Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekur völdin!

Formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa gefist upp. Eftir ráðleysi og hnútukast undanfarna daga hafa þau Geir og Ingibjörg sammælst um að leita á náðir Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og fela honum  stjórnun á mikilvægustu þáttum í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar næstu árin.   

Á fréttamannafundi í dag greindu þau Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir  frá því að sótt yrði um  liðlega 200 milljarða lán til sjóðsins  og í framhaldi af því myndi önnur lönd koma með 400 milljarða lán. Utan við þessar lánveitingar standa svo um 550 milljarðar óútkljáðir á innlánsreikningum í Bretlandi og Hollandi.  

Bæði Bretland og Holland  eiga  fulltrúa í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ekki ólíklegt að þau munu tryggja hagsmuni sinna umbjóðenda við endanlega afgreiðslu sjóðsins. Kannski er það hluti af því sem ekki má upplýsa. Samtals geta því verið um 1200 milljarða skuldbindingar á ferðinni. Og eru þá ekki öll kurl komin til grafar í kröfum erlendis frá.   

Geir og  Ingibjörg neituðu að svara um til um skilyrði,  kröfur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða önnur lánskjör. Það yrði að gæta trúnaðar við sjóðinn þangað til stjórn hans væri búin að fjalla  um málið. „Stjórnarmenn sjóðsins  vilja náttúrulega ekki heyra um skilmálana í fjölmiðlum og svo væru þetta enn bara drög“ sagði Ingibjörg Sólrún.

Hins vegar fannst bæði Ingibjörgu og Geir alveg sjálfssagt að halda  Alþingi  eða íslensku þjóðinni utan við umræðuna. Þau gætu bara látið sér nægja að heyra skilmálana í fjölmiðlum eftir á. Skuldbindingar sem geta numið  meira en 4 milljónum á hvert mannsbarn í landinu. Skuldafjötra til næstu áratuga.  

Hvers vegna alla þessa leynd? Erum við ekki öll  komin með upp í kok af allri þessari leynd stjórnvalda sem búin eru að koma okkur á kaldan klaka einmitt með leyndinni.   Íslenska þjóðin veit vel að við stöndum frammi fyrir einum mestu hörmungum af manna völdum sem yfir okkur hafa dunið um aldir. En hún vill fá öll spilin á borðið og ræða skuldbindingarnar og koma sjónarmiðum á framfæri áður en hún er fjötruð.  Meira að segja í  Úkraínu virðist lýðræðið meira en hér á landi  því þar hefur þingið fjallað um úrræði í efnahagsþrengingunum og skilmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins opinskátt.

 Þingflokkur VG hefur óskað eftir því  að  Alþingi Íslendinga verði  þegar kvatt saman og þessi mál kynnt  og  rædd  svo og í nefndum þingsins. -    Erum við ekki stödd í lýðræðisþjóðfélagi ?  -  Ekki veitir nú að hafa standa vörð um lýðræðið í landinu og hefja það aftur til vegs á þessum síðustu tímum.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband