Innlend áburðarframleiðsla til landbúnaðar

 Í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag hvatti ég  landbúnaðarráðherra til láta fara fram hagkvæmis athugun á þvi að hefja á ný köfnunarefnisvinnslu og áburðarframleiðslu hér landi. Það gæti verið leið til að halda niðri framleiðslukostnaði og vöruverði jafnframt því að auka á sjálfstæði innlendrar landbúnaðarframleiðslu.

 Eflum lífræna ræktun

Enn fremur lagði ég til að gripið verði til aukinna sértækra aðgerða til eflingar og stuðnings við lífræna ræktun en sá búskapur er mun síður háður erlendum aðföngum. Eftirspurn eftir þeim vörum fer vaxandi og innflutningur á lífrænum matvörum hefur aukist mikið á síðustu misserum. Gífurlegar hækkanir á áburði og öðrum erlendum aðföngum til landbúnaðarins kalla á bæði skammtíma og framtíðar aðgerðir af hálfu stjórnvalda og atvinnugreinarinnar sjálfrar.

Miklar hækkanir á erlendum aðföngum landbúnaðarins

Samkvæmt þeim gögnum sem nú liggja fyrir mun verð á áburði til bænda hækka um 70-80% milli ára. Áburðarmarkaðurinn á Íslandi er um 62 þús. tonn og verðmæti hans um 2,5 milljarðar króna. Hækkunin í ár mun auka kostnað bænda um 1,2 milljarða króna. Áburðarkaup eru um 6% af heildarútgjöldum kúabúa og um 10% hjá sauðfjárbændum. Búast má við áframhaldandi hækkunum á  þessum aðföngum hér á landi sem annarsstaðar í heiminum og fylgja þær að stórum hluta alþjóðlegu orkuverði. Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtaka Íslands rekur í síðasta Bændablaði áhrif þessara hækkana á landbúnað og vöruverð: „ Ljóst er að þessar hækkanir verða ekki bornar af bændum einum. Þær verður að sækja m.a. út í afurðaverð ef fjöldi bænda á ekki að leggja niður sinn rekstur. Hér eru á ferðinni öfl sem lítt verður ráðið við, en kalla á skilning og skoðun af hálfu ráðamanna ekki bara á Íslandi  heldur um allan heim“.   

 Hækkandi áburðarverð- hvað er til ráða“:

 Tjörvi Bjarnason deildarstjóri útgáfusviðs B. Í. veltir þessum málum upp í síðasta Bændablaði: „Ýmsar hugmyndir eru á lofti m.a. hvort raunhæft sé að endurreisa áburðarverksmiðju í landinu eða að niðurgreiða áburð sem einskonar mótvægisaðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar en ekkert er fyrirliggjandi í þeim efnum“. Ríkisstjórnin hefur boðað aðgerðir til að lækka eða halda niðri matvælaverði  í tengslum við nýgerða kjarasamninga.  Ljóst er að bæði neytendur og framleiðendur landbúnaðarvara eiga mikið undir í þessum efnum og þá einnig sá mikli fjöldi fólks sem vinnur i úrvinnslugreinum landbúnaðarins vítt og breytt um landið.  Því er mjög rökrétt að ríkisstjórnin horfi til þess hvernig megi halda aftur af  verðhækkunum á  aðföngum landbúnaðarins.

Innlend áburðarframleiðsla

Á  Alþingi í dag  spurði ég landbúnaðarráðherra m.a. hvort hann vildi  beita sér fyrir athugun á hagkvæmni þess að hefja köfnunarefnisvinnslu og áburðarframleiðslu að nýju hér á landi  í ljósi hinna miklu verðhækkana áburði. Landbúnaðarráðherra tók undir málið og sagði: „Ég er fyrir mitt leyti tilbúinn til þess að taka þátt í slíkri könnun í samvinnu við hagsmunaaðila og viðskiptalífið. Eðlilegast er að sjálfssögðu að frumkvæði að þessu komi frá atvinnulífinu sjálfu  enda yrði rekstur slíkrar verksmiðju væntanlega á forræði fyrirtækja í eigu einstaklinga eða samtaka þeirra.“ 

  Þessum málum verður fylgt enn frekar eftir  á Alþingi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband