Kvótakerfið og kosningaloforðin 2009

 Bæði Vinstri græn og Samfylking höfðu lofað uppstokkun á fiskveiðistjórnunrkerfinu og lagt fram afdráttarlausa stefnu sína í þeim efnum. Það átti að vera eitt af fyrstu verkum í nýrri ríkisstjórn.

Nokkur munur var á áherslum; Samfylkingin hugsaði fyrst og fremst um allsherjar uppboð og auðlinda- eða veiðigjöld.

Þau vildu jú ganga í ESB og þar með færi auðlindin undir Brusselvaldið sem réði því hver veiddi.

Sömu skoðunar voru jú margir í VG,  sérstaklega þau sem harðast börðust fyrir inngöngu í Evrópusambandið.

"Hafið bláa"

Vinstri græn vildu stýra veiðunum til innlendra aðila og treysta fjölþætta útgerð og vinnslu í landinu og sem mestan virðisauka innanlands og í hinum dreifðu byggðum. Uppstokkun kerfisins væri númer eitt.

Hafði VG gefið út sérstakt rit " Hafið bláa" þar sem stefnan var útlistuð

Vinstri græn unnu stóran kosningasigur vorið 2009. Fengum m.a. 3 þingmenn kjörna í Norðvestur kjördæmi og munaði örfáum atkvæðum að VG yrði stærsti flokkurinn í kjördæminu.

Við lögðum þunga áherslu á sjávarútvegsmálin, breytingar á kerfinu til þess að tryggja og treysta rétt sjávarbyggðann í fiskveiðum og vinnslu.

Við ætluðum okkur stóra hluti í þeim efnum í nýrri ríkisstjórn.

 Loforð formannanna við L.Í.Ú.

 Ögmundur Jónasson rekur í bók sinni "Rauði þráðurinn" hve okkur kom á óvart þegar formenn ríkisstjórnarflokkanna, Vinstri grænna og Samfylkingar höfðu samið um við forystu L Í Ú að ekki yrði gerðar neinar grundvallar breytingar á fiskveiðikerfinu á næstu árum.

 Heldur skyldi skipuð " sáttanefnd allra hagsmunaaðila" og stýrt utan ráðuneytisins.

Væri það hluti af svokölluðum "stöðugleika samningi við atvinnulífið". Vissum við hvað það þýddi: Ekkert átti að gera.

Ég hafnaði þessu ákvæði í stöðugleikasamningum sem sjávarútvegsráðherra – taldi það algerlega ótækt og sama gerði Ögmundur Jónasson.

Það gekk líka þvert gegn einu af dýrustu loforðum ríkisstjórnarflokkanna fyrir kosningar sem var að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu í samræmi við stefnu flokkanna. 

Ráðherraskipan vorið 2009

Ég man þessa stund eins og hafi gerst í gær. - Þingflokkarnir eru á Grandhóteli að ganga frá ráðherraskipan.

Jóhanna og Steingrímur kalla mig fram á gang: Jóhanna er nokkuð óðamála og segir að Kristján Möller neiti að hætta sem ráðherra og hún ráði ekki við málið.

 En talast hafði svo til að ég yrði samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra enda hugnaðist mér það best.

 Eftir nokkuð orðaskak segist ég þá skuli taka sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytið.

Það skein nú engin sérstök gleði úr augunum, en með það förum við aftur inn á fundina.

 Sjávarútvegsmálin átti að salta

Stuttu síðar kallar Jóhanna okkur aftur út.

Jóhanna segir þá að það séu miklar efasemdir um mig sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í sínum hópi.

Ekki aðeins út af ESB þar sem hún óttast afstöðu mína sem ráðherra heldur einnig út af áformum okkar um grundvallar breytingar á stjórn fiskveiða.

Jóhanna fer þá að tala um samkomulag sem þau Steingrímur hefðu gert við L.Í. Ú. um að gera engar grunn breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu næstu árin.

Væri það hluti af “stöðugleikasamningi “ við samtök atvinnulífsins.

Segir hún að L.Í Ú. treysti mér ekki í þeim efnum, ég myndi keyra fram breytingar.

Stakk hún upp á að sjávarútvegurinn væri tekinn undan sjávarútvegsráðuneytinu og settur inn í forsætisráðuneytið.

Sagði ég að slíkt kæmi ekki til greina. Ég myndi beita mér eins og gæti til þess að ná fram breytingum á stjórn fiskveiða bæði til skemmri og lengri tíma eins og við hefðum lofað. 

Jóhanna bar sig mjög aumlega og sagði að L.Í.Ú. neitaði að skrifa upp á “stöðugleikasáttmálann” nema þetta væri tryggt. Sem mér fannst alveg fráleitt að ansa.

Út úr þessu kom svo “Guðbjartsnefndin” sem átti bara að vinna í 3 mánuði og var hátt á annað ár.

Og í framhaldi fleiri leikrit þar sem markmiðin virtust vera að tefja allar grundvallarbreytingar á kerfinu og halda ráðherra frá þeirri vinnu.

Nefndarstarfið " Guðbjartsnefndi" dróst og dróst og niðurstaðan varð sú eftir nærri tvö ár að málið stóð á upphafspúnkti eins og vitað var.

Enn heyrist mér ætlunin að fara að skipa nefnd til þess að drepa málum á dreif og enn er talað um “stöðugleikasáttmála”

 L Í Ú. og stórútgerðin “vildi” veiðigjöld en kerfið sjálft látið í friði

 Ég vissi svo sem að stórútgerðin myndi aldrei í alvöru setja sig upp á móti auðlindagjöldum og veiðigjöldum nema bara svona til málamynda:

“Þá verður alltaf þrasað á alþingi um upphæðir og prósentur veiðigjalda og tekist á um auðlindagjöld.”

Kvótakerfið og samþjöppunin í greininni verður látin í friði”.

Sú varð líka raunin.

Stórútgerðarmennirinr höfðu þar rétt fyrir sér.

Eftirmenn mínir á ráðherrastóli hugsuðu fyrst og fremst um veiðigjöld, en létu kvótakerfið sjálft og samþjöppunina óáreitta.

Gamla L.Í. Ú. forystan glotti, hún hafði náð sínu fram

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband