Miðvikudagur, 30. janúar 2013
Áætlunarflug að nýju til og frá Sauðárkróki
Áætlunarflug hófst að nýju á Sauðárkrók í gær, en rúmt ár er síðan það lagðist af. Það er flugfélagið Eyjaflug í Vestmannaeyjum eða Air Arctic eins og það er nefnt í símaskrá. Vélin er 10 sæta og sæmilega rúmgóð.
Fyrsta ferðin var farin í gærmorgun um áttaleytið. Afgreiðslan er hjá Flugfélagi Íslands á Reykjavíkurflugvelli.
Fall er fararheill
Eftir smá byrjunarörðugleika í skráningu farþega hóf vélin sig á loft með 9 farþega innanborðs. Ég hafði tekið mér far með vélinni, bæði til að prófa kostinn og eins átti nokkur stutt erindi á Sauðárkrók. Veðrið var gott , en þegar lenda átti á Alexandersvelli við Sauðárkróki kviknaði ekki á einu ljósi við lendingarhjól svo í öryggisskyni var snúið aftur til Reykjavík, þar sem lent var heilu og höldnu. Eftir um 3ja tíma bið var lagt í hann aftur og gekk nú ferðin vel og lent mjúklega á Alexandersflugvelli á Sauðárkrók um 3 leytið. En þá voru farþegarnir orðnir tveir. Ég átti góðan dag á Sauðárkrók, fékk bílaleigubíl hjá Birni Mik. og gat gert mest það sem áætlað var og síðan flogið til baka rúmlega 6 og lent í Reykjavík um 7- leytið.
Afar þægilegt
Tekið fast á málum á Alþingi til að tryggja flugið
Ljóst er að þessar flugleiðir til minni staða geta ekki borið sig fjárhagslega án stuðnings. Enda er flugið einn af mikilvægum þáttum í almannasamgöngum í landinu. Það er óþolandi að áætlunuarflug til staða eins og Sauðárkróks, Gjögur, Bíldudals, Hafnar í Hornarfirði, Þórshafnar og Raufarhafnar svo dæmi séu tekin verði reglulega í óvissu eða felld niður vegna hárra gjalda á flugið og vegna skorts á nauðsynlegum stuðningi hins opinbera. Ég hef beitt mér sérstaklega á Alþingi í þessum málum. En fleiri þingmenn hafa einnig barist vel í flugmálunum.
Árangur náðist
Og við lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2013 tókst að fá samþykkt nægilegt fé til stuðnings innanlandsfluginu þannig að hægt væri að halda áfram reglubundnu flugi til þessara staða og bæta inn Sauðárkrók á ný. Þess vegna er það mér sérstök ánægja að áætlunarflug hefjist nú að nýju til Sauðárkróks. En ég geri mér samt grein fyrir því að fjárveitingin sem þó fékkst til innanlandsflugsins er svo skorin við nögl að áætlunarflug til þessara minni staða mun áfram berjast í bökkum.
Sveitarstjórnarmenn tóku fast á málinu
Áætlunarflug er ett helsta baráttumál viðkomandi sveitarfélaga og hefur Sveitarfélagið Skagafjörður og sótt endurupptekningu flugsins af miklu kappi og leggur nú til umtalsvert framlag frá sér til að treysta grundvöll flugsins.
Allt flug fer jú til Reykjavíkur og þar eru flest erindi fólksins. Væri ef til vill eðlilegra að Reykjavíkurborg niðurgreiddi flugið á móti ríkinu í stað litlu sveitarfélaganna á landsbyggðinni ? Arðurinn af viðskiptum og þjónustukaupum fólksins fellur nánast allur til Reykjavíkur.
Metnaðarull flugáætlun
Fluáætlunin á Sauðárkrók er metnaðarfull: Mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga eru tvær ferðir á dag fram og til baka. Fimmtudaga, föstudaga og sunnudaga er ein ferð fram og til baka.
Hér með er Vængjum eða Air Arctic óskað farsældar í þessu flugi og íbúum Skagafjarðar, svo og landsmönnum öllum sendar heillaóskir af þessu til efni.
(Nánar um flugið á Eyjaflug.is)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 29. janúar 2013
Í minningu látins vinar
Það er nú einu sinni svo að sumt fólk fær sérstakan sess í hug og hjarta samferðamanna sinna. Það átti sérstaklega við um Guðmund Ágústsson eða Gúnda eins og við kölluðum hann daglega.
Ekki man ég hvenær leiðir okkar lágu saman fyrst en líf hans og starf var svo tengt Kaupfélagi Stykkishólms að um tíma fannst manni eins og hann hefði alltaf verið þar. Sérstaklega er nafn hans í mínum huga tengt búðinni sem Kaupfélagið átti en hann sá um og hafði að geyma allt á milli himins og jarðar.
Þessi búð var reyndar sjaldnast kennd við Kaupfélagið heldur gekk undir nafninu Gúndabúð. Þar fengust hamrar og naglar, sagir og sandpappír, fóðurbætir og áburður, vasahnífar og leiktæki - svo fátt eitt sé nefnt.
Fyrir jólin fylltist allt af jólaskrauti og leikföngum til gjafa fyrir jólin. Það sem skipti þó mestu var að gleði, gamansemi, greiðvikni og einstök lipurð fyllti andrúmsloftið í þessari ævintýralegu búð hans Gúnda. Alltaf hljóp Guðmundur við fót, enda léttur á sér ávalt með bros á vör. Guðmundur var glettinn, kímnin í góðu lagi og varð sjaldan svarafátt. Eitt sinn kom maður í búðina og vildi kaupa stóran hníf. Því miður á ég ekki hníf eins og er, en ég á snæri svaraði Gúndi með alvörusvip.Meðan ég bjó í Bjarnarhöfn held ég að hafi eiginlega aldrei komið svo til bæjarins án þess að líta við í Gúndabúð til þess að fá eitt og annað sem vantaði, auk þess að spjalla við Guðmund sjálfan og hann kunni vel að segja frá.
Ég hef einnig þá trú að viðmót gagnvart börnum segi meira en flest annað um þann innri mann sem hver hefur að geyma. Guðmundur var einstaklega barngóður og ég minnist þess sérstaklega að börnin okkar Ingibjargar dáðu Gúnda og búðina hans og enginn var svo lágur í loftinu að hann fengi ekki sömu athyglina og þeir sem eldri voru og jafnvel gott betur. Og þau minnast hans öll nú með mikilli hlýju.
Svipaða sögu um hlýtt viðmót má reyndar segja um allt starfsfólk Kaupfélagsins, en ég kynntist því vel persónulega bæði sem viðskiftavinur, stjórnarformaður félagsins í nokkur ár og einnig sem starfandi kaupfélagsstjóri um tíma.
Eftir að Kaupfélagið hætti starfsemi sinni fór Guðmundur að vinna í olíuafgreiðslunni við innkeyrsluna í bæinn.
Þar í búðinni tók hann á móti öllum með sömu gleði og léttleika sem bauð alla velkomna í bæinn.
Við sem vorum burtflutt fundum að við vorum komin heim. Þar á bensin - og olíuafgreiðslunni vann Gúndi svo lengi sem starfþrek entist. Guðmundur var vinmargur og með kærleiksríkri framkomu setti hann mark sitt á allt samfélagið þar sem við vorum þiggjendur.
Nú er hún Gúndabúð horfin en eftir standa minningarnar um einstaklega góðan og hlýjan mann. Þær minningar geymum við, samferðafólk Guðmundar og yljum okkur við og þökkum honum samferðina.
Blessuð sé minning Guðmundar Ágústssonar.
Við sendum Dísu og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.
(Guðmundur Ágústsson fæddist í Reykjavík 21. júlí 1939. Hann lést á Sjúkrahúsi Stykkishólms þriðjudaginn 8. janúar 2013.Foreldarar hans voru Ágúst Stefánsson og Katrín Guðmundsdóttir. Þau eru bæði látin. Guðmundur kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Vigdísi Kristjönu Þórðardóttur, 9. september 1967. Fyrstu 5 búskaparárin bjuggu þau í Reykjavík en árið 1972 fluttu þau til Stykkishólms, þar sem þau bjuggu alla tíð síðan. Sonur þeirra, Hafþór Smári Guðmundsson, fæddist 16. apríl 1968.Útför Guðmundar fór fram frá Stykkishólmskirkju laugardaginn 19. jan sl. að viðstöddu fjölmenni )
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 19. janúar 2013
Hugsjónir og stefna ekki til sölu
-Segir í stefnuskrá Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, en undir merkjum þessarar stefnu bauð VG fram við síðustu Alþingiskosningar.
Áfram segir í stefnuyfirlýsingu VG:
Samskipti við ESB þróist í tvíhliðasamningum
Samskipti við Evrópusambandið( ESB) ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála. Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of.Fullveldi Íslands var úrslitamál hjá VG
Og frambjóðendur VG , sem voru trúir stefnu flokksins voru ekki í neinum vandræðum með að rökstyðja sitt mál án minnimáttarkenndar á grunvelli stefnuyfirlýsingarinnar: Lýðræðislega kjörin stjórnvöld á Íslandi geta sjálf tekið ákvarðanir um lagabreytingar hliðstæðar þeim sem ákveðnar eru innan ESB, ef þau svo kjósa og þá út frá eigin forsendum. Aðild að ESB myndi skerða fullveldi Íslands enn frekar en orðið er með EES-samningnum og tefla í tvísýnu yfirráðum Íslendinga yfir auðlindum sínum.Alþjóðleg viðskipti einkennast í síauknum mæli af því að þar eru þrjú stór markaðssvæði, Evrópusambandið, Ameríka og Suðaustur-Asía. Óráðlegt er fyrir smáríki eins og Ísland sem er bæði mjög háð innflutningi og útflutningi að taka sér stöðu innan tollmúra ESB. Íslendingar verða að geta samið um viðskipti við aðrar þjóðir á eigin forsendum".Ekkert til sem heitir að kíkja í pakkann í stefnuskrá VG
Hjá VG var öllum það fullljóst frá stofnun hreyfingarinnar, að það var ekkert til sem heitir að kíkja í pakkan. Þeir sem síðar eru að halda því fram til heimabrúks, og réttlæta aðgerðir sínar eru að blekkja sjálfan sig og aðra.
Áfram segir í stefnuyfirlýsingu VG:
Áróður um að Ísland geti gengið í ESB en fengið undanþágur frá grundvallarsáttmálum þess er varasamur. Undanþágur eru jafnan hugsaðar til skamms tíma á meðan aðlögun á sér stað. Íslendingar eiga ekki að sækjast eftir sérsamningum heldur axla sömu ábyrgð og önnur fullvalda ríki á alþjóðavettvangi.
Umsóknin að ESB, aðildar og aðlögunarferlið allt gengur gegn stefnu VG og þvert á þau kosningaloforð sem frambjóðendur hans og þingmenn gátu gefið og gáfu samkvæmt þeirri stefnu.
Afturkalla ber umsóknina og segja "fyrirgefðu"
Sá heimiliskattaþvottur sem nú á sér stað í að "hægja á umsókninni " vegna ótta við umræðuna fyrir kosningar, og þora ekki með hana inn í þingið, er sömuleiðis ómerkileg blekking, því aðlögunarvinnan er á fullu í ráðuneytum, stofnunum og stjórnsýslu. " Brusselmaskinan" gengur. Peningarnir, milljarðarnir sem ESB veitir til að koma landinu í Sambandið streyma inn óbreytt. Hverjum verður treystandi fyrir framhaldinu eftir kosningar?
Það ber að afturkalla umsóknina að ESB og hætta þessum blekkingar og skrípaleik.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 16. janúar 2013
Um heilbrigðan aðskilnað viðskifta- og fjárfestingabanka
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga frá okkur Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur um að skilja á milli starfsemi fjárfestingabanka og viðskiftabanka. Frumvarpið er samhljóða þeim sem ég ásamt fleiri þingmönnum hef flutt allt frá 2003.
Í skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra um framtíðarskipan fjármálakerfisins frá í mars 2012 er einmitt talið að óæskileg tengsl milli þessara þátta hafi átt snaran þátt í rótum kreppunnar 2008.
Alhliða bankar hafi fyrir tilstuðlan ríkisábyrgðar á innstæðum og vegna annarra óheppilegra hvata í fjármálakerfinu haft tilhneigingu til að stunda áhættusamar fjárfestingar sem skattgreiðendur hafi borið mikinn skaða af.
Frumvarpið mælir af þeim sökum fyrir um að starfsheimildir viðskiptabanka verði takmarkaðar við hefðbundna viðskiptabankaþjónustu með nokkuð svipuðum hætti og ákveðið var við setningu laga nr. 77/2012 um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki er varðaði sparisjóði.
Kominn tími aðgerða
Í frumvarpinu er lagt til að starfsemi viðskiptabankanna verði bundin við inn- og útlánastarfsemi en ekki viðskipti og þjónustu með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti en undir þau lög fellur meðal annars verðbréfamiðlun, viðskipti fyrir eigin reikning og fjárfestingarráðgjöf.
Með hliðsjón af því að fjárfestingastarfsemi viðskiptabankanna hefur verið í lágmarki eftir hrun fjármálakerfisins má halda því fram að nú sé hentug tímasetning til þess að breyta lagaumhverfi fjármálafyrirtækja með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þrátt fyrir víðtækar skýrslugerðir, þingsályktanir og pólitískar yfirlýsingar frá byrjun þessa kjörtímabils um að þessi aðskilnaður verði gerður, hefur því miður ekkert orðið úr efndum. Þvert á móti er flutt frumvarp um sölu á hlutum ríkisins í núverandi bönkum með óbreyttri umgjörð hvað þetta varðar. Ég var ekki sammála þeim áherslum. Að mínu mati á fyrst að setja bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum skýra umgjörð, til dæmis um þennan aðskilnað.
Þar að auki er ekki rétti tíminn nú til að selja banka. Ég er reyndar eindregið þeirra skoðunar að ríkið, fólkið í landinu, skuli eiga að fullu einn sterkan banka sem hægt sé að gera samfélagskröfur til, enda er það .
Að standa við orð sín og stefnu
Endurskipan bankanna hefur verið eitt af stærstu málum Vinstri grænna á undanförnum árum. Græðgisvæðingin, spillingin og hrunið er rakið til þess að hluta hvernig þar fór allt úr böndum.
Í landsfundarályktun VG frá í mars 2009 segir m.a:
Starfsemi bankanna sinni eingöngu inn- og útlánastarfsemi fyrir almenning auk grunnþjónustu við atvinnuvegina. Þeir bankar sem einungis sinna fjárfestingar- og áhættustarfsemi séu aðskildir almennri bankastarfsemi og séu alfarið á ábyrgð eigenda þeirra.
Flokksráðsfundur VG í nóv 2010 krefst þess að tryggður verði með lögum aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingasjóða og að afnumin sé með lögum verðtrygging lána og þak sett á fjármagnskostnað.
Á flokksráðsfundi VG í febrúar 2012 ríkti bjartsýni um að nú fari eitthvað raunverulegt að gerast í þessu baráttumáli flokksins:
Flokksráð fagnar að ráðuneyti bankamála skuli vera komin á ábyrgð Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs og felur nýskipuðum ráðherra bankamála að flytja frumvarp til laga um aðskilnað starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka sem þingmenn flokksins hafa flutt endurtekið á fyrri þingum.
Frumvarpi okkar þremenninga er einmitt ætlað að fylgja eftir í verki þessu baráttumáli VG áður en kjörtímabilið er úti.
Fleiri sömu skoðunar
Í september sl. var gerð könnun meðal landsmanna. Hún sýndi eftirfarandi:
Rúmlega 80% landsmanna eru fylgjandi aðskilnaði á starfsemi fjárfestingabanka og viðskiptabanka að því er fram kemur í nýrri könnun sem Capacent framkvæmdi að beiðni Straums fjárfestingabanka. Könnunin var lögð fyrir 1375 manns, en af þeim svöruðu 827. 80,2% þeirra voru alfarið, mjög eða frekar hlynnt aðskilnaði, en aðeins 4,2% voru andvíg aðskilnaðinum. Rúmlega 15% svarenda sögðust hvorki vera hlynnt né andvíg." (Heimild: Morgunblaðið).
Vilji Íslendinga í þessum efnum er því ljós.
Til fróðleiks má nefna að hið sama er uppi á teningunum í breska þinginu en samkvæmt fréttum Fiancial Times sýndi árleg skoðanakönnun í Bretlandi að um 2/3 breskra þingmanna eru nú hlynntir aðskilnaði viðskipta og fjárfestinga í starfsemi bankanna. Meirihluti í öllum flokkum á Bretlandi var hlynntur þessum aðskilnaði.
Heilbrigð fjármálastarfsemi
Ég hef ásamt fleiri þingmönnum Vinstri grænna lagt þunga áherslu á að starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingabanka verði aðskilin með lögum. Ég tók þetta mál ítrekað upp í ríkisstjórn á meðan ég átti þar sæti og sömuleiðis í þingflokknum. Þrátt fyrir glaðbeittar yfirlýsingar hafa menn reynt að kaupa sér tíma frá aðgerðum með þingsályktunum og skýrslugerð. Að sjálfsögðu er mikilvægt að aðskilnaðurinn sé vel rökstuddur og framkvæmdin rétt útfærð. En ákvörðunin er engu að síður pólitísk. Nú eru aðstæður til að hrinda þessari stefnu í framkvæmd. Tillaga okkar Atla og Lilju kveður skýrt á um hvernig það skuli gert á einfaldan hátt með lögum. Vonandi nær frumvarp okkar fram að ganga fyrir þinglok í vor.
( birtist sem grein í mbl.sl. laugardag)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 8. janúar 2013
Yfirlýsing vegna framboðsmála VG í Norðvesturkjördæmi
Ég undirritaður oddviti Vinstrihreyfingarinnar grænt framboð í Norðvesturkjördæmi hef ákveðið að gefa ekki kost á mér á framboðslista VG í komandi Alþingiskosningum.
Við Alþingiskosningar 2009 fékk Vinstrihreyfingin grænt framboð yfirburða kosningu í Norðvesturkjördæmi og 3 þingmenn. Enginn vafi er á að einörð stefna og áherslur flokksins og okkar sem skipuðum þá forystusveit, átti hljómgrunn og stuðning meðal íbúa kjördæmisins og raunar langt út fyrir mörk þess. Kjörorðin -vegur til framtíðar- vörðuð trausti og trúnaði voru aðalsmerki Vg í þeirri kosningabaráttu og eftir þeim gildum hef ég starfað.
Ég hef setið á Alþingi sem fulltrúi VG frá því flokkurinn fékk fyrst kjörna menn á þing 1999 og átt virkan hlut í að móta grunnstefnu flokksins og áherslur ásamt mörgu öðru góðu fólki.
Það hafa orðið mér vonbrigði hvernig haldið hefur verið á mörgum stefnumálum VG síðustu misseri og vikið frá þeim gildum sem hann var stofnaður um.
Afstaða mín og skoðanir í þeim málum eru öllum kunnar. Ég nefni hér umsóknina um aðild að ESB þvert á grunnstefnu flokksins og gefin kosningaloforð, niðurskurð til velferðarmála, ásamt því hvernig hert hefur verið með margvíslegum hætti að íbúum á landsbyggðinni.
Þótt ég hafi nú ákveðið að gefa ekki kost á mér til framboðs fyrir VG við næstu alþingiskosningar mun ég áfram leggja mitt af mörkum og berjast fyrir þær hugsjónir og grunngildi sem ég hef verið talsmaður fyrir og starfað eftir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 3. janúar 2013
Skýr skilaboð frá kjósendum VG
Nýjasta skoðanakönnun Gallup sýnir að VG er aðeins með 9,1% fylgi, sem er ekki helmingur þess sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum.
Vissulega er þetta aðeins skoðanakönnun, skilaboð, en hún kemur okkur ekki á óvart, sem þekkjum vel til í grasrótinni. Umsókn að ESB, þvert á grunnstefnu flokksins og loforð fyrir síðustu alþingiskosningar kom almennum kjósendum hans í opna skjöldu. ESB umsóknin tekur auk þess í gíslingu flest önnur mál og umræðu þjóðfélagsins , sem er algjörlega óviðunandi.
Kjósendur VG hafa fengið gjörsamlega upp í kok af þrákelkni þeirra forystumanna VG sem hafa keyrt þessa ESB umsókn áfram , sumir undir þeim formerkjum að kíkja í pakkann. Sömu aðilar þykjast vera á móti aðild, en standa samt að margvíslegum breytingum á stjórnsýslu og innviðum að kröfu ESB og þiggja milljarða króna frá sambandinu til aðlögunar íslensks samfélags að ESB.
Í síðustu fjárlögum var keyrt um þverbak, en þar er gert ráð fyrir milljörðum króna til aðlögunar og aðildarvinnu að ESB á næstu árum auk enn frekari óbeinna fjárskuldbindinga, langt inn í næsta kjörtímabil. En VG er samt á móti aðild!
Þingmenn, forystufólk í félögum VG vítt og breytt um landið hafa séð sig knúna til að yfirgefa flokkinn, og stuðningsfólki sem treysti á VG hefur verið fórnað á altari ESB - einsmálsstefnu Samfylkingarinnar.Til þess að bjarga VG frá hruni og endurvekja traust á baráttu fyrir grunngildum flokksins verður formaðurinn og aðrir forystumenn sem gengið hafa í björg ESB að brjótast undan því valdi og losa sig úr þeim álögum þegar í stað.
Þarna er í raun ekkert val. Hér dugar enginn heimilskattaþvottur, svo gengið sé í smiðju forsætisráðherra Samfylkingarinnar.Forysta Vinstri Grænna , sem þarna á í hlut, verður einfaldlega að stíga fram og biðja þjóðina og kjósendur VG afsökunar fyrir að hafa gengið undir þessi álög ESB og Samfylkingarinnar.
Því næst ber að stöðva aðildarviðræðurnar við ESB nú þegar og koma þeim algjörlega útaf borðinu. Við eigum þess í stað að beina kröftum að öðrum mikilvægari verkefnum sem nóg er af og semja við ESB innan EES eða beint á tvíhliða forsendum eins og önnur ríki. Það er ekkert til sem heitir að kíkja í pakkann hjá ESB. Makríldeilan er gott dæmi um það og er fínt að hafa hana sem afsökun fyrir þá sem þurfa þess.
Viðræður um aðild að ESB eiga ekki að hefjast aftur nema að þjóðin hafi samþykkt að óska eftir aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu. Tillögur þessa efnis frá mér og fleirum liggja bæði fyrir utanríkismálanefnd og Alþingi og verða vonandi samþykktar hið bráðasta.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)