Miðvikudagur, 31. október 2012
Staða og framtíð innanlandsflugsins tekin upp á Alþingi.
Í kjölfar frétta um að flugfélagið Ernir hyggist leggja af flug til minni staða á landsbyggðinni eins og til Gjögurs, Bíldudals, jafnvel Hafnar í Hornafirði og Húsavíkur, hef ég lagt fram fyrirspurn á Alþingi um hvernig Innanríkisráðherra hyggist bregðast við til að tryggja öryggi og framtíð áætlunarflugs til þessara staða. Stjórnvöld verða að bregðast við
Óþarft er að rekja hér mikilvægi þessa flugs fyrir þjóðina og skyldur við íbúa og atvinnulíf á þessum svæðum. Síðastliðinn vetur lagðist af áætlunarflug til Sauðárkróks þrátt fyrir loforð stjórnvalda um að svo yrði ekki. Jafnframt voru þá gefin fyrirheit um að flug til Sauðárkróks yrði tekið upp aftur með haustinu.Í áskorun sveitarfélaganna til innanríkisráðherra og Alþingis, sem birtist í fjölmiðlum í dag segir m.a.:
"Það er alvarleg staða sem upp er komin og má benda á að innanlandsflugið eru einu samgöngur Árneshrepps við umheiminn að vetri til. Það er algerlega ólíðandi að stjórnvöld láti hjá líða að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin og skorum við á innanríkisráðherra að beita sér fyrir því að tryggja að leiðréttur verði strax sá forsendubrestur sem orðinn er á verksamningi ríkisins við Flugfélagið Erni svo tryggja megi áframhaldandi flugsamgöngur til áfangastaða félagsins, segir í áskoruninni.
Mikilvægt er að íbúar á þessum stöðum, sem eru jafnframt útverðir byggðar og atvinnulífs á stórum svæðum fái um þetta skýr og ákveðin svör. Þetta er ekki aðeins mál fólksins, íbúanna á þessum stöðum, heldur og ekki síður þjóðarinnar allrar. Þess vegna verður innanlandsflugið tekið upp á Alþingi og spurt hvernig megi tryggja öruggt áætlunarflug til þessara staða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 29. október 2012
Guðbrandur Brynjúlfsson á Brúarlandi talaði tæpitungulaust á fundi VG í N.V. kjördæmi
Hvernig ætlar Vinstrihreyfingin grænt framboð að fara í kosningar með ESB málin opin og óafgreidd.? Hvernig ætla einstakir frambjóðendur að gefa kost á sér til framboðs með aðildarumsókn í gangi á ábyrgð flokksins, þvert á grunnstefnu hans?.
Það er ekki hægt að endurtaka leikinn frá síðustu kosningum og telja fólki áfram trú um að VG sé á móti umsókn og aðild að ESB, eins og reyndar stefna flokksins kveður skýrt á um, en styðja áframhaldandi samninga og aðlögun að ESB?.
Allir vita að umsóknarferlið er algjörlega á forsendum ESB og því ferli lýkur ekki fyrr en við höfum innleitt flestar gerðir sambandsins.
Samningurinn og samningsvinnan er á ábyrgð ráðherra VG með Samfylkingunni. Ráðherrar VG munu þurfa að undirrita samninginn þegar þar að kemur eins og þeir staðfesta nú samningsskilyrði og einstaka kröfur ESB í ferlinu.
Það er ekki nóg að vera á móti aðild að ESB eins og við sem hér eru inni en styðja svo áframhaldandi aðlögunarferli sem enginn getur sagt fyrir um hvað stendur mörg ár enn.
Fyrir mér er þetta mikið alvörumál sem flokkurinn getur ekki vikist undan að afgreiða fyrir kosningar. Traust og trúnaður kjósenda til flokksins hefur beðið mikinn hnekki.Við höfum misst þingmenn, fjölda forystufólks, félaga og fært miklar fórnir vegna ESB stefnu flokksins í ríkisstjórn með Samfylkingunni.
Bæði einstakir frambjóðendur, þingmenn, ráðherrar og flokkurinn í heild verður að gera hreint fyrir sínum dyrum í ESB málinu og útkljá málið, áður en kosningabaráttan hefst.
Ég sé ekki, hvernig óbreytt staða með ESB umsóknina inn í næsta kjörtímabil gengur fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð._- -Þetta var inntak ræðu Guðbrands Brynjúlfssonar á Brúarlandi á Mýrum á kjördæmisráðsfundi VG í Norðvesturkjördæmi í Árbliki, Dölum í gær.
Guðbrandur hefur mikla reynslu í stjórnmálum. Hann var einn af stofnendum Alþýðubandalagsins á sínum tíma og átti síðar virka og beina aðild að stofnun Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.
Guðbrandur hefur alla tíð verið einn af öflugustu einstaklingum í forystusveit Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og staðið með stefnuskrá hennar.
Ég get tekið undir með Guðbrandi Brynjúlfssyni á Brúarlandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 27. október 2012
Ófrávíkjanlegar kröfur Íslendinga gagnvart ESB
Nú er unnið að mótun samningsafstöðu Íslands gagnvart ESB í 12. kafla er varðar matvælaöryggi, dýra og plöntuheilbrigði.
Þetta er einn af afdrifaríkustu þáttum okkar Íslendinga í samningum við ESB og því mikilvægt að talað sé skýrt og staðið fast á ófrávíkjanlegum hagsmunum Íslendinga í þessum efnum.
Baráttumál Vinstri grænna
Af hálfu Íslands verður því að setja fram mjög afdráttarlausa kröfu og skilyrði í viðræðunum við ESB, sem tryggi öryggi og verndun íslenskra búfjárkynja og plantna með þeim varanlegu undanþágum sem landið hefur haft skv. EES samningnum og barist var fyrir og staðfest með hinum s.k. matvælalögum árið 2010.
Matvælalögin s.k. sem samþykkt voru á Alþingi 2010 samhljóða og mótatkvæðalaust undirstrika og staðfesta rétt Íslendinga til að beita þessum lagalegu vörnum til verndar viðkvæmum búfjárkynjum landsins, fæðu og matvælaöryggis þjóðarinnar. Þessi ákvæði matvælalaganna voru einmitt sérstakt baráttumál Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs við síðustu alþingiskosningar, sem lauk giftusamlega með samþykkt laga frá Alþingi.
Skýrar varnarlínur
Bændasamtök Íslands létu framkvæma mjög vandaða úttekt og greiningu á stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart ESB og þeirri áhættu sem tekin væri með umsókn og/ eða aðild að ESB og hvernig bæri að taka á einstaka efnisþáttum í samningaviðræðunum.
Settu þau fram ákveðin grundvallaratriði varðandi þá samninga sem þau kölluðu " varnarlínur" Bændasamtakanna í landbúnaðarmálum, matvæla- og dýraheilbrigðismálum og tollamálum.
Frá upphafi samningaferilsins við ESB lýsti ég því yfir sem ráðherra, að ég gerði varnarlínur Bændasamtakanna að mínum hvað áðurnefnda þætti varðar. Tilkynnti ég það með formlegum hætti í ríkisstjórn á sínum tíma og að á þeim væru grunnsamningskilyrði Íslendingas byggð í þessum málaflokkum.
Ófrávíkjanlegar kröfur í dýraheilbrigðismálum
Nú er komið er að því að leggja fram samningsafstöðu Íslands um 12 . kafla - Matvælaöryggi og dýra og plöntuheilbrigði. Þar verða tilgreindar lágmarkskröfur Íslendinga í þessum viðræðum.
Í ljósi mikilvægis þessa máls fyrir Íslendinga og ofangreindra skilyrða sem liggja fyrir, er það mitt mat að íslensk stjórnvöld verði að setja fram í texta samningsafstöðunnar skýlausa og ófrávíkjanlega kröfu um að Ísland fái haldið varanlega rétti sínum og undanþágum hvað varðar bann við innflutningi á lifandi dýrum og innflutningi á hráum ófrosnum dýraafurðum og bann við innflutningi tiltekinna planta og trjáa en framselji ekki þann rétt til Brussel.
ESB verði krafið svara innan tiltekins tímafrests um afstöðu sambandsins til þessara atriða á grundvelli þess að hér sé um ófrávíkjanleg skilyrði af hálfu Íslands að ræða fyrir áframhaldandi viðræðum um kaflann.
Talað tæpitungulaust
Við ætlum ekki að gefa eftir kröfu okkar um bann við innflutningi á lifandi dýra og hráum ófrosnum dýraafurðum og það á að orða það skýrt í þeim texta sem fer frá Íslendingum til ESB hvað þennan málaflokk varðar. Meðan ferlið og aðlögunin er ekki stöðvuð af hálfu Alþingis eða umsóknin borin undir þjóðina, verður Ísland að setja fram með skýrum og afdráttarlausum hætti kröfur sínar, fyrirvara og ófrávíkjanlegu skilyrði í samningaviðræðunum sem ekki verði samið um.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 25. október 2012
Glæsilegur sigur kvennalandsliðsins í knattspyrnu
Kvennalandsliðið í knattspyrnu yljar svo sannarlega landanum þessa dagana með frábærri knattspyrnu.
Baráttan og leikgleðin geislaði af hverju andliti í leiknum gegn Úkraínu sem var að ljúka. Þær ætluðu svo sannarlega að vinna, stúlkurnar og gerðu það.
Ég minnist viðtals við Helga Símonarson, bónda og kennara frá Þverá í Svarfaðardal fyrir nokrum árum. Helgi fyllti vel hundrað árin og hvort það var í viðtali af því tilefni man ég ekki, en hann var spurður um, hvað honum finndist skemmtilegast að horfa á í sjónvarpi.
Og Helgi svaraði að bragði, fótbolti, og mótmælti harðlega aumingjaskapnum í ríkissjónvarpinu að sleppa sýningaréttinum á beinum útsendingum frá enska fótboltanum.
Er hann var spurður hvers vegna fótbolti, svaraði hann: "að horfa á fjörugan fótboltaleik er eins og að hlusta á góða musik, maður hrífst með taktinum og hrynjandinni í leiknum".
Þannig fór einnig hjá mér við að horfa á þennan frábæra leik beggja liða, Íslands og Úkraínu í kvöld á vellinum. En tónsprotinn var verðskuldað í höndum íslenska liðsins.
Til hamingju stúlkur með glæstan sigur.
Mánudagur, 22. október 2012
Dagróðrabátar veiða síld upp við landsteina á Breiðafirði
Það er mér persónulegt gleðiefni að 32 smábátar skulu nú þegar hafa fengið leyfi til síldveiða og hafið veiðar á innanverðum Breiðafirði. Síldveiði í Breiðafirði.
Það var sérstakt baráttumál hjá mér að losa um hluta síldveiðiheimildanna úr höndum stórútgerðarinnar til smábáta. Áður urðu heimamenn að horfa á síldina nánast ganga á land í stórum torfum án þess að mega veiða einn einasta fisk. Það gerðist þó ekki átakalaust. Og þó hér sé aðeins um 2000 tonn að ræða, skipta þau máli til atvinnu og verðmætasköpunar í þeim sjávarbyggðum sem geta nýtt sér það.Eins og fram kemur á meðf. frétt Mbl. eru fiskverkendur sem taka á móti síldina og vinna hana alla á staðnum bæði í Stykkishólmi og á Rifi.
Síldin er fullunnin í heimahöfnum á svæðinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 20. október 2012
Eflum smábátaútgerð - Stöðvum ESB- umsókn
Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda var haldinn sl. fimmtudag og föstudag.
Mér finnst það mjög öflug og góð samkoma. Talað er tæpitungulaust um hlutina en af metnaði og virðingu fyrir greininni og mikilvægi smábátaútgerðarinnar. http://www.smabatar.is/frettir/
Útgerðir minni báta, dagróðrabáta og strandveiðibáta eru víða undirstaða byggðar atvinnulífs og menningarsamfélaga vítt og breytt um landið.
Þar sem sú útgerð er í sókn fjölgar fólki og innviðir samfélagsins styrkjast og blómgast. Sjávartengd ferðaþjónusta, sem er vaxandi atvinnugrein, miklvæg stoð i uppbyggingu ferðaþjónustu í strandbyggðum, byggir einmitt á einyrkjum og þessum minni sjávarútvegsfyrirtækjum. Að sjálfssögðu skiptir öll útgerð miklu máli fyrir sjávarbyggðirnar vítt og breytt um landið sem og þjóðarbúið í heild. Eina leiðin til að sporna gegn aukinni samþjöppun í sjávarútvegi er að standa vörð um smábátaútgerðina og gefa henni aukna möguleika og hlutdeild á sjávaraflanum. Í þessum anda starfaði ég sem sjávarútvegsráðherra.
Hvatt til sjálfstæðis í utanríkismálum
Félag smábátaeigenda veit líka hvar er harðast sótt að þeim og hvar ógnin er mest. Aðalfundurinn mótmælti harðlega umsókninni um aðild að ESB og telur augljóslega að ekki þurfi að kíkja í pakkann eða bíða eftir mútufé til að sjá hversu arfavitlaus og stórhættuleg umsóknin er. Auðvitað á að stöðva þessa dýru vitlausu og að umsóknarvinna fari ekki aftur í gang fyrr en að undangenginni þjóðaratkvæðgreiðsu, þar sem spurt er hvort viltu ganga í ESB eða ekki. Um það snýst málið. Þar er vilji Landssambandsins skýr. Smábátaeigendur hafna ESB-aðild
Afdráttalaus ályktun Aðalfundar LS gegn umsókn og aðlögunarferli að ESB er okkur sem berjumst þar í víglínunni mikil hvatning.
Höfnum framsali á fullveldi í tillögum Stjórnlagaráðs
Ekki trúi ég að félagar í Landssambandi smábátaeigenda munu styðja tillögur Stjórnlagaráðs um að fella á brott greinina í núverandi stjórnarskrá þar sem segir:
"Með lögum má takamarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyritæki hér á landi".
Ætli okkur þyki ekki betra að hafa þessa stoð áfram í stjórnarskránni þegar tekist er á um kröfur allra "Nubóa" og ESB um uppkaup á landi, jörðum og afnámi takmarkana á fjárfestingum erlendra aðila í ísl. sjávarútvegi .
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 16. október 2012
" Núbóar " gleðjast yfir tillögum Stjórnlagaráðs
"Ákveðið var að fella út 2. mgr. 72. gr. núgildandi stjórnarskrár sem takmarkar rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi og hlut í atvinnufyrirtækjum á Íslandi".
Hún lætur lítið yfir sér þessi tillaga Stjórnlagaráðs um breytingu á stjórnarskránni sem kosið verður um n.k. laugardag. En lagt er þar til að fella brott úr núgildandi stjórnarskrá síðari málsgrein 72. greinar um stjórnarskrárbundna heimild til að mega takmarka eignarrétt og kaup útlendinga á fasteignum eða hlut í atvinnufyrirtækjum hér á landi:
" Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi".
segir í núgildandi stjórnarskrá. Stjórnlagaráð leggur til að þessi setning verði felld brott úr stjórnarskránni.
Í skýringum með tillögum Stjórnlagaráðs segir:
" Ákveðið var að fella út 2. mgr. 72. gr. núgildandi stjórnarskrár sem takmarkar rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi og hlut í atvinnufyrirtækjum á Íslandi. Þessi málsgrein þykir stangast á við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að og heimila Íslendingum hindrunarlaust að eiga fasteignaréttindi og hluti í atvinnufyrirtækjum erlendis. Rætt var í Stjórnlagaráði hvort takmarka ætti rétt bæði Íslendinga og erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi en horfið var frá því.
Að mínu mati er mjög mikilvægt að halda þessu ákvæði í stjórnarskránni sem öruggri stoð fyrir setningu laga um fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi.
Hinsvegar munu væntanlega allir "Nubóar" og stuðningsmenn þeirra fagna því, ef þessir breytingar ná fram að ganga.
Tekist er einmitt á um það í ESB viðræðunum hvort afnema eigi takmörkun á eignarhaldi og fjárfestingum útlendinga í íslenskum sjávarútvegi hér á landi og beygja sig þar með undir kröfur ESB.
Með því að afnema þetta ákvæði úr stjórnarskrá opnar það verulega fyrir erlenda aðila til að fjárfesta í fasteignaréttindum hér á landi og erfiðara en áður að setja þeim skorður með lögum.
Framhaldssagan um kaup eða leigu kínverjans Núbó á Grímsstöðum á Fjöllum ætti að færa okkur heim sanninn um að frekar ætti að þrengja en rýmka rétt útlendinga til fjárfestinga og uppkaupa á fasteignaréttindum hér á landi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)