Góður þáttur hjá Silfri Egils

 Svandís  Svavarsdóttir minnti á stefnu og baráttu Vinstri Grænna fyrir öðru gildismati en því  sem ríkt hefur undanfarin 17 ár  undir forystu Sjálfstæðisflokksins -  fyrst með Alþýðuflokknum sáluga,  þá með  Framsókn í 12 ár og nú síðast með Samfylkingu.

 Egill reyndi  að gera Vinstri Græna samábyrga fyrir ríkisstjórnarstefnunni undanfarin ár og afleiðingum hennar. Svandís  rakti þá  baráttu VG  fyrir öðrum gildum-  gegn einkavæðingu  allra bankanna  og því  hömluleysi sem á eftir fylgdi.

Nú berðist  þingflokkur VG einn á þingi gegn  stóraukinni  einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar, sem ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks áformar að hrinda af stað.   En að öðru leyti stóð Egill sig vel sem þáttar stjórnandi. 

 Svandís minnti á helmingaskiptaregluna sem gilt hefði  milli gæðinga Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins við einkavæðingu og sölu ríkiseigna.  Sú útdeiling varð síðan gróðrastía þess sem á eftir fór.   

Það var því hárrétt  hjá Sigmundi Gunnlaugssyni í þættinum  að benda á að sömu taktar um helmingaskipti virtust nú  uppi milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. En  Björgvin viðskiptaráðherra hefur  einmitt skipað aðstoðarmann sinn og flokksfélaga Jón Þór Sturluson  nýjan formann stjórnar Glitnisbanka.

Ragnar Önundarson,  sem einnig var í Silfrinu hefur þráfaldlega varað við því  að hverju stefndi í íslensku fjármála- og efnahagslífi.  Hefði betur verið tekið mark á hans  vel rökstuddu viðvörunum.   

Ragnar hélt því  hinsvegar fram að allir stjórnmálamenn hefðu sofið á verðinum og bæru jafna ábyrgð.  

Þar veit Ragnar betur því þingmenn Vinstri Grænna hafa haldið upp sömu  varnaðarorðum og hann  á Alþingi og flutt tillögur um aðra stefnu í efnahagsmálum. 

Nú eru flestir sammála okkur í VG um að stefna  ríkisstjórnarinnar undanfarin ár hafi verið kolröng og mörg  afdrifarík mistök gerð bæði  af hálfu stjórnvalda og eftirlitsstofnana þeirra. Að setja alla stjórnmálamenn undir sama hatt í ábyrgð á stjórn landsmála er því  hluti af þeirri veruleika firringu sem þarf að takast á við. 

 Hvort sem VG hefði tekist betur eða verr ef þau hefðu  verið við stjórnvölinn - ber sá flokkur ekki  ábyrgð á stefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins undanfarin 17 ár. Þingmenn eiga þar að njóta sannmælis.

Þá  voru varnaðarorð Ragnars Önundarsonar gegn knékrjúpi fyrir  Alþjóðagjaldeyrissjóðnum skýr og sterk.  

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er fyrst og fremst til að tryggja hag óbreytts, óhefts markaðskerfis  í heiminum og hann hugsar þar á alþjóðavísu. Sjóðurinn mundi  væntanlega  krefjast þess að íslenskur almenningur  greiði  upp skuldir útrásarfyrirtækjanna  í öðrum löndum.

 

 Þá er betra að taka á sig hörð ár en selja sjálfstæði sitt í hendur  Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og lúta kröfum hans. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband