Heim að Hólum í Hjaltadal

Skagafjörðurinn var sem áður fagur yfir að líta í gærkvöldi. Logn og sjórinn  spegilsléttur svo langt sem augað eygði. Drangey tróndi  eins og drottning fyrir miðjum firðinum með Tindadstólinn á aðra hönd, Málmey og Þórðarhöfðann á hina.

 Frjáls Héraðsvötnin liðu hægt og tignarlega til sjávar og lituðu hafflötinn langt út á fjörð.

Ég keyrði inn Hjaltadalinn og heim í hlaðið á Hólum. Hvert spor snerti viðkvæma strengi og ljúfar minningar rifjuðust  upp frá nær 20 ára skólastjóratíð minni  og okkar Ingibjargar á Hólum. Hér uxu börnin okkar úr grasi og sambúðin með frábæru fólki, nemendum og íbúum mynduðu þetta sérstaka en góða samfélag á Hólum.

Hið helga og tignarlega biskups- og skólasetur er ekki aðeins stolt Skagafirðinga heldur alls Íslands.

Sjálfstæði Hólastaðar 

Sjálfstæði Hóla og sterkur, samstilltur stuðningur heimamanna, héraðsins og stjórnvalda er þó forsenda fyrir stöðu, tign og starfi  staðarins á hverjum tíma.

Biskupssetri og skóla var lokað eftir aldamótin 1800, en skólinn endurreistur í nýrri mynd árið 1881, en þá ríktu mikil harðindi í landinu og fólksflutningar til Ameríka. Endureisn Hóla þá var viðspyrna  Norðlendinga við erfiðum kjörum fólks og sókn til framtíðar. Að hefja Hóla til vegs á ný var veigamikill þáttur í fullveldisbaráttu þjóðarinnar.

Hin nýja endurreisn Hóla 

Skólanum var þó því miður  lokað 1978,  mest vegna afskiptaleysis stjórnvalda og undir merkjum "hagræðingar í skólamálum" sem þá var í gangi.  Skagfirðingar og Norðlendingar allir létu þá ekki bjóða sér þessa framkomu og skólinn var aftur endurreistur 1981. Ég var svo lánmsamur að fá verkefnið að stýra þeirri endurreisn, sem tókst vel . Hólar í Hjaltadal  hafa vaxið og dafnað samfellt síðan.

Það var mikill sigur að fá biskupssetrið aftur heim að Hólum og mér finnst það eigi að vera bundið í lögum að bæði biskup og rektor skólans hafi fasta búsetu á Hólum og rektorinn sé jafnframt ábúandi Hólajarðarinnar fyrir hönd ríkisins. Þannig var það í minni tíð á staðnum.

"Hagræðing kontórista fyrir sunnan" versti óvinur Hóla 

En svo sem oft áður eru það ekki hallæri og þjóðflutningar sem eru verstu óvinir Hóla Í Hjaltadal, heldur eru það skilningslaus og metnaðarlítil stjórnvöld sem eru ógn staðarins.

Blinduð og þröngsýn hagræðingarkrafa skekur enn á ný starfsumgjörð Hóla. Sama "hagræðingarveiki"  stjórnvalda er nú   að kyrkja systurstofnun Hólaskóla, Hvanneyri í Borgarfirði. Núverandi stjórnvöld virðast ætla með góðu eða þó helst illu að loka Hvanneyri sem skólsetri og leggja starfsemina undir stofnanir í Reykjavík.

Það þarf hug og bein hné fyrir Hóla í Hjaltadal

Sama hótun og sama svipa vofir yfir  Hólum í Hjaltadal. Hagræðingin er skipulögð á skrifborðum fjarlægra kontórista í Reykjavík sem metnaðarlitlir stjórnmálamenn fylgja eftir í blindi.

Ég kynntist vel þessum öflum sem skólastjóri, þingmaður og ráðherra og átti oft beinan þátt í að stöðva framgang þeirra og snúa málum til betri vegar fyrir skólastaðina.

Ég hef áhyggju af framtíð Hóla og "hagræðingarbrölti" stjórnvalda. Ég  hvet ráðherra og þingmenn kjördæmisins til þess að sýna meiri metnað og stuðning við skólasetrin á Hólum og Hvanneyri en nú  virðist í boði.

Hugur og barátta heimamanna ræður einnig hér miklu um. Nú eru sveitarstjórnarkosningar á  næsta leiti.  Mér verður þvi  á þessari stundu hugsað til Hóla í Hjaltadal. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband