirkjan_ekki_faer_adur_vegna_innanmeins/Nú koma svo fulltrúar fyrri ríkisstjórnar inn í umræðuna fullir vandlætingar og uppmálaðir helgislepjunnu.
Þarf þjóðarátak og þjóðarsátt um heilbrigðisþjónustuna
Reynslan síðastliðinn áratug sýnir að litlu skiptir hver fer með landstjórnina, heilbrigðisþjónustan er skorin og holuð innan. Fjárlögin að mestu óbreytt stefna
Staðreyndin er að það þarf hugarfarsbreytingu, þjóðarsátt, þjóðstjórn um enduruppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Þar verða allir að leggjast á eitt. Tímaglasið er runnið út.
Ráðist ekki grundvallarbót á verður að hafa sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)